Afhending trúnaðarbréfs í Kína

Stefán Skjaldarson, sendiherra, afhenti í dag Xi Jinping, forseta Kína, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Kína. Afhendingin fór fram í Höll alþýðunnar í Peking. Í stuttu samtali sendiherra við Kínaforseta kom fram af beggja hálfu vilji til að styrkja enn frekar gott samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum. Var þar sérstaklega nefnt til sögunnar samstarf um málefni Norðurslóða, samstarf um nýtingu jarðhita í Kína, en einnig annars staðar, sérstaklega í Afríku.  Þá var rætt um möguleika á auknum viðskiptum á grundvelli nýlega gerðs fríverslunarsamnings landanna, ferðamál o. fl. Ennfremur nefndi forseti Kína vel heppnaða heimsókn Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, til Kína og einnig að forsetinn hefði í nokkur skipti átt góða fundi með forseta Íslands.
 
Sendiráð Íslands í Kína fer með fyrirsvar gagnvart 9 ríkjum í Asíu og Eyjaálfu, auk Kína. Þau eru Ástralía, Kambódía, Laos, Mongólía, Norður-Kórea, Nýja-Sjáland, Suður-Kórea, Tæland og Víetnam. Þá eru Hong Kong og Makaó einnig í umdæmi sendiráðsins.
 
 
 

Video Gallery

View more videos