Stúlknakór Reykjavíkur í tónleikaferð til Berlínar, Hamborgar og Kaupmannahafnar

Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur syngur i Jónshúsi föstudaginn 10. júní kl. 12.30. Stúlknakórinn er á leið heim úr tónleikaferðalagi til Þýskalands og heldur litla hádegistónleika. 

Kórinn mun halda fimm tónleika í þessari ferð, sunnudaginn 5. júní í Gedächtniskirche, sem lengi hefur verið tákn Berlínarborgar eftir stríð og sérstaklega þeim hluta borgarinnar sem tilheyrði vesturhluta hennar. Einnig mun kórinn halda tónleika í Jóhannesarkirkjunni við Schlachtensee í útjaðri Berlínar síðdegis sama dag þar sem einn þekktasti stúlknakór Þýskalands, Mädchenchor der Sing-Akademie zu Berlin, gestgjafi Stúlknakórs Reykjavíkur, mun einnig syngja. Sing-Akadermie zu Berlin er elsta kórsamfélag heims, stofnað árið 1791. Innan vébanda akademíunnar eru auk stúlknakórs, stór blandaður kór, kammerkór og loks kór sem einbeitir sér að nýrri tónlist. Fyrir þessa starfsemi voru byggðir glæsileg húsakynni með tónleikasölum sem var breytt í leikhús að lokinni heimsstyrjöldinni síðari. Gorki-leikhúsið flutti þar inn árið 1952. Akademían starfrækir öflugan söngskóla í Berlín sem einbeitir sér sérstaklega að kórsöng.

Í Hamborg er kórinn í boði Stúlknakórs Hamborgar (Mädchenchor Hamburg). Þar munu stúlkurnar kynnast kórnámi við Kórskóla fyrir ungt fólk sem rekinn er fyrir tilstuðlan ríkisins. Sameiginlegir tónleikar verða í Sænsku kirkjunni í Hamborg, miðvikudaginn 8. júní.

Loks er ferðinni heitið til Kaupmannahafnar þar sem kórinn mun syngja í húsi Jóns Sigurðssonar föstudaginn 10. júní. Tónleikarnir verða í hádeginu kl 12:30. Þar með lýkur ferð Stúlknakórsins en ferð Margrétar heldur áfram til Ítalíu með kvennakórinn Vox feminae þar sem sungið verður í Piacenza í Emilia-Romagna héraðinu og verður þeim tónleikum sjónvarpað. Einnig mun kórinn syngja í Maríukirkjunni í Veróna, í Markúsardómkirkjunni og í San Salvadore kirkjunni í Feneyjum 18. og 19. júní. Loks munu kórfélagar úr hinum ýmsu kórum Margrétar og nemendur í söngskóla hennar, Domus Vox, sameinast í sól og söng í borgarinni Massa í Toskana þar sem þeir munu fá leiðsögn í söng og raddþjálfun undir handleiðslu Margrétar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, söngkonu. Nemendur munu syngja í dómkirkjunni í Massa og víðar í undurfögru héraði.

Video Gallery

View more videos