Mið-Ísland kynnir

Uppistandararnir í Mið-Íslandi hafa haldið fjölda uppistandskvölda undanfarið ár, sem oft á tíðum hafa verið troðin út fyrir dyr. Þeir hafa einnig komið fram í flestum framhaldsskólum landsins, tugum vinnustaða og jafnvel á Litla-Hrauni þar sem þeim tókst að frelsa huga fanganna í dagspart með frumlegu óheftu gríni.

Ekkert er þeim heilagt og meðal þess sem fjallað hefur verið um í uppistandinu eru fjölmiðlar, listalíf, Bubbi Morthens, íþróttir, uppeldismál og að ógleymdum útrásarvíkingum og efnahagsmálum. Saman við þetta allt blandast svo hin persónulega reynsla hinna ungu manna. Á uppistandskvöldum Mið-Íslands getur allt gerst eftir að brandarakarlarnir opna ótakmarkaðar lánalínur sínar á hláturgas, allt á kostnað annarra að sjálfsögðu.

Mið-Íslendingar eru sérstaklega spenntir fyrir því að flytja gamanmál sitt fyrir löndum sínum í Danmörku. Hyggjast þeir gera rækilega grein fyrir ástandinu á sviðna-landinu, pirringi sínum á dönskukunnáttu Dana og fleiri atriðum sem varða samskipti Íslands við umheiminn.

Mið-Íslands uppistandshópurinn verður skipaður fjórum félögum:

Ari Eldjárn er textasmiður og handritshöfundur með tvö áramótaskaup á samviskunni. Hann byrjaði sinn uppistandsferil þriggja ára gamall þegar hann var fenginn til að troða upp á sjávarútvegssýningu árið 1984, að beiðni þáverandi sjávarútvegsráðherra. Hann sló í gegn en settist svo óvænt í helgan stein frá uppistandi 1987 gamall eftir að hafa troðið víða upp í Japan og Noregi. Sumarið 2009 dustaði hann svo rykið af míkrófóninum og hefur aldrei verið hressari.

Bergur Ebbi er 28 ára gamall Reykvíkingur. Eftir nokkur ár sem tónlistarmaður, m.a. sem söngvari í Sprengjuhöllinni, blaðamaður og lögfræðingur hefur Bergur Ebbi loksins komist að því að hann veit ekki hvað hann ætlar að gera í framtíðinni. Millibilsástandið notar hann til að fara með grínmál enda var hægt að finna sér betri skjöld til að fela óöryggi og óákveðni. Bergur Ebbi stjórnaði útvarpsþáttunum Útvarp Mið-Ísland síðasta sumar og hefur farið með uppistand víðsvegar um landið.

Dóri DNA er yngsti meðlimur Mið-Íslands en jafnframt sá sem hefur átt hvað köflóttastan feril. Eftir að hafa byrjað vel sem yngsti og sterkasti rappari Íslandssögunnar fór að síga á ógæfuhliðina þegar að honum var veittur aðgangur að Listaháskóla Íslands hvar hann eyðir nú flestum sínum vökustundum. Halldór er eini meðlimur hópsins sem hefur haft rétttarstöðu grunaðs manns en það var að hans sögn „á misskilngi byggt og leiðrétt síðar." Hann er jafnan talinn orðhvassasti meðlimurinn.

Jóhann Alfreð Kristinsson á að baki glæstan feril úr KFUM þar sem hann varð frægur fyrir gamanmál sín barn að aldri. Eftir ótal sumur í Vatnaskógi færði hann sig yfir í Lagadeild Háskóla Íslands eftir viðkomu í Menntaskólanum í Reykjavík. Hvort tveggja hefur haft talsvert minnkandi áhrif á kímnigáfu hans, enda leitun að tveimur leiðinlegri stöðum. Sem betur fer er hann þó ennþá nægilega fyndinn til að geta staðið uppi á sviði í hálftíma.

Verið memm! Sjáumst á Norðurbryggju.

Nordatlantens Brygge

Strandgade 91

1401 København K.

Tlf. 32833700

Mob. 26231618

www.bryggen.dkVideo Gallery

View more videos