Helgihald Íslendinga í Danmörku

Sendiráðsprestur sinnti um helgihald meðal Íslendinga í Danmörku eins og hefð er fyrir og stóð fyrir guðþjónustum í sex borgum um og fyrir jólahátíðina. Kirkjulegar samkomur Íslendinga voru alls staðar vel sóttar. Fyrsta samveran sem tengdist jólahaldi fór fram í Grænlendingaheimilinu í Árósum hinn 11. desember. Þar var barn borið til skírnar og ætla má að þar hafi verið um 50 manns. Næst var guðþjónusta í Hansted kirkju í Horsens hinn 18. desember, hvar ætla má að verið hafi um 60 manns. Í Horsens starfar barnakór sem söng við guðþjónustuna og á samkomu Íslendingafélagsins eftuir hana. Eftir hefðbundna jóladagsmessu íslenska safnaðarins í Sánkti Pálskirkju í Kaupmannahöfn sem ætla má að um 80 manns hafi sótt, lá leið sendiráðsprests til Óðinsvéa þar sem embættað var í Hjallese kirkju á annan dag jóla hinn 26. desember. Þar komu saman um 60 manns að ætla má. Frá Óðinsvéum lá leið prests til Álaborgar og þar söfnuðust Íslendingar saman í Nørre Tranders kirkju hinn 27. des, á þriðja degi jóla. Um 90 manns voru þar við guðþjónustuna og borið var barn til skírnar. Þar starfar íslenskur kór sem leiddi söng safnaðarins. Frá Álaborg ók prestur suður um Jótland allt til Sønderborgar og vitjaði samfélags Íslendinga þar. Messað var í Christianskirkju 28. desember og kirkju sóttu um eða yfir 100 manns. Þar var fermdur einn piltur. Í Sønderborg starfar kór Íslendinga sem söng við messuna. Í öllum þessum borgum fer helgihald fram í samvinnu við Íslendingafélögin og er undirbúið í samstarfi sendiráðsprests og stjórna viðkomandi félaga. Um nýliðin jól var vetrarfærð víða í Danmörku vegna snjókomu og setti það svip á ferðalag prests um ótalda kílómetra þessa jóladaga.

Video Gallery

View more videos