China Iceland Cultural Fund

Stofnaður hefur verið menningarsjóður sem ber enska heitið China Iceland Cultural Fund. Hvatamaður og fjárhagslegur bakhjarl sjóðsins er kínverski kaupsýslumaðurinn og ljóðskáldið Huang Nubo og fyrirtæki hans, Zhongkun Group í Kína. Huang Nubo var samtíða Hjörleifi Sveinbjörnssyni kínverskuþýðanda við nám í Pekingháskóla og herbergisfélagi hans þar á áttunda áratugnum. Markmiðið með sjóðnum er að stuðla að menningarlegri samvinnu milli Íslands og Kína þar sem áhersla er lögð á bókmenntir, einkum ljóðlist. Í víðara samhengi tekur þessi samvinna til Austur Asíu og Norðurlandanna. 

Formlega verður tilkynnt um stofnun sjóðsins á fjölmiðlafundi í Beijing miðvikudaginn 7. júlí kl.16.00 að kínverskum tíma (kl. 08.00 að morgni að íslenskum tíma). Sjóðnum er ætlað að starfa í tíu ár og hefur verið tryggt fjármagn til starfseminnar að upphæð ein milljón bandaríkjadala sem svarar til tæpra 130 milljóna íslenskra króna.

Fyrsta verkefni sjóðsins verður ljóðaþing í Norræna húsinu í Reykjavík í byrjun október n.k. Til ljóðaþingsins er boðið fjórum íslenskum skáldum auk fimm frá hinum Norðurlöndunum. Þingið sækja sex kínversk ljóðskáld og tvö japönsk. Íslensku þátttakendurnir verða þau Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sigurður Pálsson og  Vilborg Dagbjartsdóttir. Frá Danmörku kemur Naja Marie Aidt, frá Finnlandi Markku Paasonen, frá Færeyjum Carl Jóhan Jensen, frá Noregi Inger Elisabeth Hansen og frá Svíþjóð Ann Jäderlund. Við val á þátttakendum var stuðst við tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Kínversku ljóðskáldin eru Xie Mian, Luo Ying, Zang Di, Yu Jian, Lu Ye og Tian Yuan. Frá Japan koma Shuntaro Tanikawa og Takahashi Mutsuo. Í tengslum við ljóðaþingið verður gefið út rit með völdum ljóðum þátttakenda og þýðingum á þeim.

Stjórn sjóðsins skipa Huang Nubo forstjóri Zhongkun Group sem er formaður sjóðsins, Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Kína, og Xie Mian prófessor, forstöðumaður Ljóðaseturs Pekingháskóla.

Sjóðnum hefur verið sett verkefnisstjórn á Íslandi. Stjórnarmenn eru Hjörleifur Sveinbjörnsson, formaður, Max Dager forstjóri Norræna hússins í Reykjavík, dr. Geir Sigurðsson forstöðumaður Konfúsíusarstofnunar á Íslandi, Auður Edda Jökulsdóttir menningarfulltrúi utanríkisráðuneytisins og Þorgerður Agla Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs. 

Zhongkun Group hefur staðið fyrir ljóðahátíðum og menningarviðburðum í samstarfi við fræðasamfélög víða um lönd, meðal annars í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Mongólíu, Tyrklandi og Kóreu og veitt viðurkenningar bæði fyrir skáldskap og þýðingar.

Nánari upplýsingar veita:

Hjörleifur Sveinbjörnsson í síma 6934089 og Kristín A. Árnadóttir í síma 5457953. Þá veita aðrir stjórnarmenn einnig upplýsingar.Video Gallery

View more videos