Vel heppnuð opinber heimsókn forsetahjóna Íslands til Danmerkur

Eins og flestum er kunnugt komu Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú í afar vel heppnaða opinbera heimsókn til Danmerkur dagana 24.-26. janúar.  Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn forsetahjóna í embætti, en hefð er fyrir því að forseti Íslands heimsæki Danmörku fyrst landa. Með forseta í för var Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra, ásamt opinberri sendinefnd skipaðri fulltrúum mennta- og fræðisamfélagsins auk embættismanna frá utanríkisráðuneytinu og embætti forseta.

Tekið var á móti forsetahjónum með glæsibrag með sérstakri móttökuathöfn sem fór fram í Amalíborgarhöll. Forsetahjónin komu víða við og heimsóttu m.a. Jónshús og Árnasafn, Kaupmannahafnarháskóla, Dansk Industri og Alþjóða hafrannsóknarráðið ásamt því að þiggja sérstakan hátíðarkvöldverð í Amalíuborg. Bar þó hæst viðburður haldinn í Konunglegu þjóðarbókhlöðunni, þar sem forseti afhenti veglega þjóðargjöf Íslendinga til Dana. Gjöfinni sem samanstóð af 700 eintökum af nýþýddri útgáfu íslendingasagnanna á dönsku veitti Mette Bock menntamálaráðherra Dana formlega viðtöku við hátíðlega athöfn í Drottningarsal Svarta Demantsins að viðstaddri Margréti Þórhildi Danadrottningu.

Forseti fundaði einnig með forsætisráðherra Dana, Lars Løkke Rasmusen og Pia Kjærsgård forseta þingsins, ásamt því að taka þátt í hringborðsumræðum í Kaupmannahafnarháskóla.  

Gagnkvæmisboð forseta Íslands, til heiðurs Margrétar Danadrottningar var haldið með pomp og prakt og í mikilli gleði á Norðurbryggju. Athygli vakti að öll danska konungsfjölskyldan tók þátt í móttökunni ásamt fjölda ráðherra úr ríkisstjórn Dana. Móttakan þótti heppnast einkar vel og gaf forseti í upphafi veislu tóninn með gamansamri ræðu sem vakti mikla kátínu hinna tignu gesta sem og annara viðstaddra.

 

Video Gallery

View more videos