Viðburðarríku afmælisári lokið

Afmælisári Jónasar Hallgrímssonar lauk í Kaupmannahöfn 16. nóvember sl. með hátíðardagskrá í Jónshúsi sem Böðvar Guðmundsson, rithöfundur og framkvæmdastjóri Jónasarársins í Danmörku, stýrði.

Jónasarárið hófst einnig í Jónshúsi 16. nóvember 2006 þar sem Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn og kórinn Staka fluttu lög við ljóð Jónasar og Böðvar Guðmundsson flutti erindi um skáldið.

Á árinu var efnt til skoðunarferðar á Regensen þar sem margir íslenskir stúdentar bjuggu löngum, þar á meðal Jónas Hallgrímsson. Var ferðin undir leiðsögn garðprófasts, Eriks Skyums Nielsens, eins mikilvirkasta þýðanda íslenskra bóka á dönsku.

Í september var efnt til Jónasardaga og kom hópur Íslendinga til Hafnar, alls um 30 manns, að taka þátt í hátíðahöldunum. Farið var til Sorö, undir leiðsögn Böðvars Guðmundssonar, Fífilbrekkuhópurinn hélt tónleika þar sem flutt voru lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð skáldsins, efnt var til ráðstefnu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas og gönguferðar á söguslóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur.

16. nóvember sl. var svo efnt til Jónasarkvölds í Jónshúsi Sigurðssonar. Böðvar Guðmundsson stýrði samkomunni og hafði í tilefni dagsins m.a. þýtt ævintýri Jónasar á dönsku. Þá var frumflutt tónverk eftir Nínu Björk Elíasson við texta úr bréfum Jónasar sem vakti mikla lukku en það var kvennakórinn sem það flutti undir stjórn Sigríðar Eyþórsdóttur. Þá flutti kórinn Staka tónlist undir stjórn Stefáns Arasonar. Einnig var á þessari skemmtun kynnt ný bók með 20 ljóðum þýddum á dönsku af Sören Sörensson, sem hann las upp sjálfur með miklum tilþrifum. Ljóðabókin heitir Landet var fagert og er önnur ljóðabókin á dönsku sem birtist á árinu af þessu sama tilefni. Hin fyrri var Danmark, dejligst vang og vænge með ljóðum sem íslensk skáld höfðu ort á dönsku. Það var Páll Skúlason sem safnaði saman ljóðunum og gaf bókina út.

Iceland review gaf út fallegt hefti með nokkrum ljóðum Jónasar á dönsku. Útgáfan gaf um 2000 eintök til Danmerkur þar sem þeim hefur verið dreift til fjölda aðila.

Auk þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd fluttu þau Kristján Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir lög við ljóð Jónasar á fjórum menningarkvöldum á Fjóni og í Horsens en þar lagði Böðvar Guðmundsson einnig sitt af mörkum með erindi um skáldið. Það var Vibeke Norgaard Nielsen sem átti heiðurin naf því að skipuleggja þessi fjögur menningarkvöld.

Það voru Langvads-sjóðurinn undir forystu Sörens Langvads sem styrkti Jónasarhátíðina í Danmörku ásamt Kaupþingi þar sem Sigurður Einarsson ákvað myndarlegt framlag til verkefnisins. Icelandair gaf farmiða fyrir listamenn og sérfræðinga sem tóku þátt í hátíðarhöldunum. Þá kostaði menntamálaráðuneytið ferð Fífuilbrekkuhópsins til Danmerkur.

Aðstandendur Jónasarársins voru: Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, menntamálaráðuneytið, Dansk-Islandsk Samfund, Jónshús, Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn, Kórinn Staka, Bókmenntaklúbburinn Thor, Nordisk forskningsinstituts og Kaupmannahafnarháskóli.

Á myndinni sést Böðvar Guðmundsson stýra lokasamkomu Jónasarársins í Jónshúsi.

Video Gallery

View more videos