Kosningar í Danmörku 8. febrúar

Í dag kl. 13:05 tilkynnti forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, í danska þinginu þá ákvörðun sína að boða til almennra þingkosninga í landinu þann 8. febrúar nk. Hefur legið í loftinu í nokkurn tíma að þetta myndi gerast, en kosningar hefðu í síðasta lagi átt að vera haldnar í nóvember nk.

Danski forsætisráðherrann boðaði til kosninganna með þeim rökum að þar sem m.a. liggi fyrir þinginu frumvörp um róttækar breytingar á skipun sveitastjórnarmála í Danmörku, með tilheyrandi samruna sveitarfélaga og breytinga á skipun á ömtum, sé eðlilegt að kjósendur veiti stjórnmálaflokkunum endurnýjað umboð áður en gengið er til endanlegrar afgreiðslu málsins í þinginu. Stjórnarandstaðan hafði borið fram kröfu þessa efnis sl. haust og er forsætisráðherrann með þessu að fallast á kröfu stjórnarandstöðunnar. Jafnframt sagði forsætisráðherrann það ekki æskilegt að þing- og sveitarstjórnarkosningar færu fram á sama tíma, en sveitarstjórnarkosningar munu fara fram í nóvember.

Þar sem einungis eru þrjár vikur fram til kosninga er ljóst að kosningabaráttan verður stutt og snörp. Þegar hefur verið boðað til sjónvarpskappræðna milli forsætisráðherrans og leiðtoga stjórnaandstöðunnar og formanns sósjaldemókrata, Mogens Lykketoft, í kvöld klukkan 19:00 að dönskum tíma á TV2. Þar má gera ráð fyrir að á brattann verði að sækja fyrir Lykketoft, en núverandi stjórnarflokkar, og þá sérstaklega Venstre, flokkur forsætisráðherrans, hafa haft verulegt forskot í skoðannakönnunum undanfarnar vikur og mánuði. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup sem birt var í morgun munu stjórnarflokkarnir fá 92 þingmenn á meðan að stjórnarandstaðan mun fá 83.

Video Gallery

View more videos