Vel sótt viðskiptaþing

 


  • Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á viðskiptaþingi í Peking
    Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á viðskiptaþingi í Peking

Fréttatilkynning af heimasíðu Utanríkisráðuneytisins birt þann 16. apríl 2013.

Um 300 manns frá 180 kínverskum fyrirtækjum sóttu í dag viðskiptaþing sem haldið var í Peking í dag í tilefni af nýjum fríverslunarsamningi milli Íslands og Kína. Aðsóknin varð þrefalt meiri en búist var við í upphafi. Á þinginu var lagður grunnur að margvíslegum tengslum kínverskra og íslenskra fyrirtækja.


Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði við opnun þingsins að miðað við reynslu Chíle og Nýja-Sjálands gætu útflutningstekjur Íslendinga til Kína margfaldast á næstu árum, og sömuleiðis væri greinilegur áhugi á erlendum fjárfestingum á Íslandi í kjölfar samningsins. Þegar samningurinn gengur í gildi falla niður tollar á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Kína, annað hvort strax eða í áföngum. Tækifæri til aukins útflutnings á fiski og landbúnaðarvörum eykst.

Utanríkisráðherra hvatti hátæknifyrirtæki til að feta í fótspor Össurar, Marels og CCP og hasla sér völl á markaði sem brátt verður stærsti neytendamarkaður í heimi. Ráðherra lagði áherslu á þrenns konar tækifæri í ræðu sinni. Í fyrsta lagi gætu nú Kínverjar í krafti samningsins og fjármögnunarsamninga, sem undirritaðir voru samhliða, ráðist í stórfellda uppbyggingu jarðhitaveitna í Kína sem byggðust á íslenskri tækni og íslenskri hönnun. Í öðru lagi hvatti hann kínversk fyrirtæki í orkuiðnaði til að vinna með íslenskum fyrirtækjum að leit og vinnslu olíu á Drekasvæðinu en tvö sterk kínversk félög hafa sýnt því áhuga. Í þriðja lagi sagði hann Kínverjar og Íslendingar ættu að vinna sameiginlega að því að fá Evrópuþjóðir til að þróa siglingaleiðir yfir norðurskautið með endastöð á Íslandi, sem myndu gagnast öllum hlutaðeigandi.

Sendiherra Nýja-Sjálands, Carl Worker, greindi frá reynslu Ný-Sjálendinga af fríverslunarsamningi við Kína og sagði hann hafa farið fram úr björtustu vonum. Taldi hann ekki síst að Íslendingar gætu gert ráð fyrir að nýi fríverslunarsamningurinn skapaði mikla markaði fyrir afurðir úr landbúnaði, ekki síður úr mjólk en kjöti, og úr fiskvinnslu.

Á þinginu voru undirritaðir nokkrir viðskiptasamningar milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja. Síðar í dag tók utanríkisráðherra þátt í fundi með forseta Kína, Xi Jinping, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem áttu athyglisverðar samræður meðal annars um vinnumál.

Video Gallery

View more videos