Eldgos í Eyjafjallajökli - Stöðuskýrsla 18. apríl

Gosvirkni í dag er minni en áður. Gosmökkur fer lægra, öskumyndun er minni og litlar fréttir hafa borist af öskufalli.  Það er mökkur yfir bæði Mýrdals- og Eyjafjallajökli en askan nær ekki niður í byggð. 

 

Íbúafundur var haldinn  á Heimalandi í dag og voru menn sammála um að það hefði verið árangursríkur fundur. Um 100 manns mættu til fundarins og var öllum boðið upp á kjötsúpu.  Smærri íbúafundir verða haldnir á morgun.  Áfallateymi RKÍ heimsótti bæi  á öskufallssvæðum í dag og heyrði í fólki.  Dómsmálaráðherra heimsótti Rangárþing í dag. Hún heimsótti bækistöðvar björgunarsveita,  kom við á Heimalandi og fundaði með almannavarnanefnd.  Forseti Íslands var einnig í Rangárþingi í dag.

 

Nauðsynleg starfsemi hefur gengið eðlilega.  Engar truflanir eru á dreifingu raforku og ekkert athugavert hefur komið fram í sýnum sem tekin hafa verið úr neysluvatni.  RARIK hefur kannað áhrif og umfang öskufallsins á búnað og tæki og reyndist allt í lagi.  Ljósleiðaraþráður sem liggur sunnan við Eyjafjallajökul er í lagi. Fjarskipti hafa gengið eðlilega og ekki berast fréttir af skorti á nauðsynjum.  

 

Samráðshópur um áfallahjálp í umdæminu hefur starfað frá því gos hófst á Fimmvörðuhálsi og unnið með samráðshópi áfallahjálpar í Samhæfingarstöðinni. Tveir sérfræðingar frá samráðshópi áfallahjálpar í Samhæfingarstöðinni fóru austur í dag til að meta umfang og ræða við áfallahóp umdæmisins.  Á morgun, mánudag, verður hugað að börnum á rýmingarsvæðinu og rætt við kennara í því skyni upplýsa þá um gildi sálræns stuðnings og aðferðir til að ræða við nemendur.

 

Mikið álag hefur verið í Samhæfingarstöðinni í allan dag vegna ágangs erlendra fjölmiðla.  Hafa tveir starfsmenn sinnt þessu verkefni og talað við miðla víða að úr heiminum, svo sem frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, frá útvarpsstöð í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, dagblaði í Rússlandi, DPA fréttastofunni þýsku, írskri útvarpsstöð (Newstalk), kanadískri útvarpsstöð, kanadískri sjónvarpsstöð, AP-fréttastofunni, GM-TV í Bretlandi og ITN-sjónvarpsstöðinni í Bretlandi. Þá komu katalónska sjónvarp/útvarpið og norska VG í morgun og fengu almennar upplýsingar.  Ákveðið hefur verið að vísindamenn og stjórnendur verði til taks í fjölmiðlasetri á Hvolsvelli og í Skógarhlið milli kl. 8.00 og 9.00 á morgun og þriðjudag og svari spurningum fjölmiðla.  Eins hefur verið ákveðið að miðla bæklingum um viðbrögð íbúa við eldgosum til erlendra sendiráða á Íslandi og freista þess einnig að koma þeim með flugi yfir hafið um leið og glufur myndast í fluginu.   Upplýsingar um áreiðanlegar fréttaveitur og vefsíður hafa verið settar inn á vefsíðu almannavarnadeildarinnar.   Upplýsingamiðlun til almennings, stjórnvalda, íslenskra og erlendra sendiráða, ferðaþjónustuaðila og fjölmiðla er komin í góðan farveg. Því sinnir fjölmiðlateymi fulltrúa frá nokkrum stofnunum í Samhæfingarstöðinni.

 

Yfirdýralæknir hefur upplýst um að ástandið á skepnum sem hafa verið úti í öskufallinu sé ótrúlega gott.  

Kálfar standa jórtrandi og hestar bera sig vel og án nokkurra einkenna.   Hafa ber þó í huga að vandamál gætu komið upp síðar, sem verður að fylgjast vel með. Mikið og gott lið björgunarsveitarmanna er á svæðinu og aðstoðar alla þá sem eru að vinna í að koma dýrum í hús - eða flytja burt af svæðinu.  Við þetta má bæta að björgunarsveitir hafa sinnt lokunum vega og einnig mokað ösku af þökum á húsum undir Eyjafjöllum.

 

Eins og fram hefur komið þá hefur eldgosið í Eyjafjallajökli haft víðtæk áhrif á flugumferð í Norður-Evrópu. Þrátt fyrir það hefur Keflavíkurflugvöllur verið opinn frá því eldgosið hófst. Í dag var var gefin flugheimild til Noregs og samtals flugu um 1000 farþegar héðan í dag til Þrándheims.  Innanlandsflug hefur ekki raskast mikið.

 

Öskufallsspá fyrir mánudaginn 19. apríl:  Ákveðin norðanátt ber gosmökk til suðurs frá Eyjafjallajökli. Öskufall verður því líklega einkum suður af gosstöðinni, en einnig má búast við einhverju öskufalli yfir A-Landeyjar og jafnvel í Vestmannaeyjum. Líklega verður léttskýjað lengst af og gott skyggni.

 

 

Fjölmiðlateymi Samhæfingarstöðvar í Skógarhlíð

aaetlun@sst.isVideo Gallery

View more videos