Panama

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Panama og Íslands 4. júní 1999. Ræðismaður Íslands í Panama er Alexander D. Psychoyos.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Panama þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Almennt

Íbúar Panama eru tæpar þrjár milljónir. Margir eiga rætur sínar að rekja til Spánar, en Spánverjar námu land í Panama á 15. öld. Flestir íbúarnir (65%) teljast mestizos (afkomendur Spánverja og Indjána), 14% eru af afrískum uppruna, 10% teljast hvítir og 10% eru Indjánar. Margvíslegir menningarkimar glæða Panama alþjóðlegum blæ endar er landið brú milli tveggja heima, Mið- og Suður-Ameríku.

Spænska er opinbera tungumálið í Panama en vegna áhrifa frá Bandaríkjunum er enska annað tungumál íbúanna, og þá sérstaklega á svæðum kringum Panamaskurðinn. Að auki eru töluð tungumál frumbyggja.

Flestir íbúar Panama eru kaþólskrar trúar eða um 80%, 8,4% eru Gyðingar, 6,6% mótmælendur og önnur trúarbrögð aðhyllast um 5% þjóðarinnar.

Menntakerfi Panama þykir gott og er almennt læsi um 92,6% sem telst með því hærra í Mið- og Suður-Ameríku. Skyldunám er frá 6 ára aldri til 15 ára aldurs. Grunnskólanám er ókeypis en greiða þarf fyrir háskólanám.

Panama er lýðveldi og skiptist í 9 héruð og eitt sjálfstjórnarsvæði, San Blas, land Kuna Indíánanna. Höfuðborgin er Panamaborg. Panama lýsti yfir sjálfstæði frá Kólumbíu árið 1903 með stuðningi Bandaríkjanna. Bandaríkjunum voru veitt yfirráð yfir Panamaskurðinum og rúman rétt til íhlutunar í málefnum Panama. Bandaríkin afhentu Panama aftur skurðinn 31. desember 1999, samkvæmt samningi frá 1977.

Stjórnarfar Panama er byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins. Framkvæmdarvald er í höndum forseta lýðveldisins sem er kosinn til 5 ára en má aðeins sitja í eitt tímabil í senn. Forseti og tveir varaforsetar eru kjörnir í beinni kosningu. Forseti er þjóðhöfðingi og forsætisráðherra landsins. Hann hefur takmarkað neitunarvald. Forseti, varaforsetar og ráðherrar mynda ríkisstjórnarráð sem skipar dómara Hæstaréttar. Dómarar eru skipaðir til 10 ára. Löggjafarvaldið er í höndum þingsins sem starfar í einni deild. Þingsætin eru 71 og þingmenn eru kosnir til 5 ára. Þingmenn frá fjölmennum svæðum eru kjörnir með hlutfallskosningu en þeir sem koma frá fámennum svæðum eru kjörnir með meirihlutakosningu.

Breytingar á stjórnarskrá landsins árið 1983 veittu þinginu aukin völd, sérstaklega varðandi fjárhagsáætlun. Þingmenn geta haft neitunarvald forseta að engu ef um er að ræða staðfestingu laga sem hafa áður verið samþykkt í þinginu. Til þess að ógilda neitunarvald forseta þarf 2/3 atkvæða þingsins.

Dómarar Hæstaréttar eru skipaðir af ríkisstjórninni, 9 talsins og tveir dómarar eru skipaðir annað hvert ár. Dómsvaldið hefur úrslitavald er kemur að túlkun á stjórnarskránni. Dómarar Hæstiréttar skipa dómara á lægri dómsstigum.

Fjölmiðlamarkaður Panama er nokkuð stór og sjálfstæði fjölmiðla er nokkuð þó lög sem vernda opinbera starfsmenn takmarka getu þeirra til að veita stjórnvöldum aðhald. Vilji er hjá ríkisstjórninni til að endurskoða þessi lög.

Stjórnmál

Mireya Elisa Moscoso Rodriguez er forseti Panama. Hún tók við embætti 1. september 1999. Hún er fyrsta konan sem gegnir þessu embætti og hlaut 44,9% greiddra atkvæða. Moscoso bauð sig fram ásamt kosningabandalaginu Union Por Panamá (UPP), sem leitt var af flokki hennar, Partido Arnulfista (PA) í síðustu kosningum. Kosningabandalagið UPP náði naumum meirihluta á þingi en missti meirihlutann þegar flokkurinn Partido Demócrata Cristiano (kristilegir demókratar) gekk út úr samstarfinu. Stjórnmálaflokkarnir sem standa að baki UPP eru Movimento Liberal Republicano Nacionalista (frjálslyndir íhaldsmenn), Partido Democrático (demókratar) og Movimiento de Renovación. Partido Revolucionario Democrática (PRD) er nú með meirihluta í þinginu, 57,7%.

Ríkisstjórn Moscoso hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir störf sín. Litlar líkur eru taldar á að Moscoso standi við loforð sín um frumvarp til endurbóta á fjármögnun félagskerfisins. Félagsleg vandamál eru margþætt, um 37% íbúa lifa undir fátækramörkum, tekjudreifing er ójöfn og atvinnuleysi er um 13%. Skortur á skilvirkni og spilling í opinbera geiranum hefur einnig dregið úr stuðningi almennings við ríkisstjórnina. Spillingin hefur verið ein mesta hindrun lýðræðisþróunar í Panama og hefur því krafa um frekari gagnsæi stjórnsýslunnar aukist.

Kosningabaráttan í Panama er hafin, þrír frambjóðendur hafa boðið sig fram til embættis forseta: José Miguel Alemán býður sig fram fyrir PA (Partido Arnulfista), Martín Torrijos, sonur fyrrum einræðisherra Omar Torrijos, er tapaði fyrir Moscoso í síðustu kosningum, býður sig fram fyrir PRD (Partido Revolucionario Democrático). Þriðji frambjóðandinn er Guillermo Endara, fyrrum forseti Panama (1994 – 1999) sem býður sig fram fyrir Solidaridad flokkinn.

Torrijos hefur nokkuð forskot á aðra frambjóðendur í nýlegum skoðanakönnunum, hann hefur stuðning unga fólksins og vel skipulagðan og sterkan flokk á bak við sig.

Panamaskurðurinn, lífæð landsins

Panamaskurðurinn er þungamiðja landsins og sker það þvert frá norðri til suðurs. Framkvæmdir við skurðinn hófust seint á 19. öld (um 1880) en franskir verkfræðingar freistuðust fyrstir til þess að grafa skurðinn. Ekki tókst að ljúka verkinu, verkamenn þjáðust af malaríu og gulu og hundruð manna létu lífið.

Þegar Theodore Roosevelt tók við embætti forseta Bandaríkjanna var eitt af forgangsverkefnum hans að láta ljúka framkvæmdum við skurðinn. Skurðurinn átti að styrkja stöðu Bandaríkjanna og yfirráð yfir þessari skipaleið var mikilvægur hluti af viðskipta- og hernaðarlegum yfirburðum. Bandaríkin hófu samningaviðræður við Kólumbíu um yfirráð yfir Panamaskurðinum en Kólumbía hafnaði beiðni Bandaríkjanna um að grafa skurð í gegnum yfirráðasvæði landsins í Panama. Bandaríkjamenn fóru því þá leið að styðja sjálfstæðiskröfur Panama og sendu hermenn til aðstoðar. Panama lýsti yfir sjálfstæði 3. nóvember 1903 og staðfesti samning við Bandaríkin um Panamaskurðinn. Samningurinn veitti Bandaríkjunum yfirráð yfir landsvæðunum beggja megin við skurðinn, um 5 mílur í hvora átt og rúman rétt til íhlutunar í málefnum Panama. Kólumbía viðurkenndi ekki sjálfstæði Panama fyrr en árið 1921.

Bandaríkin höfðu ítrekað afskipti af innanríkismálum Panama allt til ársins 1936 en þá afsalaði Bandaríkjastjórn réttindum sínum til þess að hafa hermenn fyrir utan yfirráðasvæði Bandaríkjanna.

Panama og Bandaríkin deildu um Panamaskurðinn allt þar til samkomulag náðist árið 1977 um að Panama myndi fá yfirráð yfir skurðinum árið 1999.

Samskipti ríkjanna versnuðu mjög þegar Manuel Noriega, fyrrum yfirmaður leyniþjónustu Panama (og starfsmaður CIA), tók við völdum í Panama árið 1984. Mikil óstjórn í málefnum ríkisins leiddi til refsiaðgerða af hálfu Bandaríkjanna og eignir Panama í Bandaríkjunum voru frystar. Þegar úrslit forsetakosninganna árið 1989 voru ógild, skipaði Noriega sjálfan sig í embætti þjóðhöfðingja. Stuttu síðar var bandarískur hermaður skotinn til bana og gaf sá atburður Bandaríkjunum tilefni til þess að ráðast inn í Panama með 26.000 hermenn. Fall almennra borgara var umtalsvert (deilt er um fjölda þeirra, um 300 manns samkvæmt opinberum heimildum Bandaríkjastjórnar, en allt að 3000 manns samkvæmt öðrum heimildum). Noriega leitaði hælis í sendiráði Vatíkansins en eftir 6 daga gaf hann sig fram og var handtekin og sendur til Bandaríkjanna. Noriega situr nú í fangelsi í Flórída, dæmdur til 40 ára fangelsisvistar fyrir eiturlyfjaafbrot og peningaþvætti.

Panamaskurðurinn er í dag ein af mikilvægari samgönguleiðum heims og knýr efnahag Panama áfram ásamt fríverslunarsvæði Panama, Calón Free Zone, sem er annað stærsta fríverslunarsvæði heims.

Efnahagur

Nærvera Bandaríkjanna og tilvist Panamaskurðsins hefur haft gífurleg áhrif á efnahagsþróun Panama og skapað þörf fyrir óvenju stóran þjónustugeira sem vegur um tæp 80% af heildarþjóðarframleiðslu (GDP) Panama en landbúnaður vegur um 6,6% og iðnaður 14,3%. Þetta er mun hærra hlutfall en í öðrum löndum Rómönsku-Ameríku.

Hagkerfi Panama er tvíþætt, annars vegar þróað nútíma hagkerfi þéttbýlisins og hins vegar hagkerfi dreifbýlisins sem einkennist af fátækt og atvinnuleysi. Meirihluti íbúa Panama býr í dreifbýli en afkoma dreifbýlisins er samt aðeins lítill hluti af GDP.

Landið er ríkt af náttúruauðlindum eins og leir, kalksteini og salti. Gull, járnsandur og magnesíum eru til staðar en framleiðsla er ekki mikil. Nokkuð er um óunnin kopar í jörðu. Olíulindir hafa fundist fyrir ströndum landsins, beggja megin.

Helstu útflutningsvörur Panama eru bananar, rækjur, melónur og sykur. Stærstur hluti útflutnings Panama fer til Bandaríkjanna, tæplega 50 %, 5,9% til Svíþjóðar, 4,8%, til Kostaríka og 4,4% til Hondúras. Bandaríkin eru helsti innflutningsaðili Panama og nemur innflutningur frá Bandaríkjum um 35% af heildarinnflutningi. Helstu innflutningsvörur Panama eru olía og ýmis neysluvara.

Hægur efnahagsbati hefur verið undanfarin ár og erlendir fjárfestar hafa lýst yfir nokkrum áhyggjum vegna stefnuleysi stjórnvalda í efnahagsmálum. Heildarþjóðarframleiðsla hækkaði um 4% á síðasta ári, einkum vegna aukinna framkvæmda og einkavæðingar. Dregið hefur lítillega úr atvinnuleysi sem er þó enn um 13%. Efnahagsstefna Panama hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum en skuldir ríkisins hafa farið vaxandi. Ný lög um fjárhagslega ábyrgð tóku gildi árið 2002 en þeim er ætlað að stýra efnahagstefnu ríkisins með það að markmiði að draga úr skuldum ríkisins. Nokkur stöðugleiki hefur náðst í efnahagsmálum með þessum aðgerðum.

Stjórnvöld í Panama leggja ríka áherslu á frjáls viðskipti og að laða til sín erlenda fjárfesta. Hluti af því eru fríverslunarsamningar sem Panama hefur gert við önnur lönd. Panama undirritaði tvíhliða fríverslunarsamning við Tævan á síðasta ári en vonast er til að samningurinn greiði fyrir frekari fjárfestingum. Panama og Singapore hafa ákveðið að hefja samningsviðræður um tvíhliða fríverslunarsamning á þessu ári.

Panama stefnir á þátttöku í fríverslunarsamtökum Ameríkuríkja, FTAA (Free Trade Area of the Americas) árið 2005. Panama stendur einnig í samningaviðræðum um fríverslunarsamning við ríki í Mið Ameríku.

Gjaldmiðlar notaðir í Panama eru Bandaríkjadalir og balboar (mynt).

Samskipti Íslands og Panama

Skrifað var undir yfirlýsingu um stjórnmálasamband milli Íslands og Panama 4. júní 1999 en ræðissamband hefur verið milli landanna síðan 1985.

Ísland hefur ræðisskrifstofu í Panama City og er ræðismaður Íslands Alexander Demetrios Psychoyos (síðan 1985). Að hans sögn er aðeins einn Íslendingur búsettur í Panama. Engin íslensk fyrirtæki starfa í Panama.

Hinn 30. mars 2004 afhenti Guðmundur Eiríksson sendiherra Mireya Elisa Moscoso Rodriguez, forseta Panama, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Panama með aðsetur í Ottawa.

Verðmæti innflutnings til Íslands frá Panama árið 2004 nam 200 milljónum króna. Enginn útflutningur var frá Íslandi til Panama á sama tímabili.

Video Gallery

View more videos