Afhending trúnaðarbréfs í Ottawa

Michaëlle Jean tók við embætti landstjóra Kanada á sl. sumri. Hún er fædd á Haiti en kom sem flóttamaður ásamt fjölskyldu sinni til Kanada 11 ára gömul árið 1968. Starfsvettvangur hennar hefur aðallega verið á sviði fjölmiðlunar og hefur hún m.a. stjórnað kunnum útvarps- og sjónvarpsþáttum. Landstjóri Kanada fer með umboð Bretadrottningar, sem er þjóðhöfðingi landsins. Drottningin skipar landstjóra eftir tillögu forsætisráðherra Kanada.

Í viðræðum sendiherra Íslands við landstjórann kom fram eindreginn áhugi beggja á auknum samskiptum Kanada og Íslands, og þá sérstaklega á sviði lista og menningar. Michaëlle Jean nefndi í því sambandi samstarf um gerð heimildarmynda fyrir sjónvarp, og sérstaka íslenska listviðburði, sem haldnir yrðu í landstjórabústaðnum Rideau Hall í Ottawa.

 

Hefð fyrir nánum og vinsamlegum samskiptum

Michaëlle Jean, landstjóri, fór miklum viðurkenningarorðum um framlag íslensku landnemanna og afkomenda þeirra til hins kanadíska samfélags fyrr og nú og lét í ljós vonir um framhald á hinum góðu samskiptum, sem þróast hafa með þessum vinaþjóðum í meira en hundrað ár.

Samskipti Íslands og Kanada mótast mjög af tengslum við afkomendur íslensku innflytjendanna, sem fluttu búferlum vestur um haf á árunum 1870-1914. Voru það alls um 20 þúsund manns eða u.þ.b. 20% íslensku þjóðarinnar, sem settust að víða í Kanada og Bandaríkjunum, flestir þó í Manitoba í miðju Kanada. Giskað er á að afkomendur Íslendinga í Kanada kunni nú að vera um 200.000 talsins, þar af um 80.000 í Manitoba, en um 100.000 í Bandaríkjunum. Vestur-Íslendingar hafa ávallt viðhaldið styrkum tengslum sínum við Ísland og lagt merkum framfaramálum á Íslandi lið eins og við stofnun Eimskipafélags Íslands 1914. Samskiptin við Ísland hafa verið afar fjölbreytt, einkanlega á sviði mennta og menningar.

Samstarf ríkjanna í alþjóðamálum

Fyrsti kjörræðismaður Íslands erlendis tók til starfa í Winnipeg árið 1942. Árið 1999 var opnuð aðalræðisskrifstofa í Winnipeg en árið 2001 var stofnað íslenskt sendiráð í Ottawa. Sendiráð Kanada á Íslandi var þá jafnframt opnað. Löndin skiptust og á sendiherrum. Aðalræðismenn og ræðismenn Íslands eru nú 13 talsins um allt Kanada. Vegna hinna sögulegu tengsla hafa stjórnmálasamskipti landanna verið meiri en ella hefði mátt gera ráð fyrir. Íslenskir ráðamenn hafa verið tíðir gestir í Kanada, í boði sambandsstjórnarinnar í Ottawa, fylkisstjórna eða samtaka Vestur-Íslendinga víða um landið. Sumarið 2005 heimsótti Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Winnipeg og Íslendingabyggðir í Manitoba. Forsætisráðherra ræddi þar við Paul Martin, forsætisráðherra Kanada, og fleiri ráðamenn. Samskipti landanna hafa alla tíð verið mjög jákvæð og byggt á hinum sögulega grunni, sem áður hefur verið lýst. Bæði ríkin hafa látið að sér kveða í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja og voru meðal stofnenda Atlanthafsbandalagsins árið 1949. Um margt svipar þjóðfélagsmálum í Kanada til þess sem gerist á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum enda Kanada meðal fremstu velferðarríkja heims. Kanadamenn hafa látið mikið að sér kveða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og lagt drjúgan skerf af mörkum til þróunaraðstoðar og friðargæslu. Þá hafa þeir verið í fararbroddi varðandi umræður og aðgerðir í umhverfismálum og verndun auðlinda. Fulltrúar í utanríkisráðuneytum landanna hafa gert áætlun um nána samvinnu Íslands og Kanada á fjölþjóðavettvangi.

Þróttmikið starf í samtökum Vestur-Íslendinga

Mjög öflug félagsleg samstaða ríkir í röðum Vestur-Íslendinga. Af einstökum viðburðum ber þó hæst Íslendingadaginn, sem haldinn er í Gimli í Manitoba um fyrstu helgi í ágúst ár hvert. Með bættum samgöngum hafa æ fleiri gestir komið af Íslandi til að taka þátt í þeim hátíðahöldum. Ýmis félagasamtök og listamenn, þar á meðal hljómsveitir og kórar hafa af ýmsu tilefni heimsótt Kanada og ferðast um landið og kynnt íslenska list og menningu. Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi og Þjóðræknisfélagið á Íslandi hafa á síðustu árum unnið að eflingu samskiptanna á ýmsum sviðum, m.a. með skiptiheimsóknum ungs fólks milli landanna í nafni Snorra-verkefnisins. Það starf verður æ umfangsmeira og tekur nú til ólíkra aldurshópa. Deildir Þjóðræknisfélagins starfa í 18 borgum og nálægum svæðum um allt Kanada.

Ræðisskrifstofan í Winnipeg, sem Atli Ásmundsson aðalræðismaður veitir forstöðu, er m.a. í nánu samstarfi við Þjóðræknisfélagið, New Iceland Heritage Museum í Gimli og íslenskudeild Manitoba-háskóla. Áhugi listamanna og fræðimanna á Íslandi er mikill á að heimsækja Kanada og mikill áhugi heimamanna á því, sem í boði er. Fjöldi íslenskra fyrirlesara og listamanna hefur nýlega sótt heim byggðir Vestur-Íslendinga í Manitoba og vestanverðu Kanada á vegum ræðisskrifstofunnar og samstarfsaðila hennar. Má þar nefna Guðberg Bergssson, rithöfund, "Volcana", fimm íslenskar listakonur, söngflokkinn Saga Singers, Björn Thoroddsen, hljómlistarmann, Grundartangakórinn, Selfosskórinn og Samkór Hveragerðis. Þá hafa verið haldnar kynningar á orkumálum og sjávarútvegsmálum á Íslandi á vegum ræðisskrifstofunnar í Winnipeg.

Verslun og viðskipti Íslands og Kanada

Innflutningur frá Kanada til Íslands árið 2004 nam 2.990 milljónum króna. Útflutningur Íslands til Kanada nam á sama tíma 1.745 milljónum króna. Fyrstu níu mánuði þessa árs nam innflutningur frá Kanada til Íslands 3.592 milljónum króna. Útflutningur frá Íslandi til Kanada nam 1.573 milljónum króna á sama tímabili. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna. Ýmis íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl í Kanada og starfa þar sjálfstætt í eigin nafni eða í dótturfyrirtækjum með öðrum aðilum. Á Nýfundnalandi og í Nova Scotia hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi látið að sér kveða. Kanadísk fyrirtæki í þeirri atvinnugrein hafa á undanförnu notið fjármálafyrirgreiðslu frá Íslandi og eru horfur á að íslensk bankastarfsemi í Kanada fari vaxandi á næstunni. Á Íslandi koma kandadísk fyrirtæki mjög við sögu í álframleiðslu.

Íslensk-kanadíska verslunarráðið var formlega stofnað í september 2003. Megintilgangur ráðsins er að efla viðskipti og viðskiptasambönd landanna. Aðalfundur verslunarráðsins var haldinn í Halifax í febrúar sl. og var þar m.a. ákveðið að halda áfram á sömu braut og hvetja til aukinna viðskipta á milli landanna. Auk þess var vefsíða ráðsins (www.icelandccc.com) formlega opnuð. Um 30 fyrirtæki eiga aðild að ráðinu. Verslunarráðið hélt fund í Edmonton 22. september sl. Fundinum stjórnaði Gordon J. Reykdal ræðismaður Íslands í Edmonton og formaður ráðsins. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, Almar Grímsson stjórnarformaður Þjóðræknisfélags Íslendinga og Pétur Óskarsson viðskiptafulltrúi í New York voru sérstakir gestir fundarins. Viðskiptafulltrúinn sinnir viðfangsefnum í Kanada auk Bandaríkjanna m.a. innan ramma verkefnisins "Iceland Naturally". Ferðamála- og matvælakynning á þess vegum fór fram í tengslum við fund verslunarráðsins í Edmonton og fékk hún mikla og mjög jákvæða umfjöllun fjölmiðla í Alberta-fylki.

Mikil gróska í menningarsamskiptum

Toronto, fjölmennasta borg Kanada og höfuðborg Ontario-fylkis er helsta kaupsýslu- og menningarmiðstöð landsins. Skammt undan er Ottawa, höfuðborg Kanada, og stórborgin Montreal í hinu frönskumælandi Quebec-fylki. Stærðarinnar og fjölbreytninnar vegna hlýtur það að vera íslensku viðskiptalífi og listafólki keppikefli að sækja fram á þessu mikilvæga svæði í austanverðu Kanada.

Af nýlegum íslenskum menningar- og listviðburðum í Toronto má nefna leikritið "Sagan af bláa hnettinum" eftir Andra Snæ Magnason sem frumsýnt var við mikinn fögnuð áhorfenda 3. febrúar sl. í Lorraine Kimsa Theatre for Young People í Toronto.

Hamrahlíðarkórinn kom til Kanada til að taka þátt í tónleikahátíðinni Northern Voices Festival í Toronto 3.-12. júní sl. og ráðstefnu um norræna kórtónlist. Kórinn, er telur 70 manns, söng í Toronto 12. júní og víðs vegar um Ontario-fylki þar til hann fór til Manitoba-fylkis m.a. til að syngja í Gimli og Winnipeg á þjóðhátíðardaginn.

Íslenska kvikmyndin "Stikkfrí" ("Count me out") í leikstjórn Ara Kristinssonar var sýnd á barnakvikmyndahátíðinni Sprockets Toronto International Film Festival for Children.

Hrafnkell Birgisson iðnhönnuður tók þátt í ráðstefnunni New Scandinavian Design á vegum The Design Exchange í Toronto í maí sl.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin i Toronto var haldin í september sl. Að þessu sinni voru þrjár íslenskar myndir, "Bjólfskviða", "A Little Trip to Heaven" og "Strákarnir okkar" valdar til sýningar sem "aðalmyndir" og voru íslensk umsvif á hátíðinni talsverð, bæði af hálfu hins opinbera og á vegum íslenskra hagsmunaaðila. Meðal þátttakenda frá Íslandi voru Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra.

Markús Örn Antonsson, sendiherra, átti viðræður við Madeleine Meilleur, menningarmálaráðherra Ontario-fylkis í nóvember sl. og kom þar fram eindreginn áhugi ráðherrans á þátttöku íslenskra listamanna í menningarhátíðum í Toronto, sem eru margar og fjöbreyttar. Næsti viðburður af því tagi verður flutningur óperu Þorkels Sigurbjörnssonar "Grettir" í Betty Oliphant Theater í Toronto í byrjun janúar 2006.

 

Video Gallery

View more videos