Ár Jónasar Hallgrímssonar

Þann 16. nóvember árið 2007, verða liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni hefur tímabilið frá 16. nóvember 2006 til 16. nóvember 2007 verið útnefnt sem Jónasarár. Samstarfsaðilar sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn vilja minnast Jónasar Hallgrímssonar á margan hátt á þessu tímabili og efna til menningarviðburða af ýmsu tagi.

Afmælisdagskráin hefst strax á þessu ári með bókmenntadagskrá í Jónshúsi í kaupmannahöfn 23. nóvember kl. 19.30. Þar verður lesið úr verkum Jónasar og sungin lög við ljóð hans.

Á vordögum 2007, verður efnt til hópferðar undir leiðsögn fararstjóra til Sorø þar sem Jónas bjó sín síðustu ár. Einnig verður farið með fararstjóra í gönguferð um Kaupmannahöfn á þær slóðir sem tengjast dvöl Jónasar þar. Þann 19. maí mun núverandi garðprófastur á Regensen, stúdentagarðinum þar sem Jónas bjó á námsárum sínum ásamt fjölda annarra Hafnarstúdenta, Erik Skyum-Nielsen, ganga með gestum um staðinn og segja sögu hans.

Hausti 2007 verður haldin ráðstefna um Jónas Hallgrímsson og verk hans, og Jónasarári lýkur svo á svipaðan hátt og það hófst, með bókmennta- og tónlistardagskrá í Jónshúsi 16. nóvember. Þar verður m.a. kynnt ný bók sem nú er í smíðum, með úrvali úr ljóðum Jónasar Hallgrímssonar á dönsku. Það er danska ljóðskáldið Søren Sørensen sem þýðir ljóðin en inngang bókarinnar skrifar Matthías Johannessen.

Samstarfsaðilar sendiráðsins vegna Jónasarársins í Danmörku eru Hús Jóns Sigurðssonar, Bókmenntaklúbburinn Thor, Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn og kórinn Staka og Dansk-Islandsk Samfund, auk fyrirtækjanna Phil og søn undir forystu Sørens Langvads og Kaupþings undir forystu Sigurðar Einarssonar. Phil og søn og Kaupþing styrkja þau viðfangsefni sem bíða eftir því sem hátíðaárinu vindur fram.


Video Gallery

View more videos