Varðveisla framtíðar: Sjálfbærni tungumáls, menningar og náttúru. Alþjóðleg ráðstefna við Háskóla Íslands 15.-17. apríl 2010.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu dagana 15.-17. apríl nk. í tilefni af áttræðis afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og velgjörðasendiherra tungumála hjá UNESCO. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Varðveisla framtíðar: Sjálfbærni tungumáls, menningar og náttúru og mun hún fara fram við Háskóla Íslands.

Á ráðstefnunni verður fjallað um bókmenntir, tungumál, menningu og náttúru frá ýmsum sjónarhornum og sérstök áhersla lögð á þróun þessara þátta fyrir komandi kynslóðir. Fluttir verða lykilfyrirlestrar ásamt samhliða málstofum sem eru annars vegar skipulagðar af tungumálunum innan stofnunarinnar og hins vegar samansettar af innsendum erindum hvaðanæva úr heiminum.

Meðal lykilfyrirlesara eru eftirfarandi:

  • Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og friðarverðlaunahafi Nóbels
  • Irina Bokova, framkvæmdastjóri UNESCO
  • Bernard Comrie, forstöðumaður málvísindadeildar Max Planck stofnunarinnar í Leipzig for Evolutionary Anthropology in Leipzig
  • Claire Kramsch, prófessor og forstöðumaður tungumálamiðstöðvar Berkeley háskóla í Kaliforníu
  • Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands

Þátttökugjald er 9.500 kr, innifalið í því er uppihald meðan á ráðstefnunni stendur (utan kvöldverðar í Bláa lóninu). Frestur til skráningar rennur út 8. apríl nk. Nánari upplýsingar, s.s. skráning og dagskrá, má nálgast á vef ráðstefnunnar: http://vefir.hi.is/vigdisconference2010/.Video Gallery

View more videos