Íslenskuskóli fyrir börn búsett utan Íslands

Íslenskuskólinn er skóli á netinu fyrir íslensk börn á aldrinum 0-18 ára sem búsett eru utan Íslands. Allt skólastarf fer fram á netinu og þar geta börn á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri sótt námskeið í íslensku. Auk námskeiða er m.a. boðið upp á lifandi klúbbastarf og nemendur geta sett upp sína eigin heimasíðu til að vinir og ættingjar á Íslandi geti betur fylgst með því sem þau taka sér fyrir hendur.

Frá stofnun árið 2004 hafa tæplega 1000 nemendur búsettir í um 40 löndum skráð sig í skólann. Kannanir meðal foreldra og nemenda sýna að þörf er á skólastarfi af þessu tagi svo börn búsett erlendis tapi síður tengslum við íslenska tungu, menningu og ættingja.

Næstu námskeið í Íslenskuskólanum hefjast um miðjan febrúar og er skráning á þau þegar hafin. Námskeiðin standa í nokkrar vikur og á þeim er áhersla lögð á að nám, leikur og skemmtun fléttist saman í gagnlegt og skemmtilegt nám á netinu.

Eftirfarandi námskeið eru í boði:

- Leikskólanámskeið (3-5 ára, hefst 3. mars)
- Lestur, leikir og skemmtun (6-10 ára, hefst 17. febrúar)
- Íslenska, málið mitt(7-9 ára, hefst 17. febrúar)
- Mörgæsaklúbburinn(8-10 ára, hefst 3. mars)
- Íslenska plús(11 ára og eldri, hefst 3. mars)

Nánari upplýsingar um Íslenskuskólann má nálgast á www.islenskuskolinn.is, einnig er hægt að senda tölvupóst til islenskuskolinn@islenskuskolinn.is.Video Gallery

View more videos