Kostaríka

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Ekvador og Íslands 10. janúar 1997. Ræðismaður Íslands í San José er Ricardo Castro Calvo.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Ekvador þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2005.

Almennt

Íbúar Kostaríka eru fjórar milljónir talsins. Spænska er opinbert tungumál Kostaríka. Um 76% íbúa tilheyra rómversk kaþólsku kirkjunni sem er þjóðkirkja landsins. Meðallífslíkur í Kostaríka eru tæp 77 ár. Almennt læsi í landinu er um 96%.

Kostaríka er helmingi minna en Ísland að flatarmáli, eða 51.100 ferkílómetrar. Landið liggur á milli Karabíska hafsins og Kyrrahafsins. Árstíðirnar eru aðeins tvær, regntímabil frá maí til nóvember og þurrkatímabil frá desember til apríl. Landið er rómað fyrir fegurð og alls er um fjórðungur landsvæðis í Kostaríka verndaður, þar af eru 26 þjóðgarðar.

Höfuðborg landsins er San José. Þar búa um 300.000 manns.

Kostaríka hefur verið fyrirmynd annarra þjóða í heimsálfunni hvað varðar lýðræðislega stjórnunarhætti, en frá fimmta áratugnum hefur ekki komið til ofbeldisfullra átaka vegna stjórnmála í landinu.

Í Kostaríka er fulltrúalýðræði og er stjórnarfar landsins byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Forseti lýðveldisins er þjóðhöfðingi landsins og leiðir framkvæmdavaldið. Kjörtímabil forseta er fjögur ár.

Löggjafarvaldið er í höndum þingsins, en þar sitja 57 þingmenn í einni þingdeild. Þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára í senn. Síðustu kosningar fóru fram í febrúar 2002. Æðsta dómsvald er hjá hæstarétti (Corte Suprema) og stjórnskipunardómstólnum (Sala Constitucional, Sala kV). Dómarar eru kosnir af þjóðþinginu til átta ára.

Nafnið Kostaríka þýðir “ríka ströndin”. Kristófer Kólombus kom til landsins árið 1502 fyrstur Evrópumanna. Spánverjar tóku völdin í landinu á sextándu öld og varð Kostaríka þá syðsti hluti Nýja Spánar, yfirráðasvæðis Spánverja í N-Ameríku.

Gjaldmiðill landsins er colon (1 USD = 473,5 CRC).

Stjórnmál

Stöðugleikann í stjórnmálum og þjóðlífi Kostaríka má rekja til umbóta sem Rafael Ángel Calderón Guardia forseti stóð fyrir í forsetatíð sinni 1940 til 1944, sem voru fest í sessi þegar José (Don Pepe) Figueres Ferrer komst til valda í kjölfar borgarastyrjaldar á fimmta áratugnum. Var stofnað til svokallaðs annars lýðveldis sem var endalok fámennisstjórnar fyrri áratuga. Áhersla var lögð á mennta- og menningarmál og uppbyggingu almannatryggingakerfisins. Þessar aðgerðir hafa sett svip sinn á lífshætti íbúa Kostaríka síðan. Með stjórnarskrárbreytingu árið 1948 var her landsins afnuminn og er landið enn þann dag í dag herlaust.

Spillingarmál, sem komu upp í fyrra og þrír fyrrverandi forsetar landsins eru flæktir í, eru í hrópandi ósamræmi við lýðræðissögu landsins. José María Figures Olsen yngri, sonur José Figueres forseta, er sakaður um spillingu í forsetatíð sinni og býr nú í Sviss til að forðast ákærur í heimalandinu. Tveir aðrir fyrrverandi forsetar, Miguel Ángel Rodriguez og Rafael Ángel Calderón Fournier (sonur Calderón Guardia forseta) eru í stofufangelsi í San José, sakaðir um ólögmætar athafnir. Rodriguez neyddist til að segja af sér sem framkvæmdastjóri Samtaka Ameríkuríkja (Organisation of American States, (OAS)) í kjölfarið eftir aðeins nokkurra daga setu í embætti.

Þó að landið og stjórnendur þess hafi að vissulega beðið álitshnekki vegna þessarra spillingarmála, þá hafa þau styrkt stjórnarfar landsins að því leyti að dómstólar hafa tekið á málunum án nokkurra pólitískra afskipta.

Oscar Arias Sanchez, sem var forseti Kostaríka á árunum 1986 til 1990, vann til Friðarverðlauna Nóbels árið 1987 fyrir þátt sinn í því að kom á friði í nágrannaríkjum Kostaríka í mið Ameríku.

Síðustu forseta- og þingkosningar fóru fram 2002. Abel Pacheco de la Espriella var kjörinn forseti og flokkur hans Partido Unidad Social Cristiana (PUSC, miðju-hægri flokkur) fékk 19 fulltrúa á þing og Partido Liberación Nacional (PLN, miðju-hægri flokkur) fékk 17 þingmenn. Partido Acción Ciudadana (PAC, miðju-vinstri flokkur) fékk 14 þingmenn kjörna, en með breytingum sem orðið hafa á flokknum síðan 2002 hefur flokkurinn aðeins 8 þingmenn eftir. Partido Movimiento Libertario (PML, frjálslyndir) fékk 6 þingmenn kjörna, en hefur aðeins 5 þingmenn nú.

Efnahagsmál

Efnahagur Kostaríka var áður byggður einkum á ræktun banana og kaffibauna, sem eru enn mikilvægar útflutningsvörur. Hagkerfið byggir hins vegar nú á ferðamannaiðnaði, landbúnaði og úflutningi rafeindatækja og með því að tekist hefur að vekja athygli erlendra fjárfesta hafa fyrirtæki s.s. Intel Corporation, Procter & Gamble o.fl. fjárfest í landinu og veita fjömörgum íbúum atvinnu.

Olía hefur ekki fundist í Kostaríka. Mikil úrkoma og fjalllendi gera orkuframleiðslu möguleika og þarf aðeins að flytja inn olíu fyrir samgöngutæki. Hagkerfi landsins hefur verið í stöðugum vexti frá 1997 og hjálpar þar staðsetning landsins. Aðgangur að mörkuðum í Norður og Suður Ameríku er mjög auðveldur, auk þess sem aðkoma að flutningaleið til Evrópu er greið.

Ríkisstjórnin hefur ýtt úr vör sjö ára áætlun um vöxt hátæknigeirans og býður m.a. undanþágur frá sköttum til að laða að erlenda fjárfesta. Hátt menntunarstig í landinu eykur enn áhuga fjárfesta

Áhersla er lögð á að ná tökum á erlendum skuldum og fjárlagahallanum, þar sem vaxtagreiðslur af erlendum lánum hafa numið allt að 30% af heildarríkistekjum.

Helmingur útflutnings Kostaríka fer til Bandaríkjanna, um 10% til Mið Ameríkuríkja og um 22% til Evrópusambandsins.

Skiptar skoðanir eru um það í Kostaríka hvort það sé landinu fyrir bestu að verða aðili að fríverslunarsvæði mið-Ameríku, (Central American Free-Trade Agreement, CAFTA) ásamt Dóminíska lýðveldinu, Gvatemala, Hondúras, El Salvador, Nikaragva og Bandaríkjunum. Pacheco forseti hefur lofað að fullgilda ekki samninginn um þátttöku landsins nema að hann sé fullviss um að þátttakan sé þjóðinni fyrir bestu.

Samskipti Íslands og Kostaríka

Ræðismaður Íslands í San José er Ricardo Castro Calvo.

Verðmæti innflutnings til Íslands frá Kostaríka á tímabilinu janúar til nóvember 2004 nam 140 milljónum króna. Útflutningur frá Íslandi til Kostaríka á sama tímabili nam 4,6 milljónum króna.

Video Gallery

View more videos