Kólumbía

Stofnað var til stjórnmálasambands á milli Kólumbíu og Íslands 15. september 1981.

Að neðan er að finna upplýsingar sendiráðsins um Kólumbíu þar sem fjallað er um stjórnmálaástand, viðskipta og tvíhliða mál. Upplýsingarnar sem þar koma fram miða við árið 2004.

Almennt

Íbúar Kólumbíu eru um 42 milljónir og er Kólumbía því þriðja fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku. Flestir íbúanna eiga rætur að rekja til Spánar. Um 95% þjóðarinnar eru kaþólskrar trúar.

Almennu heilbrigðiskerfi var komið á laggirnar árið 1974 en einkareknum læknastofum fjölgar nú ört. Umbætur í heilbrigðiskerfinu hafa ekki verið forgangsverkefni ríkisstjórna á síðastliðnum árum og aðgangur að því heilbrigðisþjónustu er misgóður.

Almennt læsi er yfir 90%. Þrátt fyrir umtalsverðar umbætur síðustu árin er enn mikill munur á gæðum menntunar á vegum ríkisins annars vegar og í einkaskólum hins vegar. Opinbert skyldunám er frá 6 ára aldri til 15 ára aldurs.

Atvinnuleysi er töluvert í Kólumbíu, eða á bilinu 17-20%, mest meðal kvenna og ungs fólks. Um 55% þjóðarinnar eru undir fátækramörkum, 18% búa við örbirgð.

Í Kólumbía eru 32 umdæmi (departamentos) og eitt sjálfstjórnarsvæði, höfuðborgin Bogotá.

Kólumbía er elsta lýðræðisríki Rómönsku Ameríku en landið tók upp lýðræðislega stjórnarhætti árið 1957. Ríkið hefur verið sjálfstætt síðan 1810.

Kólumbía er þingbundið lýðveldi og byggist stjórnarfar landsins á þrískiptingu ríkisvaldsins. Framkvæmdavald er í höndum forseta og ríkisstjórnar. Forseti er bæði þjóðhöfðingi og forsætisráðherra og má einungis sitja eitt kjörtímabil. Forseti og varaforseti eru kosnir í almennri kosningu til fjögurra ára.

Löggjafarvald er í höndum þingsins sem situr í tveimur deildum, öldungadeild og fulltrúadeild. Öldungadeildarþingmenn eru 102 og fulltrúardeildarþingmenn eru 166. Þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára í senn. Kosningar til deildanna eru aðskildar.

Réttarkerfi Kólumbíu er grundvallað á spænskum lögum en ný hegningarlög að bandarískri fyrirmynd voru innleidd á árunum 1992-1993.

Í Kólumbíu starfa um 70 stjórnmálaflokkar, flestir þeirra smáir, en 56 flokkar eiga fulltrúa á þingi, allflestir einn eða tvo.

Helstu stjórnmálaflokkar eru Partido Liberal Colombiano (frjálslyndi flokkurinn) og Partido Conservador Colombiano (íhaldsflokkur) sem sitja í ríkisstjórn ásamt óháða flokknum (flokki Uribe forseta). Flokkar í stjórnarandstöðu eru m.a. Apertura Liberal (vinstri flokkur), Cambio Radical (róttækur flokkur) og Partido Nacional Cristiano (kristilegur flokkur).

Helstu dagblöð Kólumbíu eru El Espacio, El Nuevo Siglo og flokksblöð stóru stjórnmálaflokkanna. Kólumbía er einn af hættulegustu stöðum í heimi fyrir starfandi blaðamenn en yfir 120 kólumbískir blaðamenn voru myrtir á síðasta áratug.

Uppreisnarmenn nota í auknum mæli útvarpsmiðilinn til þess að breiða út áróður sinn og ein helsta útvarpsstöð þeirra er La Voz de la Resistencia.

Skæruliðahreyfingar og eiturlyfjahringir

Kólumbía hefur búið við stanslaus stríðsátök síðustu 40 ár sem hafa veikt stöðu stjórnvalda og dregið úr getu þeirra til að takast á við samfélagsvandamálin. Hin mikla fátækt og almenn óánægja með kólumbísk stjórnvöld hefur getið af sér fjölda skæruliðahreyfinga.

FARC (Fuerzas Armadas Revolucionarias de Colombia) er stærsta skæruliðahreyfing í Kólumbíu, stofnuð árið 1964 af Manuel Marulanda. FARC naut fjárhagslegs stuðnings frá Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins en nú fjármagnar FARC starfsemi sína að mestu með mannránum, fjárkúgun og þátttöku í eiturlyfjaviðskiptum. FARC telur um 20.000 meðlimi.

ELN samtökin (Ejercito de Liberación Nacional) voru stofnuð sama ár af stúdentum sem hliðhollir voru hugmyndafræði Fidels Castro. Samtökin fjármagna starfsemi sína aðallega með mannránum og fjárkúgun og telja 3500-5000 meðlimi.

Ofbeldi og glæpir hafa stóraukist síðan 1980. Um 30.000 manns látast ár hvert af völdum ofbeldis og er að meðaltali 10 manns rænt daglega af skæruliðasamtökum. Stjórnvöld virðast ráðþrota. Eiturlyfjahringir hafa nýtt sér magnleysi þeirra og völd glæpasamtaka og umfang hefur aukist gífurlega síðustu ár. Bandaríkin hafa aðstoðað kólumbísk stjórnvöld í stríðinu gegn eiturlyfjum og voru stórir eiturlyfjahringir kenndir við Medellin og Cali upprættir á 10. áratugnum. Í kjölfar þessara aðgerða kom fjöldi minni eiturlyfjahópa fram á sjónarsviðið sem erfitt hefur verið að ráða við, einkum vegna tengsla þeirra við skæruliðsamtök. Vegna þessarar þróunar hafa umsvif svokallaðar einkaherja, t.d. MAS (Muerte a Secuestradores), stórlega aukist en meðal annarra kaupa eiturlyfjasalar og valdamiklir landeigendur, sem rækta kókórunna og kannabis, þjónustu þessara hópa.

Um 80% alls kókaíns í heiminum er upprunnið í Kólumbíu og hlutur kólumbískra kannabisefna og heróíns á heimsmarkaði fer ört vaxandi.

Bandaríkin hrintu í framkvæmd árið 2000 svokallaðri “Plan Columbia” - áætlun um Kólumbíu. Þessari áætlun var upphaflega ætlað að aðstoða “veika” ríkisstjórn Kólumbíu í baráttunni við framleiðslu og dreifingu ólöglegra eiturlyfja. Við það færðist Kólumbía upp í þriðja sæti þeirra ríkja sem þiggja efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum, á eftir Ísrael og Egyptalandi. Síðan á árinu 2002 er heimilt að nota fjármuni áætlunarinnar í baráttu stjórnvalda gen skæruliðasamtökum eins og FARC, ELN og AUC. Áætlunin hefur verið fjármagnað út árið 2005 en 75% þess fjármagns verður notað fyrir her og lögreglu.

Evrópusambandið kemur ekki með eins beinum hætti að áætluninni en hefur þó látið yfir USD 200 milljónir renna til hennar síðan árið 2001.

Það er í besta falli hægt að kalla árangurinn af áætluninni vafasaman. Margoft hefur verið bent á að hún hunsi algjörlega hinn mannlega þátt og þau félagslegu vandamál sem eru undirrót þess vanda sem við er að etja. Framtíð áætlunar um Kólumbíu er óljós. Margir bandarískir þingmenn eru farnir að huga að því hvernig hægt sé að komast út úr þessari úlfakreppu þegar það fjármagn sem þegar hefur verið lofað er uppurið.

Stjórnmál

Stjórnmál í Kólumbíu snúast verulega um baráttuna gegn skæruhernaði og ofbeldi. Eitt stærsta verkefni stjórnvalda undanfarna áratugi hefur verið að koma á friðarumræðum við skæruliðasamtök, með misjöfnum árangri.

Frá miðri 20. öld hafa flokkarnir Partido Liberal Colombiano og Partido Conservador Colombiano verið við völd en árið 1958 mynduðu flokkarnir samsteypustjórn. Flokkarnir tveir deildu með sér forsetaembættinu og var nánast útilokað fyrir aðra flokka að komast til valda. Árið 1974 lauk samstarfi flokkanna og Kólumbía varð þingræðislegt forsetalýðræði. Seint á 9. áratugnum urðu breytingar á hinu hefðbundna flokkakerfi þegar stjórnmálaflokkar skæruliðahreyfinga komust á þing. Ber þar helst að nefna Unión Patriótica, stjórnmálaarm FARC, sem stofnaður var árið 1985 sem hluti af friðarumleitum FARC og stjórnvalda. Fljótlega fór þó að bera á morðum á þingmönnum, bæjarfulltrúum og flokksmönnum Unión Patriótica. Um 3000 flokksfélagar hafa verið myrtir af skæruliðahreyfingum og öðrum sem tengjast eiturlyfjahringum.

Síðustu forsetakosningar í maí 2002 mörkuðu tímamót í kólumbískum stjórnmálum er óháði frambjóðandinn, Álvaro Uribe, vann stórsigur. Uribe er fyrsti forsetaframbjóðandinn sem nær hreinum meirihluta í fyrstu umferð kosninganna, með 53% atkvæða. Sigur hans þótti benda til hið hefðbundna flokkakerfi væru komið í þrot og að valdatíð frjálslynda flokksins PL og íhaldsflokksins PCC væri loks lokið. Helsti andstæðingur hans, Horacion Serpa Uribe, frambjóðandi frjálslyndaflokksins PL, hlaut 32% atkvæða en frambjóðandi íhaldsflokksins PCC, Juan Camilo Restrepo, dró framboð sitt til baka. Kosningaþátttaka var heldur dræm og aðeins 46% þjóðarinnar nýttu sér kosningarétt sinn.

Helstu baráttumál Álvaro Uribe voru að koma á friði og herða aðgerðir gegn skæruhernaði. Skæruliðasamtök hafa gert nokkrar tilraunir til að myrða hann.

Uribe kom þjóð sinni á óvart þegar hann skipaði sex konur í 13 manna ríkisstjórn sína sem samanstendur af bandalagi PL, PCC og flokki Uribe, óháða flokknum.

Uribe hefur aukið fjárútlát til hers og lögreglu og lög gegn hryðjuverkum hefur aukið vald hersins í baráttunni gegn skæruliðum. Í júní 2003 lagði Uribe fram langþráða öryggisáætlun sem ætlað er að koma á friði og draga úr eiturlyfjaviðskiptum með því að styrkja lögregluna.

Uribe nýtur mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar en hann hefur sóst eftir að fá að bjóða sig fram í annað sinn til forsetaembættisins árið 2006. Partido Liberal hefur hins vegar neitað að styðja frumvarp til breytinga á framboðslögum. Andstæðingar frumvarpsins hafa bent á að endurkjör forseta tíðkist ekki í Rómönsku Ameríku, meðal annars vegna hættu á spillingu og kosningasvindli. Skoðanakannanir sýna hins vegar að meirihluti þjóðarinnar styður frumvarpið. Það var samþykkt í öldungadeild þingsins en lokaatkvæðagreiðsla um frumvarpið í fulltrúadeild fer fram síðar á árinu.

Efnahagsmál

Efnahagur Kólumbíu stendur nokkuð vel þrátt fyrir skæruhernað, innri átök og mikla fátækt fjölda fólks. Náttúruauðlindir Kólumbíu eru margvíslegar, ræktuð lönd eru gjöful, skóglendi mikið, olía, gas, gull, eðalsteinar o.fl. Hins vegar hefur aukin framleiðsla og framboð eiturlyfja og stöðugt ofbeldi haft slæm áhrif á efnahaginn.

Hægur efnahagsbati hefur verið síðustu árin eftir samdrátt árið 1999 þegar verg þjóðarframleiðsla féll um 4,5% og verðfall varð á heimsmarkaðsverði á olíu og kaffi. Kólumbísk stjórnvöld fengu lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að bæta efnahag landsins og laða að erlenda fjárfesta.

Lega landsins og breytilegt loftslag eftir hæð yfir sjávarmáli gerir Kólumbíu kleift að rækta margar ólíkar tegundir nytjaplantna en helstu landbúnaðarafurðirnar eru kaffi, bananar, sykurreyr, bygg, maís og kartöflur. Landbúnaðarafurðir er um 13% af vergri þjóðarframleiðslu landsins. Um 30% af vergri þjóðarframleiðslu teljast til iðnaðar en afkoma þjónustugeirans nemur um 57% af vergri þjóðarframleiðslu. Kaffi er ein mikilvægasta útflutningsvara landsins en verð á kaffi sveiflast mjög og hafa verðbreytingar oft komið af stað verðbólgu.

Olía er aðal útflutningsvara Kólumbíu og er um þriðjungur heildarútflutnings. Um helmingur olíunnar er flutt út til Bandaríkjanna, um 16% til annarra Andea-samfélagsríkja og um 12% til Evrópubandalagsins. Helstu innflutningsvörur eru iðnaðarvörur, málmur og neysluvörur. Mest er flutt inn frá Bandaríkjunum.

Kólumbía er aðili að Andea-fríverslunarsvæðinu og hefur gert fríverslunarsamninga við Venesúela og Mexíkó.

Kólumbía hefur einnig staðið í samningaviðræðum við Mið-Ameríkuríki og Mercousur-löndin um frekari viðskipti.

Árið 2002 nam verg þjóðarframleiðsla í Kólumbíu um 6.100 USD á mann. Gjaldmiðill landsins, pesóinn, COP, var 2693 á móti Bandaríkjadal í júlí 2004.

Viðskipti Íslands og Kólumbíu

Innflutningur frá Kólumbíu til Íslands nam 43,1 milljónum króna árið 2004, útflutningur frá Íslandi til Kólumbíu á sama tímabili var 5,8 milljónir króna.

Video Gallery

View more videos