Ísland leikur stórt hlutverk á CPH-PIX

CPH - PIX er stærsta kvikmyndahátíð í Danmörku sem haldin er árlega við mikinn fögnuð Kaupmannahafnarbúa. Í ár mun Ísland leika stórt hlutverk og verða hvorki meira né minna en fimm viðburðir með íslensku ívafi á dagskrá.

Veislan byrjar með því að hljómsveitin Múm mun bjóða til ærið sérstakra tónleika, en þau ætla að spinna raftóna við hina þöglu þýsku kvikmynd Menchen am Sonntag frá árinu 1930. Tónleikarnir verða haldnir föstudagskvöldið 28.október kl 22:00 í Dagmar leikhúsinu. Lesa má meira um viðburðinn hér.

Þann 29. október verður kvikmyndin Hjartasteinn sem nú fer sigurför um heiminn frumsýnd í Empire kvikmyndahúsinu. Þetta er fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar. Myndin segir frá mótunarárum og tilfinningalífi nokkura íslenskra unglinga, en hjartað í myndinni er vinátta tveggja stráka sem er öllu sterkara. Guðmundur mun sjálfur kynna kvikmyndina og sitja fyrir svörum að henni lokinni. Boðið verður uppá vínglas í boði Sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Lesa má meira um viðburðinn hér.

31. október kl 20:00 í Empire kvikmyndahúsinu verður heimildarmyndin Show of Shows frumsýnd, en hún er leikstýrð af Benedikti Erlingssyni sem vann einmitt áhorfendaverðlaun á CPH -PIX fyrir kvikmyndina Hross í oss árið 2014. Kvikmyndin fjallar um sirkus sýningar á 19. og 20. öldinni þar sem börnum og dýrum var misbeitt í hagnaðarskyni. Benedikt verður á svæðinu ásamt tónskáldinu Hilmari Erni Hilmarssyni sem sá um tónlistina í myndinni ásamt Sigurrós. Benedikt og Hilmar Örn munu báðir sitja fyrir svörum eftir sýninguna gefa áhorfendum kost á að koma með spurningar. Boðið verður uppá vínglas í boði Sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Lesa má meira um viðburðinn hér.

Hægt verður að upplifa kvikmyndina The Toghether Project, leikstýrð af hinni fransk-íslensk ættuðu Sólveigu Anspach þann 5. nóvember kl. 17:00 í sundlauginni Sundby Bad á Amager. Kvikmyndin sem því miður varð hennar síðasta, þar sem hún féll frá langt um aldur fram, er skemmtilega skrítin ástarsaga sem án efa mun taka á sig enn sérkennilegri blæ í umhverfi Sundby Bad. Lesa má meira um viðburðinn hér.

Tónskáldið Jóhann Jóhannsson, sem m.a. hefur unnið Golden Globe verðlaunin og tvisvar sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist sína, mun halda útgáfutónleika vegna plötu sinnar Orphée, í Bremen leikhúsinu þann 3. desember kl 20:00. Lesa má meira um viðburðinn hér.

 

 

Video Gallery

View more videos