Verðlaunaafhending í smásagnasamkeppni íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn

Föstudaginn 14. janúar sl. voru við hátíðlega viðhöfn afhent verðlaun fyrir bestu smásöguna í smásagnasamkeppni íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn. Í frétt á heimasíðu félagsins segir:

“Á föstudaginn, 14. janúar 2005, var fjöldi manns saman kominn í sendiráði Íslands við Norðurbryggju þegar veittar voru viðurkenningar í smásagnakeppni um Íslendingalíf í Kaupmannahöfn.

Ingibjörg Hrefna Björnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir smásöguna „Vindar“ og Eyvindur P. Eiríksson fyrir „Kormákur: Hvað líður sumrinu?“ Bæði eru þau vel kunnug í Kaupmannahöfn því Ingibjörg Hrefna er búsett hér í borg og kannski best þekkt sem fyrrverandi formaður Íslendingafélagsins en Eyvindur var íslenskulektor við Kaupmannahafnarháskóla fyrr á árum. Barnabarn Eyvindar, Sóley Freyja Eiríksdóttir, 10 ára, og búsett er í Kaupmannahöfn, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd afa síns sem komst ekki frá Íslandi.

Þorsteinn Pálsson sendiherra bauð gesti velkomna. Margrét V. Helgadóttir, ritstjóri Hafnarpósts, þakkaði dómnefnd og samstarfsaðilum. Einar Már Guðmundsson rithöfundur ræddi um hlutverk smásögunnar fyrir hönd dómnefndar og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, veitti höfundum viðurkenningar en það eru flugferðir með Icelandair og PP Forlag gaf skáldsöguna Fyrirmæli eftir Leena Lander í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Auk Einars Más og Vigdísar sat Erla Sigurðardóttir ritstjóri í dómnefndinni. Snorri Heimisson og Haukur Gröndal léku íslensk þjóðlög á fagott og bassahorn í útsetningu þess síðarnefnda.

Að keppninni stóðu Hafnarpóstur, blað Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn, Icelandair og PP Forlag. Kaupmannahöfn hefur löngum verið áfangastaður Íslendinga og hafa margir þeirra átt mikilvægan þátt í þróun íslensks þjóðfélags og menningar. Þúsundir Íslendinga, karlar og konur, eru sendiherrar þjóðar sinnar í Borginni við Sundið og sjónarvottar sögunnar eins og hún birtist þar. Margar sögur eru þó enn óskráðar. Því var efnt til fyrrnefndrar smásagnakeppni og bárust handrit frá Íslandi, Færeyjum, Danmörku og Bretlandseyjum.

Ráðgert er að PP Forlag gefi út rit með úrvali af handritum sem bárust í keppnina.”

Á meðfylgjandi mynd má sjá dómnefnd og sigurvegara keppninnar.

Video Gallery

View more videos