Aðventa lesin í Danmörku og á Íslandi

Aðventa lesin í Danmörku og á Íslandi

kyrrðarstund með Fjalla-Bensa

Adventa

 Hin klassíska skáldsaga Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson verður lesin í heild sinni á þremur stöðum samtímis sunnudaginn 14. desember næstkomandi. Upplesturinn verður á Skriðuklaustri í Fljótsdal, í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík og í Jónshúsi Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn. Stofnun Gunnars Gunnarssonar skipuleggur upplesturinn í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn.

Boðskapur Aðventu á vel við á þeim óvissutímum sem nú ríkja. Sagan segir frá Fjalla-Bensa sem fer á hverri aðventu inn á Mývatnsöræfi í leit að eftirlegukindum sem enginn annar hirðir um. Honum til aðstoðar eru hundurinn hans Leó og forystusauðurinn Eitill. Í sögunni lendir Fjalla-Bensi í miklum hrakningum í baráttu sinni við óblíð náttúruöflin en kemst að lokum til byggða. Þrautseigjan og það að gefast ekki upp verður honum til bjargar.

Gunnar Gunnarsson átti heima á Skriðuklaustri í Fljótsdal (Austurlandi) og á Dyngjuvegi í Reykjavík eftir að hann flutti aftur til Íslands frá Danmörku. Í Danmörku bjó og starfaði Gunnar á árunum 1907 – 1939 og þar komu út hans helstu verk svo sem Saga Borgarættarinnar (Borgslægtens Historie) og Fjallkirkjan (Kirken på Bjerget).

Aðventa hefur frá árinu 2005 verið lesin á Skriðuklaustri á þriðja sunnudegi í aðventu. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem hún er lesin á þremur stöðum samtímis. Það er því tilvalið að mæta á þessa yndislegu kyrrðarstund í Jónshúsi og gleyma næðingnum úti fyrir um stund. Lesturinn hefst kl. 14.00 í Jónshúsi og tekur um þrjá til fjóra tíma með hléum. Sendiherrahjónin, Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir lesa ásamt fleirum. Áður en lesturinn hefst mun Jón Yngvi Jóhannsson flytja stutt erindi um Gunnar.

 Video Gallery

View more videos