Tónleikar Ögmundar Þórs Jóhannessonar

 

ÖGMUNDUR ÞÓR JÓHANNESSON gítarleikari hélt tónleika í sendiherrabústaðnum þann 19. mars síðastliðinn. 

Ögmundur lauk burtfararprófi með láði í gítarleik frá Tónlistarskóla Kópavogs vorið 2000, og voru kennarar hans þar m.a Kristinn H. Árnason, Einar Kristján Einarsson, Kristinn Gestsson, Kristján Eldjárn og Anna Hansen. Hann spilaði á vígsluhátíð Salarins 2. janúar 1999 sem fulltrúi nemenda við Tónlistarskóla Kópavogs.

Ögmundur lagði stund á einkanám í gítarleik í Barcelona á Spáni í Escola Luthier d'arts musicals 2000-2002. Kennarar hans þar voru m.a Arnaldur Arnarsson, Ricardo Gallén, Alex Garrobé og Sadahiro Otani. Ögmundur lauk mastersnámi í júní 2008 með hæstu einkunn á prófi frá Universität Mozarteum í Salzburg, en þar lauk hann einnig bachelorsnámi í júní 2005 með hæstu einkunn á prófi (summa cum laude), undir handleiðslu Marco Diaz-Tamayo. Hann hefur einnig sótt fjölda námskeiða, m.a hjá Manuel Barrueco, David Russell, Aniello Desiderio, Costas Cotsiolis, Joaquín Clerch og Thomas Müller-Pering.

Ögmundi hafa hlotnast viðurkenningar og verðlaun hérlendis sem og á erlendri grund svo sem 2. verðlaun í hinni alþjóðlegu Agustin Barrios gítarkeppni í Lambesc í Suður-Frakklandi þann 6. júlí árið 2003 (1. verðlaun ekki veitt). Á Íslandi var hann styrkþegi úr Jean-Pierre Jaquillat sjóðnum og einn af styrkþegum Menningarsjóðs Íslandsbanka og Sjóvá Almennra árið 2005. Sama ár, í tilefni af 50 ára afmæli Kópavogsbæjar, fékk hann sérstaka viðurkenningu sem framúrskarandi ungur listnemi. Í janúar 2009 hlaut hann styrk úr tónlistarsjóði Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi. Honum hafa einnig hlotnast starfslaun listamanna í 9 mánuði fyrir árið 2010. Árið 2011 var hann verðlaunahafi í alþjóðlegu gítarkeppnunum í Bangkok, Thailandi og í Tokyo, Japan.

Video Gallery

View more videos