Jónasarkvöld í Jónshúsi 16. nóvember nk.

Þann 16. nóvember 2007 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og þá lýkur Jónasarárinu svonefnda með veglegri samkomu í Jónshúsi.
Dagskrá samkomunnar verður nánar kynnt er nær dregur en helstu þættir hennar verða eftirfarandi:

Böðvar Guðmundsson, rithöfundur, flytur stutt erindi um skáldið.

Kynnt verður bók með nýjum dönskum þýðingum Sørens Sørensens á ljóðum Jónasar og verður hún jafnframt til sölu.

Upplestur og samlestur úr prósaverkum Jónasar, Stúlkan í turninum og Gamanbréf til kunningjanna.

Íslenski Kvennakórinn í Kaupmannahöfn syngur undir stjórn Sigríðar Eyþórsdóttur og kórinn Staka syngur undir stjórn Stefáns Arasonar. Gera má ráð fyrir fleiri söngatriðum auk fjöldasöngs á dönsku og íslensku á söngljóðum Jónasar í lok samkomunnar.

Sendiráð Íslands og Jónshús bjóða upp á veitingar í hléi.

Samkoman hefst kl. 19.30 og stendur í um tvo klukkutíma. Dagskráin fer fram á dönsku.

Aðstandendur Jónasarársins eru: Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, Dansk-Islandsk Samfund, Jónshús, Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn, Kórinn Staka, Bókmenntaklúbburinn Thor, Nordisk forskningsinstituts og Kaupmannahafnarháskóli.

Video Gallery

View more videos