Sýning Lu Hong: TVEGGJA HEIMA SÝN
Sýning Lu Hong og KÍM: TVEGGJA HEIMA SÝN
Kínversk-íslenska menningarfélaginu efnir til sýningar á verkum listakonunnar Lu Hong í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 20.-30. júní. Sýningin verður opnuð á morgun fimmtudag kl. 16:00 og eru allir velkomnir. Nánar má kynna sér upplýsingar um sýninguna í tilkynningu frá KÍM sem er afrituð hér að neðan:
TVEGGJA HEIMA SÝN
Sýning á landslagsmálverkum Lu Hung,
Ráðhúsi Reykjavíkur, 20.-30. júní.
Sýningin verður opnuð kl. 16:00 fimmtudaginn 20. júní og eru allir hjartanlega velkomnir.
Kínversk-íslenska menningarfélaginu er það sérstök ánægja að efna til sýningar á verkum Lu Hong. Sýningin er haldin í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Tilgangur hennar er að kynna hina stórmerku listakonu og þær aðferðir sem hún beitir til að túlka íslenskt landslag. Jafnframt vill félagið vekja athygli á framlagi Íslendinga af Kínverskum ættum til íslenskrar menningar og þeirrar auðlegðar sem hún býr yfir. Lu Hong tvinnar saman í verkum sínum íslenska þjóðarvitund og æfafornar hefðir kínverskrar myndlistar.
Lu Hong fæddist í Peking 7. september 1957. Hún sýndi fljótlega myndlistarhæfileika og fékk sérstaka leiðsögn. Á tíma menningarbyltingarinnar (1966 – 1976) tók hún þátt í samsýningum æskufólks í Peking. Fimmtán ára að aldri hóf hún skipulegt myndlistarnám undir handleiðslu Shu Daxions, eins mikilsvirtasta núlifandi málara í hefðbundnum kínverskum stíl. Lu Hong fékk inngöngu í Kínverska listaháskólann í Peking (中央美术学 院 – Shongyang Meishu Xueyuan), æðsta myndlistarskóla Kína, árið 1981 með kínverska landslagmálun (山水 – shanshui) sem sérgrein. Inngönguskilyrði eru mjög ströng, einungis sex nemendur voru teknir í þessa deild skólans það ár og oft eru engir nýir nemendur teknir inn. Lu Hong er fyrsta konan sem lauk námi í kínverskri landslagsmálun frá Kínverska listaháskólanum í Peking. Hún tók árlega þátt í samsýningum nemenda og árið 1984 voru verk eftir hana valin á sýningu með úrvali verka eftir málara víðsvegar að í Kína.
Lu Hong útskrifaðist frá Kínverska listaháskólanum vorið 1985. Árið eftir fluttist hún til Japans þar sem hún kynnti sér japanska málverkahefð og lagði stund á japönsku. Hún hélt einkasýningu í Tokyo í maí 1989. Lu Hong kynntist Íslandi í gegnum íslenska námsmenn í Tokyo. Hún fékk mikinn áhuga á landinu og íslenskri náttúru, sem er mjög frábrugðin kínversku og japönsku landslagi. Hingað kom hún svo í mars 1990.
Síðan hefur hún reynt að kynnast landinu og túlkað það sem hún hefur séð með aðferð kínverskrar landslagsmálunar. Hún giftist íslenskum manni árið 1991 og býr nú í Garðabæ. Þau eiga tvær dætur. Fyrstu sýningu sína á Íslandi hélt hún í nóvember 1990. Var hún fyrsta alvarlega tilraun kínversks málara til að túlka íslenska náttúru með aðferðum hefðbundinnar kínverskrar málaralistar. Myndir sínar málar hún með kínversku bleki og vatnslitum á þunnan bambuspappír.
Sýningar á Íslandi:
1. Ísland í kínversku bleki, nóvember 1990, Hlaðvarpanum
2. Hótel Selfossi, september 1991
3. Íslenskir fossar í kínversku bleki 1992, Hlaðvarpanum
4. Ísland er landið, september 1995, Gallerí Fold
5. Landslagsmyndir, september 1996, Gallerí Fold
6. Fjöll, þoka, hestar, september 1997, Gallerí Fold
7. Íslensku fjöllin, október – nóvember 2000, Gallerí Fold