Politiken fer til Íslands

Stór hluti sunnudagskálfs dagblaðsins Politiken 26. ágúst sl. er tileinkaður Íslandi. Í blaðinu er m.a. viðtal við Einar Má Guðmundsson, rithöfund, þar sem hann fjallar um sérkenni landa sinna á gamansaman hátt. Litið er á það nýjasta og það svalasta í höfuðstaðnum og næsta nágrenni, s.s. Bláa lónið og barinn Sirkus og endurkomu íslensku lopapeysunnar eru gerð rækileg skil. Blaðamenn Politiken furða sig á gróskunni í íslensku tónlistarlífi og nefna í því sambandi hljómsveitirnar og tónlistarmennina Múm, Sigurrós, Mugison, Ampop, Jakobínarína, Benni Hemm Hemm og Pétur Ben. Skyrið fær sinn sess í umfjölluninni og humarsúpu veitingastaðarins Sægreifans er hrósað í myndskreyttri umfjöllun um staðinn. Margt fleira af sérkennum Íslands og Reykjavíkur er nefnt í samantekt Politiken, s.s. Reykjavíkurmaraþonið, heitu böðin og tölvuleikurinn Eve-online. Það vekur einnig athygli að fjallað er sérstaklega um það hvar í Kaupmannahöfn megi nálgast íslenskan mat, hönnun, list, snyrtivörur og fleira. Samantektin er í allt tæpar 30 síður og ríkulega myndskreytt.

Video Gallery

View more videos