Umhverfisráðherra vill að vísindaleg sjónarmið og rök ráði hjá ESB

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra átti á þriðjudag 20. febrúar, fund með Markos Kyprianou framkvæmdastjóra sem fer með matvælamál í Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel, um öryggi matvæla og mögulega aðild Íslands að Matvælastofnun Evrópu.

Á fundinum kynnti umhverfisráðherra m.a. þann góða árangur sem Ísland hefur náð í að draga úr sýkingum í matvælum, einkum kjúklingum, af Campylobacter og Salmonellu. Rætt var um áhyggjur Íslands vegna aukningar sem orðið hefur í Campylobacter-sýkingum í matvælum í Evrópusambandslöndum og mikilvægi þess að tryggt sé að innfluttar kjötafurðir innihaldi hvorki Campylobacter né Salmonellu-smit. Kyprianou sagði ESB standa nokkuð vel að vígi varðandi baráttu gegn Salmonellu, en löggjöf vantaði til að taka á samsvarandi hátt á Campylobacter.

Rætt var um Matvælastofnun Evrópu, EFSA og sagði Kyprianou ekkert því til fyrirstöðu að Ísland yrði aðili að EFSA þegar viðkomandi ESB-reglur á sviði matvælamála hefðu verið lögfestar á Íslandi. Gagnsemi Íslands af þátttöku í Matvælastofnuninni er m.a. vegna neyslukannana og gagnasöfnunar EFSA varðandi aðskotaefni í matvælum og önnur mál sem tengjast matvælaöryggi og neytendavernd.

Erfiðasta málið í samstarfi Íslands og ESB á sviði matvælamála varðar bann ESB við notkun fiskimjöls sem fóðurs fyrir jórturdýr, sem var upphaflega sett vegna ótta við að fiskimjöl blandaðist smituðu kjöt- og beinamjöli. Kyprianou sagði að ESB hefði komið á eftirlitskerfi sem ætti að tryggja að slík blöndun ætti sér ekki stað, en vandinn við að aflétta banninu væri pólitískur fremur en vísindalegur. Framkvæmdastjórinn nefndi að viðhorf til málsins væru af mismunandi toga. Umhverfisráðherra lagði áherslu á að málið yrði leyst og að vísindaleg sjónarmið og rök réðu ferðinni við meðferð þess.Video Gallery

View more videos