Verk Helga Þorgils sýnd í Bryggjunni

Verk Helga Þorgils sýnd í Bryggjunni

Sýning á verkum Helga Þorgils Friðjónssonar myndlistarmanns verður opnuð í Bryggjusalnum niðri á jarðhæðinni föstudaginn 5. september.

Á sýningunni eru mestmegnis ný málverk auk portrettmynda. Myndefnið sækir listamaðurinn að vanda í náttúruna, þareru fiskar, fuglar og svo maðurinn sjálfur.

Fyrirtækið Skipti styrkti sýninguna myndarlega fyrir milligöngu sendiráðsins og var þess vegna gefin út forkunnarfalleg sýningarskrá.

Svavar Gestsson sendiherra opnar sýninguna og má lesa opnunarávarp hans hér fyrir neðan.

Lesa má meira um verkin og manninn hér:

http://www.cia.is/news/oktober05/helgi.htm

og hér:

http://www.bryggen.dk/default.asp?news=103&Doc=9

Ávarp við opnun sýningar Helga Þorgils Friðjónssonar á Bryggjunni, 5. september 2008.


Heiðraða samkoma!

Helgi Þorgils, Helga og Hreinn!

Má ég byrja á því að þakka Hreini Jakobssyni sérstaklega fyrir þann stuðning sem  fyrirtækið Skipti veitti þessari glæsilegu sýningu. Það er ekki algengt að það sé beinlínis hægt að halda á árangri svona stuðnings en það er hægt núna. Skipti þar sem Hreinn er forstjóri styrkti gerð sýningarskrárinnar sem er einstaklega falleg og listaverk út af fyrir sig. Skilaðu Hreinn þökkum til Brynjólfs Bjarnasonar og Péturs Óskarssonar hjá Símanum sem tóku ákvörðun um þessa styrkveitingu – ég veit að þeim mun þykja gaman að fá þessa gersemi í hendur. Má ég líka færa hönnuði bókarinnar Sigrúnu Sigvaldadóttur sérstakar þakkir.

Má ég líka nota þetta tækifæri til að þakka Helgu Hjörvar forstjóra Bryggjunnar fyrir einstaklega ánægjulegt, gefandi og spennandi samstarf þessi misseri sem ég hef starfað hér. Ég hlakka til þess að eiga við hana samstarf áfram þann tíma sem ég verð hér í Kaupmannahöfn.

Ég veit reyndar að þessi sýning stendur sumum hjarta okkar sérstaklega nærri. Það er vegna þess að málarinn er úr Dölunum eins og við Úlfur maður Helgu Hjörvar. Dalirnir láta ekki mikið yfir sér í íslensku landslagi en þeir eru risi í Íslandssögunni í gegnum aldirnar og þaðan koma skáldin; á síðustu öld til dæmis Stefán frá Hvítadal, Steinn Steinarr og Jóhannes úr Kötlum. Þeir ortu allir hyllingarkvæði til umhverfisins, en líka pólitísk kvæði, heimsósómaljóð og eru allir meðal fremstu frumkvöðla íslenskra bókmennta.

En nú yrkja Dalamenn líka með litum og list. Til dæmis Helgi Þorgils Friðjónsson. Verk hans eru sprottin úr náttúrunni heima en jafnframt úr heimslistinni. Hann býr stærstan hluta ársins að Kjarláksstöðum á Fellsströnd þar sem bjó á landsnámsöld landsnámsmaðurinn Kjarlákur gamli. Á aðra hönd við Helga er lítil á, sem hefur  valdið meira rifrildi en nokkrar aðrar jafnlitlar ár í heiminum; á sömu hlið er skógurinn sem lifði af ofbeit íslensks sauðfjár, fallegur og svo friðsæll skógur að engum getur dottið neitt annað í hug en friður og hlýja þegar hann er annars vegar. Framundan Helga er sjórinn og fuglarnir. Þeir eru nú allir komnir á léreft og upp á veggi hér í Bryggjunni. Upp af Helga eru Fellsstrandarfjöllin, til dæmis Ytra-Fellsmúlinn þaðan sem sést yfir allan Breiðafjörð sunnanverðan. Það er hylling til þessa umhverfis sem Helgi yrkir, hann yrkir lofsöngva í litum - það er aðferð  Dalamanna, á 13ndu öld skrifuðu þeir Sturlungu,  á 19. og 20. öld ortu þeir ljóð, á 21. öld er það liturinn, myndin, augað.

Ég vona að þið fyrirgefið mér hvað ég er persónulegur í þessum orðum og ég er ekki búinn: Við Guðrún konan mín eigum hús norðan við Breiðafjörðinn; við sjáum hann innan verðan og út á konunginn sjálfan Snæfellsjökul. Mig grunar reyndar að Snæfellsjökull sé kona og því drottning, en það er annað mál. Þegar við erum fyrir vestan verðum við áður en varir  partur af náttúrunni. Það fyrsta sem Guðrún gerir á morgnana er að gá að selnum sem yfirleitt liggur á skeri framan við húsið okkar. Svo segjum við hvort við annað í morgunkaffinu: ætli örninn fljúgi yfir okkur í dag? Hvar er eiginlega rjúpufjölskyldan? Það eru naumast lætin í spóanum núna, ætli tíkin sé að stríða  honum? Sérðu maríuerluna – nei eru þær tvær í dag. Það er naumast. Og án þess að við tökum eftir því erum við orðin algerlega samgróin þessari náttúru, þessu umhverfi, dýrunum, veðrinu, gróðrinum,  sjónum, öllu. Og þá er ég loksins komin að efni dagsins það er Helga Þorgils Friðjónssyni því þegar við sjáum myndirnar hans á þessari sýningu þá er ég komin heim, farinn að horfa á hund, fisk, ský, himin, speglun, menn með harmóniku, fugla, hesta.

Helgi hefur alltaf vakið athygli fyrir verk sín heima á Íslandi; fólk hefur horft undrandi á þessa upphöfnu allsberu karlmenn og drengi með tippi sem ekki stríða á móti þyngdarlögmálinu heldur eru á sínum stað. Og samspil þessara beru manna við umhverfi sitt, fugla, ekki síst svani, og svo eru fjöll og ský og sólir, speglun.  Sumir segja að Helgi máli alltaf eins, en það er algerlega rangt. Hann er alltaf nýr í verkum sínum en nú kemur Helgi enn fram sem listamaður með nýjum hætti á þessari sýningu, ekki vegna þess að viðfangsefnin séu allt önnur heldur vegna þess að hér skilar hann nágrönnum sínum frá Kjarláksstöðum skýrar í samfellu en nokkru sinni fyrr. Mér segir svo hugur að fuglamyndirnar á þessari sýningu eigi eftir að halda nafni Helga Þorgils Friðjónssonar á lofti lengur en margt annað. Þær eru svo sterk listaverk og þær skila ekki aðeins áhrifum og tilhöfðun til okkar heldur líka til allra annarra af því að þær eru svo ólýsanlega falleg listaverk í sjálfum sér. Þær munu verða á veggjum um allan heim eins og margar aðrar myndir Helga eru – á Ítalíu, í Sviss, í Bandaríkjunum, í Danmörku, á Íslandi. Þær eru Ísland að sigra heiminn.

Helgi fæst við náttúruna, umhverfið, manninn í náttúrunni. Þess vegna er hann pólitískur listamaður. Hann stendur með lífinu gegn græðginni og eyðileggingunni. Helgi sýnir okkur umhverfið, náttúruna, í sinni fegurstu mynd en um leið gjöfulu mynd. Og við skynjum  líka einsemdina í umhverfinu,  þá staðreynd að á úrslitastundu er maðurinn alltaf einn. Ábyrgð okkar sem einstaklinga er skýr. En Helgi á líka húmor og hlátur, bros. Sá sem gengur með frosið andlitið um sýningu Helga ætti að reyna að skoða eitthvað annað; verkin kalla fram bros og spurningu í senn. Einsemd og neista.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Christian Schoen fyrir sérstaklega fróðlegt viðtal við listamanninn í bókinni fallegu. Schoen spyr Helga „ hvad er din filosofiske infaldsvinkel til menneskets eksistens i denne verden” og Helgi svarer ”Jeg kan godt lide at svare på dette spørgsmål med en kort tekst af Søren Kirkegaard: ”Noget Vidunderligt er der hendt mig. Jeg blev henrykket i den syvende Himmel. Der sad alle Guderne forsamlede. Af særlig naade tilstodes den Gunst mig at gjøre et Ønske. ”Vil Du”, sagde Mercur, ”vil Du have Ungdom, eller skjønhed, eller Magt, eller et langt Liv, eller den skjønneste Pige, eller en anden Herlighed af de mange, vi har i Kramkisten, saa vælg, men kun  een Ting.” Jeg var et Øieblik raadvild, derpaa henvendte jeg mig til Guderne saaledes: Høistærede Samtidige, jeg vælger een Ting, at jeg altid maa have Latteren paa min Side. Der var ikke en Gud, der svarede  et Ord, derimod gave de sig alle til at lee. Deraf sluttede jeg, at min Bøn var opfyldt, og fandt, at Guderne vidste at udtrykke sig med Smag; thi det havde jo dog været upassende, alvorligt at svare: det er Dig indrømmet”. Og Helgi bætir við: ”Jeg kan godt lide at blande denne alvor og ensomhed. Man er alene, men der findes en gnist.”

Með þessum orðum Helga og Sørens Kirkegaard lýsi ég sýninguna opna, við erum alein, en við finnum neista og við erum í sjöunda himni með guðunum þegar við skoðum sýningu Helga, alveg eins og hinn mikli heimspekingur Sören Kirkegaard þegar hann hitti guðina.

Sýningin er opin.Video Gallery

View more videos