Norrænu sendiráðin

Sendiráð Norðurlanda í Berlín

Sambönd og stjórnmálaleg bandalög í Norður-Evrópu eiga sér langa sögu. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð mynda hin svokölluðu „Norðurlönd“.

Eftir ákvörðun þýska þingsins að færa höfuðborgina frá Bonn til Berlínar, var hægt að setja á stofn sameiginlegt sendirássvæði Norðurlandanna í nýju höfuðborginni. Markmiðið var að undirstrika innbyrðis tengsl Norðurlandanna um leið og sýnt yrði fram á sérstæði hvers lands fyrir sig. Verðlaunatillagan kom frá austurísk-finnska arkitektateyminu Alfred Berger og Tiina Parkkinen. Sérhver sendiráðsbygging er hönnuð af arkitekt frá viðkomandi landi. Fyrsta skóflustungan var tekin sameiginlega af sendiherrum Norðurlanda í maí 1997 og í október 1999 voru sendiráðin opnuð við sameiginlega athöfn.

Staðsetning sendiráðsbygginganna á svæðinu á að endurspegla stöðu þeirra á landakortinu. Þrjú vatnsker á svæðinu milli sendiráðsbygginganna eiga að tákna höfin sem tengja löndin. Koparveggur umlykur sendiráðin. 

Í Sameiginlega húsinu (Felleshus) er almenningi boðið upp á tónleika, fyrirlestra, kvikmyndasýningar og ráðstefnur auk þess sem þar eru sýningarsalir, fundarsalir, stór og mikil útiverönd og mötuneyti. Skrifstofur ræðismála landanna fimm eru hér einnig til húsa. 

Sendiráð Finnlands stendur næst Sameiginlega húsinu. Um er að ræða glerbyggingu sem er umkringd láréttum lerkibitum, en hönnun hennar var í höndum VIIVA Arkkitehtuuri Oy frá Helsinki. Á jarðhæðinni gefur að líta sérfinnska aðstöðu, sem fæstir myndu búast við að sjá í sendiráði: tvo gufubaðsklefa fyrir gesti og starfsmenn.  

Bak við finnska sendiráðið gefur að líta hina stóru glerfleti á sænska sendiráðinu. Hönnuður byggingarinnar, Gert Wingårdh, hannaði einnig hluta af húsgögnum sendiráðsins. Á þeirri hlið sem snýr að götunni er koparveggurinn opinn, þannig að vegfarendur geta séð inn í húsið og virt fyrir sér birkiklædda veggina og hringstigann. 

Konunglega norska sendiráðið var hannað af Snøhetta A/S frá Oslo. Það einkenni sem er mest áberandi við hina þríhyrndu byggingu er stór og mikil grágrýtisblökk sem stendur fyrir framan hina mjóu suðurhlið byggingarinnar. Þessi 120 tonna þungi steindrangur var höggvinn úr bjargi við Osló og kemur með hina norsku firði til Berlínar. 

Sendiráð Íslands er minnsta byggingin á svæðinu. Arkitektinum Pálmari Kristmundssyni frá PK-HÖNNUN í Reykjavik hefur hins vegar tekist að gefa húsinu athyglisvert útlit með rauðgrýtisveggjum sem snúa að torginu, en hráefnið í veggina var sótt til austurstrandar Íslands. Bylgjulagaðir sandblásnir steypubitar eru áberandi í hönnun hússins en lögun þeirra á að minna á bárujárnið sem mörg íslensk hús eru klædd með. 

Konunglega danska sendiráðið, sem er staðsett beint á móti sameiginlega húsinu, er eina sendiráðsbyggingin sem snýr með opinni glerhlið að Rauchstraße. Sú hlið hinsvegar sem snýr að torginu er klædd með götuðum stálplötum, en það var arkitektastofan 3XNielsen A/S í Árósum sem sá um hönnun byggingarinnar. Hægt er að færa plöturnar í lárétta stöðu þegar þess er óskað.

 

Video Gallery

View more videos