Vel heppnaður blaðamannafundur vegna Iceland on the Edge

Um 40 manns sóttu kynningarfund um íslensku hátíðina Iceland on the Edge sem haldin verður í Brussel frá febrúar til júní í nk. Hópurinn samanstóð af lykil blaðamönnum frá öllum helstu fjölmiðlum Belgíu s.s. dagblöðum, tímaritum, sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Má nefna dagblöðin La Libre Belgique, Dernière Heure, De Tijd, De Morgen, De Standaard, sjónvarpsstöðvarnar RTBF og Liverty TV, og tímaritin Knack og The Bulletin sem dæmi um virta og vinsæla miðla sem áttu fulltrúa á fundinum. Auk þessara blaða- og fréttamanna sótti um tuttugu manna hópur fjölmiðlafólks Ísland heim í október til að kynna sér Ísland og hátíðina.

Á blaðamannafundinum var Ísland og dagskrá hátíðarinnar kynnt en hún samanstendur af viðamikilli og metnaðarfullri íslenskri menningardagskrá sem unnin hefur verið í samstarfi við BOZAR, stærstu menningar- og listamiðstöð Belgíu og Ancienne Belgique, eitt vinsælasta tónlistarhús Brussel á sviði popp og rokk tónlistar. Jafnframt verða sér íslenskir viðburðir á ýmsum öðrum sviðum undir formerkjum Iceland on the Edge, s.s. á sviði ferða- , ráðstefnu- orku og alþjóðamála. Markmið hátíðarinnar er að efla ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórnin stendur að baki hátíðinni í samvinnu við Reykjavíkurborg, Ferðamálastofu og Útflutningsráðs. Portus,  Icelandair og Icelandair Cargo eru samstarfsaðilar verkefnisins en Landsbankinn er máttarstólpi hennar. Hátíðin er unnin að frumkvæði og undir stjórn sendiráðsins í Brussel/utanríkisráðuneytisins en verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár.

Mikil vinna var lögð í alla umgjörð fundarins sem haldinn var í BOZAR. Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins var sérstakur gestur hans og fulltrúi íslenskra listamanna. Eftir almenna kynningu á Íslandi og dagskránni sjálfri var boðið upp á íslenskar veitingar, m.a. íslenskt verðlaunavatn frá Iclandic Glacial. Undantekning er að blaðamannafundur  sem þessi sé svo vel sóttur í Brussel og var Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra að vonum ánægður með útkomuna. „Þetta sýnir hversu mikill áhugi er á Íslandi og hversu mikilvægt það er að við kynnum landið með skipulögðum hætti. Samvinna við sterka heimamenn s.s. BOZAR gefur okkur jafnframt forskot í stað þess að vinna þetta ein og sér“, sagði Stefán Haukur og tók fram að fundurinn er einungis einn liður í því mikla kynningarstarfi sem hefur átt sér stað í tengslum við hátíðina en fyrsta kynningarefni hennar leit dagsins ljós fyrir tæpu ári.

Að lokum má nefna að á næstu vikum hefst markaðsherferð hátíðarinnar af fullum þunga enda opnunin í febrúar á næsta leyti. Er hér t.d. átt við sjónvarpsauglýsingar og sjónvarpsþætti um Ísland, plakataherferðir og auglýsingar í öllum helstu miðlum Belgíu. Er markmið sendiráðsins að kynningin nái til sem flestra í Belgíu og ekki síst þeirra fjölmörgu útlendinga sem lifa og starfa í Brussel.

Heimasíða BOZAR http://www.bozar.be/activity.php?id=7552

Heimasíða Ancienne Belgique http://www.abconcerts.be/concerts/concertinfo.html?c=101927

Bloggið: http://www.bozar.be/blog/icelandVideo Gallery

View more videos