Svæðabundið samstarf um orkumál

Þriðjudaginn 17. apríl undirritaði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, viljayfirlýsingu um svæðabundið samstarf á sviði orkumála. Markmið samstarfsins, sem hlaut nafnið RENREN (Renewable Energy Regional Network), er að koma á virku samstarfi svæða í Evrópu sem búa yfir sérþekkingu á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í þeim tilgangi að stuðla að enn frekari notkun slíkra orkugjafa. Í yfirlýsingin kemur fram vilji til að styðja við samstarf fyrirtækja og stofnana á þessum svæðum og skapa vettvang fyrir pólitísk skoðanaskipti um þessi mál. Þá er stefnt að því að efla vitund almennings um mikilvægi sjálfbærrar þróunar á sviði orkumála.

Þau svæði sem undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna í gær voru Kýpur, Ísland, Norður-Svíþjóð, Slesvík-Holstein, Efra-Austurríki og Wales. Hafa öll þessi svæði náð langt, hvert á sínu sviði, í hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Stefnt er að því að fá fleiri svæði til þátttöku í samstarfinu þegar fram líða stundir.

 Auk sendiherrans sátu þeir Þorkell Helgason, orkumálastjóri og Stefán Baldursson, vísindafulltrúi í sendiráðinu í Brussel, fundinn fyrir Íslands hönd. Flutti Þorkell, fyrir hönd iðnaðarráðherra, ávarp á fundinum þar sem hann gerði m.a. grein fyrir einstakri stöðu Íslands í hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Þá ávarpaði ráðherra orkumála hjá Evrópusambandinu, hr. Andris Piebalgs, fundinn.

 Iðnaðarráðuneytið mun halda utan um þátttöku Íslands í RENREN.Video Gallery

View more videos