Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn

Þann 16. nóvember 2007 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni hefur tímabilið frá 16. nóvember 2006 til 16. nóvember 2007 verið nefnt Jónasarár.

Dagana 7. - 9. september verður haldin sérstök Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn og nágrenni þar sem efnt verður til menningarviðburða af ýmsu tagi. Helstu dagskrárliðir hátíðarinnar eru eftirfarandi:

Að kvöldi 7. september, nánar tiltekið kl. 20:00, heldur Fífilbrekkuhópurinn tónleika í Sívalaturni, Bibliotekssalen. Á tónleikunum flytur hópurinn tónlist Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Miðar verða seldir við innganginn og er aðgangseyrir 100 DKK.

Laugardaginn 8. september verður farið frá Kaupmannahöfn á slóðir Jónasar Hallgrímssonar í Sorø undir leiðsögn Böðvars Guðmundssonar. Í Sorø verður m.a. snæddur hádegisverður, lesið úr bréfum Jónasar og flutt úrval ljóða hans. Lagt verður upp frá Reventlovsgade (á bak við aðaljárnbrautarstöðina) kl. 10:00. Áhugasamir geta skráð sig í ferðina á netfanginu: bodvar@post8.tele.dk

Sunnudaginn 9. september verður boðið upp á gönguferð um slóðir Jónasar Hallgrímssonar í miðborg Kaupmannahafnar undir leiðsögn Sigrúnar Gísladóttur. Lagt verður af stað kl. 10:00 frá ráðhúströppunum og er öllum velkomið að slást með í för.

Þann 9. september verður einnig efnt til málþings um Jónas Hallgrímsson á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Á málþinginu verður sjónum beint að Jónasi sem ljóðskáldi og náttúruvísindamanni. Fyrirlesarar eru bókmenntafræðingarnir Sveinn Ingvi Egilsson og Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur. Málþingið stendur frá kl. 14 - 17 og er öllum opið.

Nánar um málþingið: http://www.bryggen.dk/default.asp?Doc=111&news=264

Aðstandendur Jónasarársins eru: Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, Menntamálaráðuneytið, Dansk-Islandsk Samfund, Jónshús, Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn, Kórinn Staka, Bókmenntaklúbburinn Thor, Nordisk forskningsinstituts og Kaupmannahafnarháskóli.

Video Gallery

View more videos