Tónleikar í sendiherrabústaðnum í Brussel á Valentínusardag

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel stóð í samvinnu við EFTA deild Samtaka kvenna í Evrópu (Association Femmes d´Europe) fyrir Valentínusartónleikum hinn 14. febrúar s.l. þar sem Bára Grímsdóttir, söng- og kvæðakona og Chris Forest, söngvari og gítarleikari, fluttu íslensk og ensk þjóðlög. Allur ágóði af tónleikunum, sem haldnir voru í sendiherrabústaðnum í Brussel, rennur til mannúðarstarfsemi. Um 70 manns sóttu tónleikana.

 Bára Grímsdóttir hefur um langt árabil verið flytjandi íslenskra þjóðlaga og kvæðalaga.  Hún ólst upp við kveðskap og söng foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal.  Bára hefur sérstakan áhuga á rímum og kvæðalögum en hefur einnig kynnt sér hinn fjölbreytilega þjóðlagaarf liðinna alda, bæði veraldlegan og trúarlegan.  Hún hefur sungið með Sigurði Rúnari Jónssyni og Njáli Sigurðassyni og þjóðlagahópnum Emblu og hafa þau komið fram á tónleikum á Íslandi og víða í Evrópu og Norður Ameríku.

 Chris Foster ólst upp í Somerset í suðvestur Englandi.  Þar heyrði hann fyrst ensk þjóðlög sungin og leikin og þar hóf hann tónlistarferil sinn.  Hann hefur í þrjá áratugi komið fram á tónleikum víða á Bretlandseyjum, Evrópu og Norður Ameríku og skapað sér sess sem frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar. 

 Chris og Bára hittust fyrst í október árið 2000, þegar Bára söng á Baring-Gould hátíðinni í Devon á Englandi.  Síðan hafa þau unnið að því að flétta saman hið sérstaka tónmál íslensku laganna við hinn enska stíl, þar sem leikið er á gítarinn í mismunandi opnum stillingum.  Síðastliðin 5 ár hafa þau komið saman á ýmsum hátíðum, tónleikum og í útvarpi á Íslandi, Englandi, Skotlandi, Írlandi og Bandaríkjunum.  Í júní 2004 gáfu þau út geisladiskinn Funi og hafa fengið mikið lof fyrir hann.Video Gallery

View more videos