Staða viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn

Laus er til umsóknar staða viðskiptafulltrúa við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Viðskiptafulltrúi á að nema, miðla og skapa viðskiptatækifæri og liðsinna íslenskum fyrirtækjum við að ná árangri í útrás í Danmörku og í umdæmislöndum sendiráðsins, Ísrael, Rúmeníu, Slóveníu og Tyrklandi. Gerð er krafa um háskólapróf á sviði viðskipta. Umsækjendur verða að hafa þekkingu á dönsku og íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Mjög góð dönsku- og enskukunnátta er skilyrði. Skriflegar umsóknir berist sendiráðinu í Kaupmannahöfn, Strandgade 89, 1401 København K, Danmark eða á netfangið kob@mfa.is, fyrir 9. nóvember nk.

Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins er starfrækt í nokkrum sendiráða Íslands til að efla samkeppnisstöðu og árangur íslenskra fyrirtækja í útrás. Viðskiptafulltrúar nema, miðla og skapa viðskiptatækifæri og liðsinna íslenskum fyrirtækjum við að ná árangri í útrás. Viðskiptafulltrúi á að tryggja að fagleg þekking og meðferð mála af viðskiptalegum toga sé fyrir hendi í sendiráðinu. Viðskiptafulltrúi starfar í nánum tengslum við Útflutningsráð og Dansk-Íslenska verslunarráðið.

Starf viðskiptafulltrúa felst m.a. í eftirtöldum atriðum:
* Fylgjast með þróun á mörkuðum og hafa frumkvæði að því að leita að viðskiptatækifærum fyrir íslensk fyrirtæki.
* Mynda og kortleggja tengslanet í umsæmislöndum viðkomandi sendiráðs sem gagnast við að aðstoða íslensk fyrirtæki í markaðssókn erlendis.
* Vinna sérverkefni fyrir fyrirtæki sem þess óska í umdæmislöndum viðkomandi sendiráðs samkvæmt verksamningum.
* Fylgjast með umfjöllun um íslenskt viðskiptalíf í Danmörku og umdæmislöndunum og bregðast við þeirri umfjöllun ef ástæða er til.
* Annast markaðsathuganir og upplýsingaöflun s.s. um stærð markaðar, spurn eftir vöru, þjónustu og þekkingu, þróun markaðar, samkeppni og dreifileiðir.
* Skipuleggja heimsóknir íslenskra viðskiptaaðila í samráði við Útflutningsráð Íslands til markaðssvæðisins og heimsóknir erlendra aðila til Íslands.
* Leita að umboðsaðilum og aðstoða við mat á slíkum aðilum fyrir íslenska útflytjendur.
* Koma með hugmyndir að nýjum viðskiptatækifærum fyrir íslensk fyrirtæki.
* Setja sig í samband við erlend fyrirtæki sem annað hvort eru eða gætu orðið viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja.
* Koma Íslandi á framfæri við erlenda fjárfesta í samstarfi við Fjárfestingastofu Íslands.
* Aðstoða erlenda viðskiptaaðila við að leita upplýsinga um íslensk fyrirtæki og viðskiptatækifæri á Íslandi.
* Sinna ýmsum hagsmunaerindum fyrirtækja gagnvart yfirvöldum viðkomandi lands, s.s. varðandi almenn viðskiptamál, tolla og kvóta.
* Hafa frumkvæði að samstarfi íslenskra fyrirtækja á tilteknum mörkuðum.

Video Gallery

View more videos