Landsframleiðsla á mann

Landsframleiðsla á mann hefur vaxið um 50% að raunvirði á síðustu 25 árum. Á meðfylgjandi mynd má greina langtímavöxtinn yfir tilgreint tímabil. Á þessu tímabili er langtímaleitni 1,5% á ári.


Hagsveiflur í íslensku efnahagslífi hafa verið meiri en í öðrum þróuðum ríkjum en rannsóknir hafa sýnt að smærri ríki hafa að meðaltali kröftugri hagsveiflur en hin stærri. Á árunum 1988-1995 var niðursveifla í íslensku efnahagslífi og dróst landsframleiðsla á mann saman um 5,6% að raunvirði. Þegar nýtt hagvaxtarskeið tók við hafði myndast töluverð umframframleiðslugeta í hagkerfinu og á árunum 1996-2001 óx landsframleiðsla á mann um 3,3% að raunvirði á milli ára. Sú niðursveifla sem á eftir fylgdi var skammvinn en hagvöxtur á mann fór undir langtímaleitni árið 2002. Íslenska hagkerfið gengur nú í gegnum uppsveiflutímabil sem að þessu sinni er drifið áfram af stóriðjuframkvæmdum og örum vexti einkaneyslu. Landsframleiðsla á mann hefur vaxið að raunvirði um 14% á síðustu fjórum árum og er komin nokkuð yfir mælda langtímaleitni.


Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið sveiflukenndur stendur Ísland vel að vígi samanborið við aðrar þjóðir en samkvæmt mælingum OECD er Ísland með einna hæstu landsframleiðslu á mann eftir að búið er að leiðrétta fyrir mismunandi kaupmætti í löndunum. Árið 2004 mældist landsframleiðsla á mann á Íslandi $32.600 sem er nokkuð yfir óvegnu meðaltali allra OECD ríkja og var Ísland í sjötta sæti aðildarríkjanna.

Heimild: Vefrit fjármálaráðuneytisins – 21. september 2006

Video Gallery

View more videos