Venesúela

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Venesúela og Íslands 15. janúar 1981. Varakjörræðismaður Íslands í Caracas er Karel Bentata.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Venesúela þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Almennt

Íbúar Venesúela eru 25 milljónir talsins. Meirihluti landsmanna er af evrópskum, indjána og afrískum uppruna.

Spænska er opinbert tungumál Venesúela. Um 96% íbúa tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni sem er þjóðkirkja landsins. Meðallífslíkur í Venesúela eru 74 ár. Almennt læsi í Venesúela er á meðal þess sem best gerist í Rómönsku Ameríku, um 93,4% íbúa eru læsir.

Venesúela er 912,050 ferkílómetrar að stærð. Landið er rómað fyrir náttúrufegurð og landslagið mjög fjölbreytt, hrikaleg Andesfjöllin, regnskógar Amason, fögur strandlengja við Karabíska hafið, eyðimörk og frjóar sléttur. Meðalárshiti í landinu eru 27 gráður, en árstíðirnar eru aðeins tvær regntímabil frá maí til nóvember og þurrkatímabil frá desember til apríl.

Höfuðborg landsins er Caracas. Þar búa tæpar tvær milljónir manna.

Þótt Venesúela sé fimmta stærsta olíuútflutningsríki heims búa um 47% íbúanna undir fátæktarmörkum. Atvinnuleysi var áætlað 17% árið 2002. Gjaldmiðill landsins er bolivar (1 USD = 2147 VEB).

Í Venesúela er fulltrúalýðræði og er stjórnarfar landsins byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Kosningaaldur miðast við 18 ár.

Forseti lýðveldisins er þjóðhöfðingi landsins og leiðir framkvæmdavaldið. Kjörtímabil forseta er sex ár og má hann bjóða sig fram til endurkjörs einu sinni. Forseti skipar varaforseta landsins, ákveður fjölda og hlutverk ráðuneyta og skipar ráðherra.

Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, en þar sitja 165 þingmenn í einni þingdeild. Þingmenn eru kjörnir til fimm ára í senn og geta þeir boðið sig tvisvar fram til endurkjörs. Síðustu kosningar fóru fram í júlí 2000. Æðsta dómsvald er hjá hæstarétti (Tribuna Suprema de Justicia). Hæstaréttardómarar eru valdir af þjóðþinginu til tólf ára.

Nafnið Venesúela þýðir “litlu Feneyjar”. Kristófer Kólombus kom fyrstur Evrópumanna til landsins árið 1498 og var þá í þriðju ferð sinni til Nýja heimsins. Frelsishetjan Simon Bolivar fæddist og ólst upp í Venesúela, en hann barðist gegn yfirráðum Spánverja. Bolivar frelsaði Kólumbíu árið 1819, Venesúela árið 1821 og Ekvador, Perú og Bólivíu árið 1825. Hann sameinaði Ekvador, Kólumbíu (þar með talið núverandi Panama) og Venesúela í eitt ríki sem hlaut nafnið Stóra Kólumbía, Gran Colombia. Áformað var að með tímanum yrði öll Rómanska Ameríka sameinuð í eitt ríki en ekki varð úr því. Árið 1830 klufu ríkin samvinnu sína. Sjálfstæðið reyndist Venesúela þungt í skauti og stríð, einræðisstjórn og borgaralegar óeirðir geisuðu í landinu langt fram á tuttugustu öld.

Stjórnmál

Lýðræði var endurvakið í Venesúela árið 1958 þegar endir var bundinn á einræðisstjórn Marcos Pérez Jiménez og herinn hætti afskiptum af stjórnmálum landsins. Árið 1992 reyndi herinn árangurslaust að steypa þáverandi forseta landsins, Carlos Andrés Pérez, af stóli. Herforinginn Hugo Chávez fór fyrir byltingunni en hann var fangelsaður vegna þátttöku sinnar. Eftirmaður Pérez veitti honum uppgjöf saka tveimur árum síðar.

Eftir fangelsisvistina hóf Chávez stjórnmálaafskipti og gerðist ötull baráttumaður fyrir réttindum fátækari íbúa Venesúela. Auðstéttin í landinu, auk millistéttarinnar, studdi stærstu stjórnmálaflokka landsins sem höfðu fengið á sig óorð fyrir spillingu og flokksbundnar sporslur. Chávez stóð utan hins hefðbundna flokkakerfis og bauð sig fram til forseta í kosningum árið 1998 sem óháður fulltrúi flokkabandalags Föðurlandssambandsins (Polo Patriótico), sem samanstendur af hreyfingum vinstrimanna og þjóðernissinna. Chávez hlaut hljómgrunn meðal almennings enda sagðist hann lærisveinn og arftaki Bólivars frelsishetju Venesúela og lofaði að uppræta spillingu og misskiptingu auðs í landinu. Chávez sigraði í kosningunum með 56% atkvæða og tók við embætti í ársbyrjun 1999. Varaforseti er Jose Vicente Rangel.

Eitt fyrstu verka hins nýja forseta var að leysa upp þingið og reka hundruð dómara sem voru sakaðir um spillingu. Hann boðaði til stjórnarskrárþings í þeim tilgangi að leggja fram drög að nýrri stjórnarskrá, en Föðurlandssamband Chávez fékk yfir 90% sæta á þinginu. Chavéz knúði fram breytingar á stjórnarskránni sem m.a. tryggðu forsetanum stóraukin völd og í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fylgdi í júlí 2000 var Chávez endurkjörinn forseti landsins til 6 ára.

Síðustu þingkosningar fóru fram í júlí 2000. Stjórnarflokkarnir og flokkar hliðhollir ríkisstjórninni hafa 86 fulltrúa á þingi en stjórnarandstæðingar 79. Stærstu þingflokkarnir eru flokkur forsetans, Movimiento V República (Hreyfing V. Lýðveldisins eða MVR) sem hefur 68 fulltrúa á þingi, Acción Democrática (AD) sem hefur 24 þingmenn og Movimiento al Socialismo (MAS) með 11 þingmenn. MVR og MAS eru stæðstu flokkarnir í ríkisstjórn.

Í ársbyrjun 2002 náði óánægja með framgöngu Chávez í forsetastóli hámarki. Vaxandi ólgu varð vart innan hersins og forsetinn hafði styggt flestalla hagsmunahópa í landinu, ráðamenn í olíuiðnaðinum, atvinnurekendur og kaþólsku kirkjuna. Ennfremur höfðu efnahagsaðgerðir hans komið illa við pólitískt bakland forsetans, fátæklinga og verkalýðsstéttina.

Verkföll og óeirðir brutust út í apríl 2002. Stuðningsmönnum Chávez og andstæðingum laust saman í Caracas og herinn sneri við honum baki. Helstu hershöfðingjar í stjórn Chávez sögðu af sér og neyddu Chávez til þess sama. Kaupsýslumaðurinn Pedro Carmona tók við sem nýr forseti bráðabirgðastjórnarinnar en hann neyddist til að segja af sér eftir tvo daga, bæði vegna óeirða stuðningsmanna forsetans og hótana fulltrúa Samtaka Ameríkuríkja um pólitískar og efnahagslegar refisaðgerðir.

Í kjölfar uppreisnarinnar lofaði Chávez lýðræðislegri stjórnaraðferðum, en þrátt fyrir það boðuðu andstæðingar hans til fjögurra allsherjarverkfalla á árinu 2002 til að knýja á um afsögn hans. Verkfall í desember lamaði olíuútflutning landsins í tvo mánuði og í kjölfarið hækkaði olíuverð á heimsmarkaði.

Í ágúst 2004 nýttu andstæðingar forsetans sér það ákvæði stjórnarskrár Venesúela sem kveður á um að efna megi til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort forseti eigi að láta af embætti þegar kjörtímabil hans er hálfnað. Chávez náði að halda velli með 59% atkvæða. Í sveitarstjórnarkosningum í október 2004 náðu fylgismenn Chávez völdum í 20 af 23 fylkjum landsins auk höfuðborgarinnar Caracas.

Enn stendur styrr um forsetann en næstu forsetakosningar verða árið 2006. Chávez forseti er með litríkustu leiðtogum heims, hefur haft mikil áhrif á starfsemi OPEC ríkja og er mjög náinn bandamaður Fidel Castro forseta Kúbu. Hann hefur aflað sér óvinsælda stjórnvalda Bandaríkjanna sem m.a. studdu tveggja daga stjórn Pedro Carmona.

Efnahagsmál

Olía fannst í Venesúela í upphafi síðustu aldar. Olíuauðurinn dreifðist á fáar hendur og þrátt fyrir uppreisnir er almenningur fátækur og olíuauðurinn í höndum ráðandi stétta. Verðmæti olíuútflutnings nemur nú þriðjungi vergrar landsframleiðslu og er um 80% af heildarútflutningsverðmæti landsins. Þar af leiðandi hefur verðflökt á heimsmarkaðsverði olíu mikil áhrif á efnahag landsins.

Aðgerðir Chávez í efnahagsmálum hafa valdið miklum fjármagnsflótta frá landinu og er talið að um tíu milljarðar dollara (USD) hafi verið fluttir frá landinu á einu ári. Mikill efnahagssamdráttur hefur verið frá því að forsetinn komst til valda, jafnvel þegar heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið hátt. Árið 2002 var fjárlagahalli landsins um 8 milljarðar dollara.

Milliríkjamál

Kókaín og önnur ólögleg efni streyma inn í landið aðallega frá Kólumbíu og kókaínbraskarar stunda peningaþvott við landamærin. Stjórnvöld Venesúela eiga í landamæladeilum við Gvæönu og Kólumbíu.

Venesúela hefur átt þátt í undirbúningi að fríverslunarsamningi tólf ríkja í Suður Ameríku, en ríkin eru ásamt Venesúela, Bólivía, Kólumbía, Perú, Ekvador, Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ, Chile, Gvæana og Suriname. Á fundi í Cuzco í Perú 8. desember 2004 undirrituðu fulltrúar ríkjanna samning um stofnun SACN (South American Community of Nations, Comunidad Sudamericana de Naciones, CSN), sem á með tímanum (miðað er við árið 2019) að þróast og líkjast samvinnu ríkja í Evrópusambandinu. Ætlunin er m.a. að taka upp sameiginlega mynt, stjórnarskrá, löggjafarþing og vegabréf, en fyrst um sinn verður látið nægja að fella niður tolla.

Samvinnan byggir á sameiningu fríverslunarsamtakanna Mercosur og Andes bandalagsins (Comunidad Andina) sem áætlað er að verði gengin í gegn árið 2007. Við það myndast 366 milljón manna markaður með rúmlega 2,6 milljarða dollara verga landsframleiðslu.

Þrátt fyrir að samstarf ríkja í CAN hafi hafist fyrir 35 árum hefur enn ekki tekist að ná samstöðu um sameiginlega tolla. Því má gera ráð fyrir að með fjölgun aðila að nýja samstarfinu verði enn erfiðara að komast að samkomulagi, sérstaklega þar sem mörg ríkjanna flytja út sömu vörutegundir. Framtíðin leiðir í ljós hvernig þessum nýja samstarfsvettvangi mun reiða af.

Samskipti Íslands og Venesúela

Karel Bentata var skipaður varakjörræðismaður með ræðisstigi í Caracas 5. maí 2004. Aðalræðismaður Íslands í Caracas Dr. Victor Bentata lést í lok nóvember 2004.

Verðmæti innflutnings til Íslands frá Venesúela árið 2004 nam 66,6 milljónum króna. Útflutningur frá Íslandi til Venesúela á sama tímabili nam 0,2 milljónum króna. Íslensk fyrirtæki leita nú samstarfs við fyrirtæki og stofnanir í Venesúela í ál- og olíuiðnaði og líkur eru á auknum viðskiptum á þeim vettvangi.

Video Gallery

View more videos