Skugga Baldur komin út á kínversku og Sjón á bókmenntahátíð Bókaormsins

Skáldsagan Skugga Baldur eftir Sjón kom út á kínversku laugardaginn 22. mars s.l. Bókin er gefin út af Yilin Press forlaginu í Nanjing sem er talið eitt helsta útgáfufyrirtækið í Kína, sérstaklega hvað varðar þýdd bókmenntaverk. Áður hefur félagið gefið út safn Íslendingasagna. Sóley Hekla Wang Shuhui þýddi bókina en hún er kínverskur íslenskukennari við Háskóla erlendra fræða í Peking. Talið er að þetta sé í fyrsta skipti sem að bók kemur út á kínversku sem þýdd er beint upp úr íslensku. Bókin var kynnt á fjölda félagsmiðla í Kína, þ.á.m. Douban, Weibo og We Chat. Áður hafði Stefán Skjaldarsson sendiherra lesið ljóð Steins Steinarr um Tímann og vatnið fyrir sérstakt ljóðakynningarverkefni á We Chat sem nefnist Ljóð fyrir þig. Sjón gerði slíkt hið sama við þetta tækifæri. Útgáfuhóf var haldið í bókabúðinni Trends Lounge í Peking þar sem frú Shi Qin‘e, þýðandi Íslendingasagnanna, flutti langa ræðu um sögu kínverskra þýðinga á íslensum bókmenntaverkum. Þar kom m.a. fram að fyrsta íslenska bókmenntaverkið sem var þýtt á kínversku hafi verið Nonni og Manni. Rannsóknir frú Shi hafi leitt í ljós að um 200 íslensk verk hafi verið þýdd á kínversku, aðallega úr ensku, sænsku eða rússnesku.

Sjón kom til Kína á sama tíma og útgáfan var í boði Bókmenntahátíðar Bókaormsins þar sem hann tók þátt í tveimur málstofum. Sú fyrri var ásamt þjóðskáldi Skota, Liz Lochead, kínverska skáldinu Xi Chuan og bandaríska skáldinu Mike Sullivan. Lásu þau ljóð og ræddu verk sín. Í síðari málstofunni sat Eiríkur Sturla Ólafsson, sendikennari í íslensku við Háskóla erlendra fræða, undir svörum Sjónar sem svaraði einnig spurningum úr sal. Sjón fór einnig í Pekingháskóla og hitti þar nokkra helsru prófessora bókmenntadeildarinnar. Stefán Skjaldarsson sendiherra og Birgit Nyborg kona hans buðu Íslendingum búsettum í Peking heim að hitta skáldið og kynnti hann þar nýja bók sína: Mánasteinn, drengurinn sem aldrei var til. Útgáfan á Skugga Baldri er samstarfsverkefni Yilin Press, Bókmenntamiðstöðvar og sendiráðsins í Peking. Þátttaka Sjónar á bókmenntahátíð Bókaormsins  var samstarverkefni sömu íslensku aðila og Bókaormsins, sem er frægt bókakaffihús í Beijing,  Chengdu og Suzhou.

Á myndinni fyrir ofan er Sjón að árita bók sína fyrir kínverska lesendur. Á myndinni fyrir neðan eru þeir Sjón og Stefán Skjaldarson sendiherra að ræða saman

Video Gallery

View more videos