Á Vesturvegi - sýning á Norðurbryggju

Farandsýningin Á Vesturvegi, er afrakstur samstarfs safna og listamanna frá Noregi, Íslandi, Færeyjum, Shetlandseyjum og Danmörku.

Á víkingatímanum nefndist siglingaleiðin til landanna sem liggja vestur af Noregi Vesturvegur. Heiti sýningarinnar er því táknrænt fyrir söguleg tengsl landanna og einnig útgangspunktur verkanna á sýningunni.

Sjö listamenn frá Íslandi, Noregi og Shetlandseyjum hafa undanfarin fjögur ár unnið þvert á landamærin út frá þeim hefðum og tungumála- og handverkstengslum sem löndin eiga sameiginleg. Erfitt getur reynst að koma auga á þessi tengsl í nútímanum og fáir kunna að þekkja til þeirra.

Listamennirnir hafa staðið fyrir vinnustofum og málþingum, í samvinnu við söfn og háskóla þátttökulandanna, og kannað á gagnrýninn hátt menningararfinn á Norður-Atlantshafssvæðinu, en einnig leitað innblásturs, bæði í sameiginlegum þáttum þess arfs og hinum sértæku afkimum hans.

Markmið sýningarinnar - ekki síður en áralangs undirbúningsferils hennar - er að auka tengsl þvert á landamæri þátttökuríkjanna, miðla og auka þekkingu og skilning á sameiginlegri sögu landanna sem vel er greinanleg í þeim hefðum sem vísa til sameiginlegs grunns þeirra.

Tjáningarleiðir og form eru mjög ólík, allt frá textílverkum til vídeóverka, þá er lagt upp með svipað náttúrulegt hráefni í verkunum, tré, ull, horn, þang, hár o.fl.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru:

Málfríður Aðalsteinsdóttir (Íslandi)
Elsie-Ann Hochlin (Noregi)
Kristín Reynisdóttir (Íslandi)
Guðjón Ketilsson (Íslandi)
Johannes Vemren-Rygh (Noregi)
Barbara Ridland (Shetlandseyjum)
Roxane Permar (Shetlandseyjum).

Sýningin nýtur styrkja frá:

Norræna menningarsjóðnum
Reykjavíkurborg
Menningarmálaráðuneyti Noregs
Utanríkisráðuneyti Noregs
Shetlandcraft
Mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands
Norsk Kulturråd
Norske Kunsthåndværkere
Bandalagi íslenskra listamanna.Video Gallery

View more videos