Íslensk fyrirtæki á ferðakaupstefnunni í Sjanghæ

 

 

Ein stærsta ferðakaupstefna Kína, China International Travel Mart, stendur yfir dagana 15.-18. nóvember í Sjanghæ. Fjögur íslensk fyrirtæki taka þátt með sameiginlegan bás á sýningunni. Þau eru Icelandair, Iceland Travel, Iceland Excursions/Grayline og Hotels of Iceland, sem er fulltrúaskrifstofa Reykjavíkur- og Fosshótela í Kína. 
 
Kínverskum ferðamönnum sem sækja Ísland heim fjölgar ár frá ári. Miðað við upplýsingar frá Ferðamálastofu má ætla að yfir 13 þúsund kínverskir ferðamenn sæki Ísland heim á árinu. Þetta er 50 prósent aukning frá 2011 þegar níu þúsund kínverskir ferðamenn komu til landsins sem var 70 prósent aukning frá fyrra ári. Stór hluti kínverskra ferðamanna tekur þátt í hópferðum til nokkurra Evrópulanda í einni og sömu ferð. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki stefna að því að Ísland verði innan tíðar megináfangastaður þeirra kínversku ferðamanna sem þangað koma enda eru kínverskir ferðamenn meðal þeirra sem verja mestu fé til kaupa á vöru og þjónustu þar sem þeir koma. 
 
Ferðakaupstefnan í Sjanghæ er haldin annað hvert ár þar í borg en í Kunming í Yunnan héraði hin árin þess á milli. Sýningarsvæðið er gríðarlega stórt og nær yfir fjórar sýningarhallir í Shanghai New International Expo Center í nýja iðnþróunarhverfinu Pudong austan Huangpu fljóts. 
 
 
 
 

Video Gallery

View more videos