Yfirlitssýning á verkum Svavars Guðnasonar í Cobra Museum í Amsterdam

Lars Olesen sýningarstjóri, Þórir Ibsen, sendiherra, Dominique Ambroise Ibsen og Ásgerður Kjartansdóttir, menningarfulltrúi

Yfirgripsmikil sýning á verkum Svavars Guðnasonar er nú til sýnis í Cobra safninu í Hollandi, en Svavar Guðnason var einn af forsprökkum Cobra hópsins og frumkvöðull abstrakt málverksins á Íslandi. Þórir Ibsen sendiherra Íslands gagnvart Hollandi opnaði sýninguna formlega þann 19. október síðastliðinn.

Þetta er fyrsta yfirlitssýning á verkum Svavars Guðnasonar í Hollandi en á sýningunni eru á fimmta tug verka sem unnin voru á árunum 1928-1980. Verkin eru í eigu einkaaðila og opinberra safna, þar á meðal Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafn Íslands, Cobra Museum of Modern Art, Carl-Henning Pedersen & Else Alfelts Museum og Skovhuset. Íslandsvinurinn Lars Olesen er forgöngumaður sýningarinnar en Olesen hefur verið virkur að kynna íslenska myndlist í Evrópu á undanförnum árum.

Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út vegleg sýningarskrá sem inniheldur texta eftir Hanne Lundgren Nielsen, Kristínu G. Guðnadóttur, Per Hovdenakk, Ejler Bille, Christian Dotremont og Svavar Guðnason.

Sýningin sem er farandsýning, verður sett upp í tveimur söfnum í Danmörku á næsta ári, í Carl-Henning Pedersen & Else Alfelts safninu í Herning í janúar á næsta ári og í Skovhuset um miðjan apríl 2013.

Frekari upplýsingar

http://www.cobra-museum.nl/en/home.html

 

Video Gallery

View more videos