Viðskiptanetið stofnað í Kaupmannahöfn

Þeim íslensku fyrirtækjum sem starfa í Danmörku og Sendiráð Íslands hefur vitneskju um var boðið í móttöku á vegum sendiráðins þann 27.september. Tilefnið var stofnun íslenska Viðskiptanetsins, vettvangs fyrir íslensk fyrirtæki til að tengjast sín á milli.

Húsfyllir var í móttökunni en þangað mættu um það bil 100 manns sem allir eiga það sameiginlegt að eiga eða reka fyrirtæki í Danmörku. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra hélt erindi og fjallaði um viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur í gegnum tíðina. Hann sagði að í ljósi sögunnar ætti ekki að koma á óvart að íslensk fyrirtæki sæktu til Danmerkur þegar kæmi að alþjóðavæðingu þeirra.

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair hélt einnig erindi og fjallaði um sögu og starfsemi Icelandair, en fyrirtækið heldur upp á 70 ára afmæli á árinu.

Þá hélt viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Danmörku, Ragna Sara Jónsdóttir, erindi um umsvif íslenskra fyrirtækja í Danmörku. Hún sagði að viðskiptaþjónusta sendiráðsins hefði vitneskju um 133 íslensk fyrirtæki í Danmörku sem störfuðu á margvíslegum sviðum, allt frá fjármálastarfsemi til sjávarútvegs, smásölu og ferðamála. 49% fyrirtækjanna hafa verið stofnuð af íslenskum frumkvöðlum í Danmörku, 26% eru fjárfestingar Íslendinga í dönskum fyrirtækjum, 19% eru útibú frá íslenskum fyrirtækum á Íslandi, og 6% eru að hluta til í eigu íslenskra frjárfesta.

Í kjölfar móttökunnar, sem mæltist mjög vel fyrir hjá fulltrúum fyrirtækjanna, verður stofnað svokallað Viðskiptanet sem er vettvangur fyrirtækjanna til að hafa samskipti sín á milli og vettvangur Viðskiptaþjónustu sendiráðsins til þess að koma upplýsingum til fyrirtækjanna. Þá verður einnig farið verður í endurbætur á viðskiptahluta heimasíðu sendiráðsins.


Video Gallery

View more videos