Ráðstefna um framtíð sjávarútvegs í Danmörku og á Íslandi

Sendiráð Íslands í Danmörku hélt, í samstarfi við Glitni, Dansk-Íslenska Viðskiptaráðið og Danfish, vel heppnaða ráðstefnu um framtíð sjávarútvegs í Danmörku og á Íslandi. 100 manns frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Grænlandi og Færeyjum tók þátt í ráðstefnunni.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði á ráðstefnunni að samkeppni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við sambærileg fyrirtæki frá stærri löndum væri samkeppni sem færi fram á mjög ójöfnum forsendum, þar sem sjávarútvegi væri víða haldið uppi með greiðslum frá skattborgurum.

Undir þetta tók Eggert B. Guðmundsson forstjóri Granda og sagði að 12% þak á heildareign fyrirtækja á kvóta væri verulega hamlandi fyrir íslensk fyrirtæki í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem flest íslensk sjávarútvegsfyrtæki standa frammi fyrir. "Rekstrarumhverfi sjávarútvegs á Íslandi er erfitt. Það eru mun meiri hömlur á sjávarútvegi en á öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Ég tel að þetta muni breytast og að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins muni smám saman verða eins og gengur í öðrum greinum. Takmörkunum og hindrunum mun fækka, en það tekur tíma," sagði Eggert.
Alls héldu sex ræðumenn sem allir standa framarlega í dönskum eða íslenskum sjávarútvegi erindi á ráðstefnunni. Auk ráðherranns og Eggerts B. Guðmundssonar héldu Flemming Knudsen forstjóri Royal Greenland, Niels Espersen yfirmaður stefnumótunar hjá Skagerak Group, Kurt Kvalsvik stjórnandi sjávarútvegsteymis Glitnis í Noregi og Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður 3X Technology á Ísafirði erindi.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði að sífellt meiri kröfur væru gerðar til íslenskra sjávarútvegsfyritæki um að skapa virðisauka og það væri stærsta verkefni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í dag. Þá kynnti hann nýjar umhverfismerkingar íslenskra sjávarafurða og sagði að slík umhverfismerking væri afar mikilvæg þar sem gæði væru helsta söluvara íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Undir þetta var tekið af mörgum ræðumönnum, meðal annars Flemming Knudsen, forstjóra Royal Greenland sem sagði að það væri hlutverk sjávarútvegsfyrirtækja að sjá fyrir nýjar óskir neytenda og mæta þeim með vöruþróun. "Sjávarafurðir falla vel að kröfum nútímaneytandans um sjálfbærni, hollustu og lífrænan uppruna vörunnar. Við höfum þegar séð vaxandi sölu á sjávarafurðum og ég bind miklar vonir við að fiskur verði hinn nýji kjúklingur," sagði Knudsen. Knudsen telur jafnframt að á komandi árum muni áhersla neytenda flytjast frá því að kaupa gæði á góðu verði, til þess að kaupa gæði þar sem saga og uppruni vörunnar skiptir höfuðmáli.

Niels Espersen frá Skagerak Group fjallaði einnig um breyttar áherslur neytenda. Sagði hann að nýjir neytendur væru farnir að biðja um samfélagslega ábyrga framleiðslu. Að skylda fyrirtækja í dag væri ekki eingöngu að skapa hagnað heldur einnig að hafa "gott hjarta." "Þessar breyttu áherslur munu hafa afleiðingar fyrir fyrirtækin, þau þurfa að vera reiðubúin að selja söguna á bak við vörurnar í stað þess að bjóða lægsta verð," sagði Espersen.

Espersen hrósaði íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir samstarf sín á milli og sagði að slíkt samstarf væri einnig æskilegt á meðal sjávarútvegsfyrirtækja í Danmörku ættu þau að ná árangri. "Á lista yfir 25 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki Evópu er ekkert danskt fyrirtæki, en þrjú íslensk og fimm norsk. Við erum á eftir hér í Danmörku," sagði Espersen og sagði jafnframt að ekki bætti úr skák að danskur sjávarútvegurinn væri klofinn í tvö hagsmunasamtök.

Kurt Kvalsvik stjórnandi Sjávarútvegsteymis Glitnis í Noregi sagði að framtíðin myndi bera í skauti sér fleiri sameiningar á sviði sjávarútvegs. Það væri nauðsynlegt til þess að auka hagræðingu og lágmarka fjárhagslega áhættu.

Samstarf háskóla, fyrirtækja og rannsóknarstofnana getur verið lykillinn að öruggum veksti sjávarútvegsfyrirtækja í framtíðinni, að sögn Geirs A. Gunnlaugssonar, stjórnarformanns 3X Technology. Hann benti á að þegar Kína hafi komið til sögunnar með nýjum framleiðendum og lágum kostnaði brást sjávarútvegurinn við með nýrri tækni, nýjum vélum og aukinni framleiðni. Það er með vöruþróun og þróun framleiðsluferlisins sem fyrirtækjum mun takast að standast þær áskoranir sem alþjóðavæðingin hefur í för með sér, sagði Geir.

Video Gallery

View more videos