Ísköld tíska á Norðurbryggju

Það var margt um manninn í tískuteitinu “Cold as Ice” sem haldið var á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn föstudagskvöldið 10. febrúar sl. en tilefnið var þátttaka sjö íslenskra hönnuða á tískuvikunni í Kaupmannahöfn. Sendráð Íslands í Kaupmannahöfn, Útflutningsráð Íslands, Norðurbryggja og umboðsskrifstofan Salka Agency stóðu að skipulagningu teitisins. “Okkur fannst tilvalið að grípa tækifærið og vekja athygli á öllum þeim frábæru íslensku hönnuðum sem staddir voru í Kaupmannahöfn í tilefni tískuvikunnar” segir Svavar Gestsson, sendiherra. “Þessi veisla heppnaðist í alla staði mjög vel og þangað komu 200 gestir, þ.á.m. blaðamenn, innkaupafólk tískuvöruverslana og danskir hönnuðir og listamenn”. “Ég er í þessu sambandi sérlega ánægður með þá umgjörð og möguleika sem Norðurbryggjan hefur uppá að bjóða”.

Auk þess að kynnast íslenskri hönnun gafst gestum tækifæri til þess að hlýða á söng- og píanóleik Ragnheiðar Gröndal. Þá lék DJ Alfons tónlist af fingrum fram fram eftir kvöldi. Gestum var boðið að bergja á íslensku öli og vatni frá Egils og einnig drykkinn Eskimóhító að hætti barþjónanna á íslenska kaffihúsinu Laundromat Café í Kaupmannahöfn.

Íslensk hönnun vekur athygli
Berglind Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Útflutningsráði segist ánægð með árangurinn af þátttöku íslensku hönnuðanna á tískuvikunni. “Við vorum með þrjá hönnuði á bás Útflutningsráðs á CPH Vision sýningunni, Steinunni, Ásta Creative Clothes og Hönnu. Auk þeirra tóku hönnuðirnir í ELM Design og Birna Karen, sem starfar í Danmörku, þátt í sýningunni”. “Þá sýndi hönnuðurinn Indriði og Jón Sæmundur hjá DEAD á sýningarsvæði Salka Agency í miðborg Kaupmannahafnar”. Berglind segist merkja mikla grósku og töluverða útþrá meðal íslenskra fatahönnuða og að þeir veki iðulega mikla athygli á þeim sýningum sem þeir sækja. Góð þátttaka danskra blaðamanna og innkaupaaðila í tískuteitinu á Norðurbryggju staðfesti þetta. “Við hjá Útflutningsráði erum mjög ánægð með þetta framtak, það skiptir íslensku hönnuðina miklu máli að finna fyrir slíkum stuðningi þegar þeir taka þátt á alþjóðlegum sýningum sem þessum?”.

Fimm íslenskar vonarstjörnur
Einn af föstum liðum CPH Vision sýningarinnar er kynning á ungum hönnuðum og hönnunarnemum frá Norðurlöndunum. Að þessu sinni fengu fimm íslenskir unghönnuðir frá Listaháskóla Íslands tækifæri til þess að sýna hönnun sína. “Um er að ræða einskonar klakstöð fyrir tískuheiminn sem gengur undir nafninu Designers Nest”, segir Berglind. Verndari “Designers Nest” er Mary Donaldsson, krónprinsessa.

Video Gallery

View more videos