Nánari upplýsingar vegna hækkaðs viðbúnaðarstigs

Aðfararnótt laugardagsins 21. nóvember hækkuðu stjórnvöld í Belgíu viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógna í hæsta stig, 4. stig af 4, fyrir Brussel-svæðið. Það þýðir að alvarleg og mikil hætta er talin á hryðjuverkum. Ekki er vitað á þessari stundu hve lengi ástandið varir. 

Sendiráðið er alfarið háð upplýsingum frá stjórnvöldum í Belgíu um stöðu mála og ráðgjöf til almennings. Stjórnvöld í Belgíu ráða ekki frá ferðum til Brussel. Þó er varað við því að fara að ástæðulausu á fjölfarna staði innan borgarinnar eins og t.d. lestarstöðvar, verslunarmiðstöðvar, flugvelli, tónleikastaði og aðra staði þar sem almenningur kemur saman. Neðanjarðarlestir (Metro) ganga ekki og röskun er á öðrum almenningssamgöngum, sjá nánari upplýsingar: http://www.stib-mivb.be/index.htm?l=en

Hyggist þú taka þátt í viðburði eða fundi í Brussel ráðleggjum við þér að hafa sambandi við viðkomandi skipuleggjanda eða fylgjast grannt með tilkynningum um hvort breytingar hafi verið gerðar á honum. 

Gert er ráð fyrir að yfirvöld meti stöðuna á Brussel-svæðinu síðar í dag og gefi út frekari tilkynningar í kjölfarið. Stjórnstöð almannavarna í Belgíu heldur úti upplýsingasíðu (á hollensku, frönsku og þýsku): http://crisiscentrum.be/fr

Viðbúnaðarstig fyrir aðra staði í Belgíu, þar með talið Zaventem-flugvöll (BRU) er 3. stig af 4. Flugvöllurinn er opinn og flug hefur mestmegnis verið samkvæmt áætlun. Sjá nánar vef flugvallarins: http://www.brusselsairport.be/en/

Varðandi lestarsamgöngur er fólki bent á að fylgjast með heimasíðu Belgísku járnbrautanna: http://www.belgianrail.be/en

Video Gallery

View more videos