Ísland verðlaunað fyrir að tryggja aðkomu kvenna að úrbótum í loftslagsmálum

„Ekki má eingöngu líta á konur sem þolendur loftslagsbreytinga, heldur sem mikilvæga gerendur við lausn vandans,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í opnunarávarpi sem hún hélt á málstofu sem haldin var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, sem bar yfirskriftina „Konur sem afl til breytinga.“

Við þetta tilefni afhentu regnhlífarsamtök kvenna, „Women and Gender Constituency,“ stjórnvöldum á Íslandi og í Ghana viðurkenningu fyrir að vera sterkir málsvarar jafnréttis kynjanna og jafnrar þátttöku kvenna og karla í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Ísland hlaut viðurkenninguna sérstaklega fyrir að koma sterkum texta um jafnrétti kynjanna og virka þátttöku kvenna í öllum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum inn í samningsdrögin sem liggja fyrir ráðstefnunni - en þetta mun vera í fyrsta sinn sem slíkur texti er hluti af mögulegri ályktun á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Gana hlaut verðlaun fyrir aðgerðir heima fyrir.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók við verðlaununum fyrir Íslands hönd og fagnaði þeirri viðurkenningu sem í þeim felst. „Þegar maður stendur frammi fyrir stórum breytingum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að aðkoma kynjanna sé jöfn. Þessvegna er jafnrétti aldrei jafnmikilvægt og þegar við stöndum frammi fyrir þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum,“ sagði Svandís.

Málstofan var afar vel sótt, en auk Svandísar Svavarsdóttir sátu í pallborði Sherry Ayittey, umhverfisráðherra Gana; Jato Sillah, umhverfisráðherra Gambíu; Ulla Tørnæs, þróunarsamvinnuráðherra Danmerkur og Paula Lehtomäki, umhverfisráðherra Finnlands.Video Gallery

View more videos