Dómsmálaráðherra ræðir stöðu Íslands í evrópska samstarfinu um lög- og réttargæslu

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sat ráðherrafund Schengen-ríkjanna í Brussel á fimmtudag, 8. nóvember. Hann ræddi í tengslum við fundinn við Franco Frattini, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra innanríkis- og dómsmála hjá framkvæmdastjórninni.

Í byrjun næsta árs stefna ráðherrann og framkvæmdastjóri innanríkis- og dómsmála að því að hittast til að ræða um stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu hvað varðar lög- og réttargæslu í ljósi hins nýja stofnsamnings ESB, sem kenndur er við Lissabon. Þá verður einnig rætt um aðild Íslands að framkvæmd tillagna um nýjar aðgerðir í baráttunni gegn hryðjuverkjum, sem Frattini kynnti í gær, auk þess aðild Íslands að samstarfi evrópskra lögregluliða, sem kynnt hefur verið í svonefndum Prüm-samningi.

 Ráðherrar Schengen-ríkjanna staðfestu á fundinum, að innra landamæraeftirliti yrði hætt á sjó og landi í níu af hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins (Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Möltu, Póllandi, Slóveníu, Slóvakíu, Tékklandi og Ungverjalandi) í desember nk. og á flugvöllum í mars 2008. Við þessa stækkun nær Schengen-svæðið til 3,6 milljón ferkílómetra.

 Aðild Sviss að Schengen hefur verið samþykkt en enn á eftir að fullgilda samninginn í þremur aðildarríkjum Evrópusambandsins. Búlgaría, Kýpur og Rúmenía hafa óskað eftir Schengen-aðild og er unnið að henni. Bretland á aðeins aðild að þeim þætti Schengen-samstarfsins sem lýtur að samstarfi á sviði lög- og réttargæslu. Írland getur með eigin ákvörðun gerst aðili að samstarfinu á sama hátt og Bretland.Video Gallery

View more videos