Íslenskt skyr úr danskri mjólk komið í verslanir IRMA

Verslanir Irma hafa hafið sölu á íslensku skyri úr danskri mjólk og er skyrið framleitt í mjólkurbúi Thise á Jótlandi. Skyrið er framleitt skv. framleiðsluleyfi frá AGRICE, sem er í eigu MS á Íslandi. Til þess fagna komu skyrsins á danska markaðinn stóð sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, í samstarfi við AGRICE og Thise Mejeri, fyrir sérstakri viðhöfn í verslun IRMA í Illum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Þar afhenti Poul Pedersen, framkvæmdastjóri Thise Mejeri, Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra, innkaupakerru fulla af skyri, og ráðherrann afhenti síðan framkvæmdastjóra IRMA fyrstu skyrdolluna. Að því loknu var boðið til móttöku á veitingastaðnum NOMA (Nordisk mad) þar sem Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og starfsbróðir hans í Danmörku, Hans Christian Schmidt, voru viðstaddir og gæddu sér á ýmsu góðgæti úr íslensku skyri. Kynningin á skyrinu tókst með miklum ágætu og vakti athygli fjölmiðla bæði í Danmörku og á Íslandi.
Íslenska skyrið frá Thise er lífræn afurð og mun fyrst um sinn einungis fást í verslunum Irma á Sjállandi en mun síðar verða fáanlegt í fleiri verslunum í Danmörku.

Video Gallery

View more videos