Vel heppnað Airwaves í Brussel

Mikil stemning var á tónleikakvöldi Iceland Airwaves í Brussel þann 15. febrúar sl. en kvöldið var var hluti af Iceland on the Edge hátíðinni sem stendur nú yfir í Brussel. Fjórar íslenskar hljómsveitir/listamenn tóku þátt: Ólafur Arnalds, Seabear, Jóhann Jóhannsson og Amiina. Tónleikarnir voru haldnir í BOZAR, stærstu lista- og menningarmiðstöð Belgíu. Um 500 manns sóttu kvöldið og var uppselt.

           Skipuleggjendur og listamenn voru mjög ánægðir með útkomuna. „Okkur finnst BOZAR vera einn flottasti tónleikastaður sem við höfum séð. Þetta hús býður uppá endalausa möguleika og það er vel valinn maður í hverju horni. Tónlistarfólkið var allt sammála um að þetta væri mjög góður staður til fyrir tónleika, sagði Diljá Ámundadóttir frá Iceland Airwaves. Við erum jafnframt mjög snortin af athyglinni sem Iceland Aiwaves fékk í gegnum Iceland on the Edge. Allt efni er mjög vel unnið og það var æðislegt að labba um bæinn og sjá auglýsingar út um allt. Við erum ótrúlega stolt af því að vera þáttakendur í þessu metnaðarfulla verkefni“, bætti Diljá að lokum við. Iceland Airwaves stendur fyrir fleiri tónleikakvöldum undir hatti Iceland on the Edge á næstunni þar sem enn fleiri íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn stíga á stokk. Tónleikakvöldið þann 15. var þó ekki fyrsta innrás íslensks tónlistarfólks til Brussel þetta árið en kvöldið áður tróð Pétur Ben upp á Kultuurkaffee við góða mætingu og undirtektir viðstaddra.

„Þessir tónleikar marka upphaf menningardagskrár Iceland on the Edge og það er  ánægjulegt hvað þetta fer vel af stað” sagði Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Brussel. Allir viðburðir sem tengjast Íslandshátíðinni hingað til hafa heppnast mjög vel“, bætti Stefán Haukur við og vísaði þar til þátttöku Íslands í ferðamálahátíðinni Vakantisalon sem stóð yfir frá 7-11. febrúar sl, og yfir 100.000 manns sóttu. Einnig var efnt til orkuráðstefnu undir hatti Iceland on the Edge þann 1. febrúar sl. í tengslum við EU’s Sustainable Week. Ísland og okkar fólk hefur verið að fá mjög góða umfjöllun vegna verkefnisins og þátttakendur þess hafa verið að uppskera í samræmi við þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið undanfarin tvö ár sagði Stefán Haukur að lokum.  Ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg, Útflutningsráð, Ferðamálastofa og standa að baki verkefninu ásamt Landsbankanum sem er máttarstólpi þess og Icelandair, Icelandair Cargo og Portusi sem eru samstarfsaðilar. Ráðist var í þetta verkefni að frumkvæði sendiráðsins í Brussel en tilgangur þess er að efla ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og styðja við þau svið sem það nær til.

Þriðjudaginn 26. febrúar opnar Iceland on the Edge hátíðin svo með formlegum hætti þegar að þrjár myndlistarsýningar hefjast í BOZAR. Er um að ræða sýningarnar Dreams of Sublime and Nowhere in Icelandic Contemporary Art (nútímalistasýning sem fjölmargir íslenskir myndlistarmenn taka þátt í en sýningin er unnin í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur), Magicians of Nature (málverkasýning með verkum eftir Kjarval, Georg Guðna og Kristján Davíðsson - sýningin er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands) og Water Vocal - Endangered II (nýtt verk eftir myndlistarkonuna Rúrí). Dagskrá hátíðarinnar lýkur 15. júní 2008.

 

Heimasíða BOZAR: http://www.bozar.be/activity.php?id=7552

Heimasíða Ancienne Belgique: http://www.abconcerts.be/projects/iceland/

Blog hátíðarinnar: www.bozar.be/blogVideo Gallery

View more videos