Nikaragva

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Nikaragva og Íslands 16. desember 1982. Ræðismaður Íslands í Managua er Rodrigo Mantiga Urcuyo.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Nikaragva þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Almennt

Íbúar Nikaragva eru tæplega fimm og hálf milljónir talsins. Meirihluti landsmanna eru mestizo (70%), en aðrir eru af evrópskum uppruna (17%), afrískum (9%) og indjánar (5%). Helmingur íbúa landsins er yngri en 15 ára.

Spænska er opinbert tungumál Nikaragva. Um 85% íbúa tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni sem er þjóðkirkja landsins. Almennt læsi í landinu er um 67%.

Nikaragva er lítið stærra en Ísland að flatarmáli, eða 120.254 ferkílómetrar. Höfuðborg landsins er Managua. Þar búa um 820.000 manns. Gjaldmiðill landsins er córdoba (apríl 2005:1 USD = 16,3 NIO).

Í Nikaragva er fulltrúalýðræði og er stjórnarfar landsins byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Kosningaaldur miðast við 16 ár.

Forseti lýðveldisins er þjóðhöfðingi landsins og leiðir framkvæmdavaldið. Kjörtímabil forseta er fimm ár og má hann ekki bjóða sig fram til endurkjörs.

Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, en þar sitja 92 þingmenn í einni þingdeild. Þingmenn eru kjörnir til fimm ára í senn og fóru síðustu kosningar fram árið 2001. Æðsta dómsvald er hjá hæstarétti (Corte Suprema de Justicia). Hæstaréttardómarar eru valdir af þjóðþinginu til fimm ára. Dómskerfi Nikaragva er víða gagnrýnt fyrir að vera óskilvirkt og valdalaust.

Efnahags- og stjórnmál

Nikaragva er eitt fátækasta land Rómönsku Ameríku. Erlendar skuldir eru mjög miklar, um 50% íbúa lifir undir fátæktarmörkum og atvinnuleysi er áætlað 22%. Saga landsins einkennist af pólitískum óstöðugleika, borgarastríði, fátækt, erlendum afskiptum og náttúruhamförum.

Efnahagur landsins byggir að stórum hluta á kaffibaunarækt. Þegar vinsældir kaffibaunarinnar jukust í Evrópu og Norður Ameríku, um miðja nítjándu öld, hófu íbúar Nikaragva að rækta kaffi sem fljótt varð helsta útflutningsvara landsins. Til ræktunarinnar þurfti erlent fjármagn og því var hvatt til og auðveldað að erlend fyrirtæki fjárfestu í Nikaragva. Við lok nítjándu aldar var efnahag landsins stjórnað af erlendum hagsmunum og hagsmunum lítils valdahóps í landinu, eigenda kaffiekranna. Hagnaður af kaffiframleiðslunni flæddi úr landi og til örfárra landeigenda innanlands.

Á tuttugustu öld reyndu stjórnvöld að auka fjölbreytni landbúnaðar, m.a. með baðmullarræktun, sem leiddi til tímabundins hagvaxtar. Á sjöunda áratugnum varð iðnvæðing til þess að hagvöxturinn hélt áfram, en í reynd var efnahagur landsins áfram byggður á baðmull og kaffi og hagnaður hélst á fárra höndum.

Risajarðskjálfti reið yfir Nikaragva árið 1972. Hann varð 10.000 manns að bana og 30.000 særðust. Helstu orku- og samgöngumannvirki eyðilögðust. Lán voru tekin til enduruppbyggingar en halli varð á ríkissjóði og verðbólgan jókst. Undir lok áratugarins var landið orðið það skuldsettasta í mið Ameríku.

Árin 1936 til 1979 voru valdatímabil Somoza fjölskyldunnar en talið er að hún hafi sölsað undir sig stóran hluta eigna landsins. Anastasio Somoza hershöfðingi var forseti landsins frá 1936 þar til hann var ráðinn af dögum árið 1956. Við embættinu tóku synir hans, fyrst Luis og síðar Anastasio. Er talið að um miðjan áttunda áratuginn hafi fjölskyldan átt eða stjórnað um 60% af efnahag landsins.

Andstaða við fjölskylduna jókst og var hreyfing sandínista (Frente Sandinista de Liberación, FSLN) stofnuð árið 1962 í þeim tilgang að koma henni frá völdum. Tveggja ára borgarastyrjöld á árunum 1977 til 1979 lauk með því að Anastasio Somoza Debayle var velt úr sessi. Um 50.000 manns létust í bardögunum, 100.000 særðust og 40.000 börn urðu munaðarlaus. Fjármagn flæddi úr landinu og hráefni og byggingar að verðmæti 500 milljón bandaríkjadala eyðilögðust. Árið 1979 dróst verg landsframleiðsla saman um 25%. Sama ár tók vinstrisinnuð stjórn sandínista undir forystu Daniel Ortega Saavedra, þá 35 ára, við völdum en hún lagði áherslu á að rétta hlut vinnandi fólks í landinu. Allar landareignir Somoza fjölskyldunnar voru þjóðnýttar. Ortega stjórnin leitaði fjárhagslegs og hugmyndafræðilegs stuðnings til Kúbu og Sovétríkjanna.

Efnahagsuppbygging stjórnarinnar gekk verr en vonir höfðu staðið til, m.a. vegna þess að erlend fjárfesting í landinu dróst saman, erlend lán fengust ekki og bandarísk stjórnvöld komu á viðskiptabanni. Stjórn sandínista átti í stríði við öfluga skæruliðahreyfingu Kontra-skæruliða. Bandaríkjastjórn studdi skæruliðana, leynt og ljóst, síðustu árin í trássi við vilja Bandaríkjaþings (samanber Íran-Kontra hneykslið). Nikaragva höfðaði mál gegn Bandaríkjunum fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag sem úrskurðaði að íhlutun Bandaríkjanna væri brot á þjóðarétti.

Árið 1985 var ár óðaverðbólgu sem hrundið var af stað með aukinni peningaprentun stjórnarinnar. Tilraunir til að koma böndum á verðbólguna urðu að engu þegar fellibylurinn Joan olli gífurlegri eyðileggingu í landinu í ágúst 1988. Árið 1990, eftir ellefu ára stjórn sandínista voru Nikaragva og íbúar þess enn fátækari en 1979 þegar sandínistar komust til valda.

Í lok níunda áratugarins sömdu stríðandi fylkingar um frið og um aðlögun Kontra-skæruliða að þjóðfélaginu. Árið 1990 boðuðu sandínistar til kosninga en þóttust eiga sigur vísan. Reyndin varð þó önnur. Í kosningum til forseta, öllum að óvörum, tapaði Ortega fyrir fyrrum bandamanni sínum, frú Violeta Barrios de Chamorro. Forsetaskiptin gengu friðsamlega fyrir sig en stuðningur við forsetann var byggður á samfylkingu fjórtán stjórnmálaflokka (Unión Nacional Opositora, UNO) sem áttu eftir að reynast henni erfiðir í taumi. Nýji forsetinn reyndi að koma á umbótum, svo sem til að styrkja einkafjárfestingu og útflutning landbúnaðarafurða. Bakland hennar reyndist óstöðugt og hún átti erfitt með að koma óvinsælum umbótaraðgerðum í gegnum þingið.

Eftir ósigur sandínista voru samskipti við Bandaríkin tekin upp á ný og ýmis konar fjárhagsleg aðstoð flæddi inn í landið á nýjan leik. Á árunum 1997-2001 var hagvöxtur 5% í landinu en lækkaði niður í 1% árið 2002.

Í kosningum 1996 var Arnaldo Alemán Lacayo, fyrrum borgarstjóri Managua og formaður frjálslyndaflokksins sem síðar varð Partido Liberal Constitucionalisto (PLC), kjörinn forseti. Að flestra mati einkennist stjórnartíð hans af mikilli spillingu. Í október 1998 olli fellibylurinn Mitch gífurlegu tjóni í landinu en ekki var á það bætandi.

Í síðustu forsetakosningum 2001 tapaði Ortega fyrir Enrique Bolaños Geyer, fyrrum varaforseti í stjórn Alemán, sem naut stuðnings PLC flokksins. Niðurstöður í þingkosningunum 2001 voru:

PLC Partido Liberal Constitucionalisto 46% atkvæða (53 sæti)

FSLN Frente Sandinista de Liberación 36.5% atkvæða (38 sæti)

PC Partido Conservador de Nicaragua 2% atkvæða (1 sæti)

Í kosningabaráttu sinni lofaði Bolaños m.a. að uppræta spillingu í landinu. Eftir að hann varð forseti lét hann handtaka Alemán forvera sinn. Alemán var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar vegna spillingar í stjórnartíð hans. Aðförin að Alemán kostaði forsetann stuðning PLC, sem styður Alemán í gegnum þykkt og þunnt. Alemán og erkióvinurinn Ortega hafa tekið höndum saman um að knésetja Bolaños forseta og þar með koma í veg fyrir að dómum gegn Alemán verði framfylgt.

Óvissa og ringulreið einkenna stjórnmál Nikaragva og rekur Bolaños landið í trausti framkvæmdarvalds en á erfitt með að koma málum í gegnum þingið. Bolaños nýtur trausts og stuðnings alþjóðasamfélagsins sem telur aðgerðir Alamánista og sandínista aðför að stjórnarfari í landinu og lýðræði. Í janúar sl. náðist samkomulag milli Ortega og forsetans fyrir milligöngu vinveittra ríkja til að afstýra stjórnarkreppu, a.m.k. um sinn.

Samskipti Íslands og Nikaragva

Ræðismaður Íslands í Managua er Rodrigo Mantiga Urcuyo.

Verðmæti innflutnings til Íslands frá Nikaragva á tímabilinu janúar til nóvember 2004 nam 4 milljónum króna. Útflutningur frá Íslandi til Nikaragva á sama tímabili nam 0,2 milljónum króna.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) hefur ákveðið að stofna til þróunarsamvinnu á milli Íslands og Nikaragva í sjávarútvegs- og jarðhitamálum, en gert er ráð fyrir að nýta sérþekkingu Íslendinga á þessum sviðum.

Video Gallery

View more videos