Íslenskir hestar á götum Kaupmannahafnar

Íslenskur hófadynur og kórsöngur er meðal þess sem setja mun mark á miðborg Kaupmannahafnar laugardaginn 12. febrúar nk., en þá verður dagur íslenska hestsins haldin hátíðlegur á Norðurbryggju. Þar gefst gestum og gangandi einstakt tækifæri til þess að komast í návígi við íslenska hestinn og þann fjölbreytta menningarheim sem skapast hefur í kringum hann í gegnum aldirnar, og á síðustu tímum.

Dagurinn eru skipulagður af Danska Íslandshestasambandinu (Dansk Islandshesteforening), sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn og félaginu Dansk-islandsk samfund, í samstarfi við Icelandair og Ferðamálaráð.

Eitthvað fyrir alla

Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, tónlist og söng, kvikmyndasýningum og ferðakynningum og hentar því bæði fag- og fjölskyldufólki. Meðal þeirra sem skemmta gestum eru 40 félagar úr karlakórnum Fóstbræðrum og hinn vinsæli danski sjónvarpsmaður, Søren Ryge, flytur erindi um íslenska hestinn og íslenska náttúru. Søren Ryge hefur m.a. gert þáttaröð um Ísland og fjallaði einn þátta hans um íslenska hestinn.

Fyrirtæki og einstaklingar munu kynna vöru og þjónustu sem tengjast íslenska hestinum með einum eða öðrum hætti. Börnin fá tækifæri til þess að fara á hestbak og fræðast um sérkenni þessa einstaka hestakyns.

Kyndilför í gegnum miðborg Kaupmannahafnar

Hátíðarhöldunum lýkur með hópreið og kyndilför sextán íslenskra hesta í gegnum miðborg Kaupmannahafnar, frá Kristjánsborgarhöll að Norðurbryggju, þar sem hestar og knapar sýna listir sínar. Meðal knapa verða nokkrir bestu keppnisknapar Danmerkur.

Markmiðið að kynna íslenska hestinn í Danmörku

Danska Íslandshestasambandið  var stofnað árið 1968 og voru stofnfélagarnir 35 talsins. Í dag eru félagarnir  orðnir um 7000 talsins og eiga þeir samtals um 18.000 íslenska hesta.

Félagið hefur gefið út tímaritið TÖLT frá árinu 1969 og hefur frá upphafi unnið öflugt kynningar og fræðslustarf um hestamennsku og ræktunarmál. Félagið hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að kynna íslenskar hestaíþróttir með það fyrir augum að þær verði sérstök keppnisgrein á Ólympíuleikum.

Nánari upplýsingar veitir Már Másson, viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, sími: 545 77 24, tölvupóstur: mar@mfa.is

 Sjá einnig www.islandshest.dk


 

Video Gallery

View more videos