Ræða Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, um utanríkismál

Frú forseti,

Það eru gömul sannindi og ný að stefna sérhverrar þjóðar í utanríkismálum mótast að miklu leyti af hnattstöðu hennar og heimkynnum. Í þeim efnum er Ísland engin undantekning. Staða Íslands í miðju Norður-Atlantshafinu hefur mótað lífsbaráttu þjóðarinnar frá upphafi. Á þeirri stöðu byggjum við rétt okkar yfir hinum fengsælu fiskimiðum umhverfis landið. Veðurfar og hafstraumar eru uppspretta stöðugrar úrkomu sem tryggt hefur orkuframleiðslu vatnsaflsvirkjana. Eldvirknin á Norður-Atlantshafshryggnum hefur gert okkur kleift að hita hýbýli okkar og framleiða rafmagn í gufuaflsvirkjunum.

Hnattstaða landsins er þannig á margan hátt grunnurinn undir þeirri efnahagslegu velsæld sem við Íslendingar búum við í dag. Hún skýrir einnig þá áherslu sem Ísland hefur lagt á þá þætti utanríkismála sem snúa að hafréttarmálum, nýtingu auðlinda hafsins, umhverfisvernd, samgöngum og viðskiptum, auk þróunarmála, þar sem samstarf við önnur ríki um sjávarútveg og orkunýtingu hefur verið í öndvegi.

En líklega eru áhrif hnattstöðunnar hvergi skýrari en á sviði öryggis- og varnarmála. Lega landsins í „ystu höfum“ hefur öðrum þáttum fremur mótað stefnu Íslands á því sviði. Um alda skeið var fjarlægðin okkar helsta vörn. Heimsstyrjöldin síðari, hernám Breta og orrustan um Atlantshafið, færðu okkur síðar heim sanninn um að í fjarlægðinni veitti ekki lengur það skjól sem á mætti treysta.

Ytra umhverfi okkar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Friðsamlegar horfur í samskiptum ríkja Norðurálfu eru undirrót þess að Bandaríkin ákváðu að draga úr varnarviðbúnaði sínum á Íslandi. En breytingar koma fram víðar en í samskiptum einstakra ríkja. Vísbendingar hafa komið fram um áframhaldandi loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem gætu, þegar tímar líða, haft umtalsverð áhrif á hafstrauma og náttúrufar og þar með auðlindanýtingu Íslendinga.

Engin þessara breytinga raskar þó þeirri ákjósanlegu stöðu sem hnattstaða Íslands skapar þjóðinni í alþjóðlegum samskiptum. Þvert á móti munu landsins gögn og gæði, þ.m.t. sá mannauður sem fólginn er í fólkinu sjálfu, áfram verða undirstaða velmegunar íslensku þjóðarinnar. Með því að nýta auðlindir til sjávar og sveita af ábyrgð og framsýni getum við jafnframt orðið öðrum þjóðum fyrirmynd og vísað veginn í því mikilvæga starfi sem framundan er á alþjóðlegum vettvangi við að útrýma hungri og sárustu neyð.

Þótt dregið hafi úr viðsjám á norðurslóðum er Ísland nú í þjóðbraut sem aldrei fyrr. Þetta á ekki aðeins við um tíðara farþegaflug sem auðveldar umsvif íslenskra athafnamanna beggja vegna Atlantshafs. Fyrirsjáanlegt er einnig að nýjar siglingaleiðir muni opnast til norðurs samhliða hlýnandi loftslagi. Nýstárleg staða Íslands, sem útvarðar við anddyri norðurskautssvæðisins, kann m.a. að hafa áhrif á stöðu landsins í öryggismálum svæðisins. Ég tel því tímabært – og raunar óhjákvæmilegt – að stjórnvöld taki aukið mið af næstu heimkynnum þjóðarinnar, norðurslóðum, við mótun utanríkisstefnunnar á næstu árum. Í þessu skyni mun utanríkisráðuneytið m.a. standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Akureyri í mars næstkomandi um áhrif opnunar nýrra siglingaleiða til norðurs.

Frú forseti.

Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna, sem ég og forsætisráðherra undirrituðum í október síðastliðnum í Washington, markar upphaf nýs kafla í varnarsamstarfi þjóðanna. Í samkomulaginu stendur skýrum stöfum að Bandaríkin muni standa við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum frá 1951 og að varnir Íslands verði tryggðar með miklum og breytanlegum viðbúnaði og liðsafla.

Hins vegar þarf að huga að ýmsu í kjölfar brotthvarfs hersins. Eitt af því er ráðstöfun sjálfs varnarsvæðisins, en segja má að hún sé þrískipt verkefni. Tiltekin mannvirki eru nauðsynleg vegna reksturs Alþjóðaflugvallarins og hefur sá þáttur verið tryggður. Eins hefur verið stofnað félag í eigu ríkisins, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., sem mun vinna að því að þróa og ráðstafa öðrum hlutum varnarsvæðisins með það að markmiði að koma sem mestum hluta þess í arðbæra nýtingu. Loks hefur verið skilgreint öryggissvæði við flugvallarsvæðið sem nýtast mun vegna varna landsins, til innlendra og fjölþjóðlegra æfinga og sem aðstaða fyrir bandalagsþjóðir Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Atlantshafsbandalagið skilgreinir eftirlit með lofthelgi bandalagsþjóðanna sem grundvallaratriði í vörnum bandalagsins og framundan eru mikilvægar viðræður við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið um framtíðarrekstur og fyrirkomulag íslenska loftvarnarkerfisins sem kostað hefur verið af Bandaríkjunum til þessa með rekstri Ratsjárstofnunar. Íslenska loftvarnarkerfið samanstendur af mörgum þáttum en helst ber að nefna loftvarnarratsjár, örugg fjarskiptakerfi og getu til aðgerðastjórnunar vegna loftvarna.

Ljóst er að við getum ekki sinnt öllum þáttum loftvarna án aðstoðar bandalagsþjóða. Því eru viðræðurnar við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið mikilvægar. Við höfum orðið vör við áhuga  meðal bandalagsþjóða okkar á því hvernig loftvarnakerfinu verði háttað til framtíðar, sem og skipulagi öryggissvæðisins við Keflavíkurflugvöll. Þessir þættir eru auk þess frumforsenda þess að hér geti farið fram æfingar bandalagsins vegna varna landsins og sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.

 

Frú forseti.

Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framhald varnarsamstarfsins er traust umgerð um öryggis- og varnarmál Íslands. Engum dylst þó að sú staða sem nú er komin upp kallar á aukið frumkvæði af hálfu okkar Íslendinga að því að tryggja öryggi landsins. Nauðsynlegt er að efla samráð og samstarf við þau ríki sem deila hagsmunum með okkur við norðanvert Atlantshaf. Þó að Bandaríkin skipti hér mestu er einnig rétt að nefna Kanada og ekki síður Bretland og Norðurlöndin. Þá verða auknar kröfur gerðar um framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins og þá sér í lagi til aðgerða á þess vegum. Ef við leggjum okkar af mörkum til starfsemi og aðgerða bandalagsins mun rödd okkar hljóma hærra innan þess. Hér mun Íslenska friðargæslan vera í lykilhlutverki. Ég hef þegar sett af stað athugun á því með hvaða hætti við getum aukið framlag okkar til aðgerða bandalagsins í Afganistan. Sem dæmi má nefna að kallað hefur verið eftir sérfræðingum á sviði heilbrigðismála, löggæslu og réttarfars. Efla þarf samskipti og samráð við hermálayfirvöld og herstjórnir Atlantshafsbandalagsins. Þetta á einnig við um Evrópuherstjórn Bandaríkjanna í Stuttgart í Þýskalandi. Fastanefnd Íslands hjá bandalaginu verður efld til að sinna auknum verkefnum af þessum sökum.

Rétt er og að leita eftir víðtækara samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála. Ég hef áður minnst á nauðsyn þess að fylgst sé grannt með þeirri þróun sem er að eiga sér stað á vettvangi Evrópusambandsins. Stækkun Evrópusambandsins, ekki síður en Atlantshafsbandalagsins, tryggir stöðugleika og dregur úr líkum á átökum og ófriði í álfunni og næsta nágrenni. Með aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu fer aðild að Atlantshafsbandalagnu og ESB að verulegu leyti saman. Sérstaða Atlantshafsbandalagsins felst þó enn sem áður í því að þar sitja Bandaríkin og Kanada einnig við borðið. Þróun alþjóðamála kallar á náið samstarf milli Atlantshafsbandalagsins og ESB og það samstarf hefur verið í mótun um nokkurt skeið. Hagsmunir okkar felast fyrst og fremst í því að Atlantshafsbandalagið sé áfram kjölfestan í öryggis- og varnarsamstarfi álfunnar. Við hljótum jafnframt að skoða hvernig styrkja megi samstarf okkar við Evrópusambandið á sviði utanríkis- og öryggismála – enda er ljóst að Evrópusambandið mun leitast við að láta meira til sín taka á þessu sviði. Landfræðilega lega Íslands í Evrópu gerir og að verkum að Evrópusambandið hlýtur að vera rökréttur samstarfsaðili í baráttunni gegn mörgum af þeim ógnum sem kunna að steðja að okkur í framtíðinni – svo sem hryðjuverkum og alþjóðlegri glæpastarfsemi á borð við eiturlyfjasmygl og mansal.

 

Frú forseti.

Í umræðu um öryggis- og varnarmál er eðlilegt að staldra fyrst við okkar næsta nágrenni. Þótt allt sé þar nú með kyrrum kjörum er það engin trygging fyrir öryggi á tímum alþjóðavæðingar. Nú á tímum teygja viðskiptahagsmunir Íslendinga sig um víða veröld. Á sama hátt verða hagsmunir okkar í öryggismálum best tryggðir í heimi þar sem ríkir friður, öryggi og stöðugleiki. En það sem skiptir meira máli er að við Íslendingar höfum, líkt og aðrar þjóðir, skyldum að gegna á þessu sviði. Næstkomandi sunnudag, hinn 19. nóvember, verða 60 ár liðin frá því að Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum. Eins og segir í 1. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna er meginmarkmið þeirra að standa vörð um heimsfrið og öryggi. Með aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum gengumst við Íslendingar undir þá skyldu að leggja okkar af mörkum í þeim efnum. Okkur Íslendingum ber að rækta þá skyldu eftir föngum og í þessum efnum höfum við margt fram að færa. Ekki dugar að bera því við hversu smá við erum og fjarri helstu átakasvæðum heims.

Mörgum kom á óvart að friðarverðlaun Nóbels árið 2006 skyldu koma í hlut Grameen-bankans í Bangladesh og stofnanda bankans, hagfræðiprófessorsins Muhammad Yunus. Við eigum því ekki að venjast að tengja bankastarfsemi við baráttu fyrir friði og öryggi. En Grameen-bankinn er enginn venjulegur banki og prófessor Yunus enginn venjulegur maður. Árið 1974 hóf hann sjálfur að veita litlum hópi fátækra kvenna í Bangladesh lán sem voru smá í sniðum. Markmiðið var að gera konum kleift að brjótast úr viðjum fátæktar og búa sér og fjölskyldum sínum betra líf. Í dag njóta hátt í sjö milljónir manna fyrirgreiðslu bankans og eru nánast allir viðskiptavinir hans konur. Má segja að þarna hafi norska Nóbelsnefndin hitti naglann á höfuðið. Baráttan fyrir efnahagslegum og félagslegum framförum er ekki aðeins barátta gegn fátækt, heldur er hún jafnframt barátta fyrir friði og öryggi. Þetta er í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda sem m.a. var sett fram með skýrum hætti í Stefnumiðum Íslands í þróunarsamvinnu sem kynnt voru á Alþingi í fyrra.

Ekki er síður mikilvægt að Nóbelsnefndin skuli veita þeim viðurkenningu sem leggja sérstaka áherslu á réttindi og kjör kvenna í þróunarlöndum. Það er vel þekkt staðreynd að stuðningur við konur er mjög áhrifarík leið til þróunaraðstoðar. Konur setja hagsmuni fjölskyldunnar í forgang og þær vinna verkefni sín af samviskusemi og áhuga.

Í þróunarsamvinnu Íslands hefur verið lögð rík áhersla á málefni kvenna. Stefna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í jafnréttismálum er að leggja höfuðáherslu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í þróunarverkefnum stofnunarinnar.

Ég ræddi fyrr í vikunni við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkismálanefnd um nauðsyn þess að lög um stofnunina verði endurskoðuð. Mjög merkilegt starf hefur verið unnið á vegum hennar og við lítum með stolti til þeirra karla og kvenna sem vinna að þróunarverkefnunum á vettvangi, oft við mjög erfiðar aðstæður. En núverandi lög um Þróunarsamvinnustofnun eru orðin 25 ára gömul og á þessum tíma hafa orðið miklar breytingar og framfarir við framkvæmd þróunarverkefna. Markmiðið með endurskoðuninni verður að færa þróunarsamvinnu okkar til nútímahorfs og auka skilvirkni í störfum okkar með þarfir og hagsmuni þeirra sem njóta aðstoðarinnar að leiðarljósi. Ég legg áherslu á að vandað verði til verks í þessu starfi og samráð verði haft við stjórnmálaflokkana, félagasamtök, fræðimenn og viðskiptalífið.

Almenn sátt hefur ríkt um þróunarsamvinnu Íslands hingað til og tel ég afar mikilvægt að svo verði áfram. Ég held að við séum öll sammála um að Íslendingar vilji láta gott af sér leiða á alþjóðavettvangi og að við viljum leggja okkar af mörkum til baráttunnar gegn fátækt í þróunarlöndunum. Ég er því vongóð um að breið samstaða náist um framtíðarskipan þessara mála þegar tillögur þessa efnis verða teknar til umfjöllunar hér á Alþingi.

Í fjölþjóðlegu samstarfi leggjum við einnig áherslu á málefni kvenna. Ber þar fyrst að nefna meira en tífalda hækkun á framlögum til UNIFEM á síðustu tveimur árum. UNIFEM vinnur mikilvægt starf innan Sameinuðu þjóðanna en hefur þó ekki haft það vægi sem við teljum nauðsynlegt. Í málflutningi okkar höfum við því lagt á það ríka áherslu að kynja- og jafnréttissjónarmið verði að taka fastari tökum í verkefnum Sameinuðu þjóðanna. Ég er því afar ánægð með tillögur um endurskipulagningu starfsemi samtakanna sem lagðar voru fram í síðustu viku og eru einmitt í þessum anda.

Ég vil einnig nefna aukna áherslu á málefni kvenna í stríðshrjáðum löndum. Ég kynnti fyrir skömmu nýjar áherslur í starfsemi Íslensku friðargæslunnar, en friðargæslan hefur átt áralangt samstarf við UNIFEM á Balkanskaga.

Sífellt er erfiðara að greina á milli þróunarmála og endurreisnar- og friðaruppbyggingarstarfs að loknum átökum. Afganistan er gott dæmi þar um – en einnig má nefna að þátttaka Íslands í friðargæslu á Srí Lanka er forsenda þess þróunarsamstarfs sem Íslendingar vinna að þar í landi.

Framundan er leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins þar sem eitt meginviðfangsefni fundarins verður umfjöllun um hvernig betur megi samhæfa störf friðargæsluliðs Atlantshafsbandalagsins og alþjóðlegra stofnanna og hjálparsamtaka í Afganistan. Í þessu skyni hafa fulltrúar Atlantshafsbandalagsins fundað með fulltrúum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans. Má segja að Afganistan sé prófsteinn á það hvernig friðargæsluverkefnum, í nánu samstarfi við þróunar- og hjálparstarf, verði komið fyrir í framtíðinni. Á þessu sviði hafa Íslendingar af dýrmætri reynslu að miðla. Að mínu mati felast tækifæri í þessari þróun mála fyrir Ísland og fellur hún vel að þeirri áherslubreytingu sem ég hef kynnt og verið er að hrinda í framkvæmd hjá Íslensku friðargæslunni. Við skulum minnast þess að einn helsti vandi stríðshrjáðra landa er hvernig viðhalda megi stöðugleika eftir að átökum líkur og koma þannig í veg fyrir að átök brjótist út að nýju. Í um helmingi þeirra landa þar sem friður hefur komist á hefjast vopnuð átök á nýjan leik innan fimm ára. Ef bætt lífskjör fylgja ekki í kjölfar friðarferlisins er veruleg hætta á að ófriður brjótist út á ný.

Áður var gjarnan litið á friðargæslu og þróunarsamvinnu sem alls ótengd verkefni. Viðhorfið var að friðargæsla væri hernaðarlegt verkefni sem  Atlantshafsbandalagið, friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna eða aðrar slíkar stofnanir sinntu - en þróunarsamvinna væri hlutverk þróunarstofnanna á borð við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNIFEM og Alþjóðabankann. Raunin er sú að allir þessir aðilar hafa á síðustu árum eflt þann þátt í starfsemi sinni sem telst til enduruppbyggingar á ófriðarsvæðum. Það er skref í rétta átt að þeir sem sinna friðargæslu og þróunaraðstoð hafi færst nær hver öðrum á undanförnum árum og von er til þess að friðarsamningar haldi fyrir vikið og leiði til efnahagslegrar og félagslegrar framþróunar á fyrrum átakasvæðum.

Mikilvægt er að umgerðin um þátttöku Íslands í friðargæslustarfi sé traust. Í því skyni mun ég innan skamms leggja fram frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna sem mikilvægt er að hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Þá er unnið að gerð siðareglna fyrir Íslensku friðargæsluna.

Ég hef hér staldrað við mikilvægi þróunarsamvinnu og friðargæslu í þeirri viðleitni að stuðla að friði og efla öryggi um heim allan. En ekki er síður mikilvægt að huga að vernd mannréttinda í þessum efnum. Það er staðreynd að brot á grundvallarmannréttindum eru oft undirrót átaka og ófriðar. Verndun mannréttinda stuðlar að því að auknu öryggi og friði í heiminum. Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Ég mun beita mér fyrir því að skerpa og auka innlegg Íslands í umræðuna um mannréttindamál á alþjóðavettvangi. Í því skyni hef ég ákveðið að unnið verði að mótun heildstæðrar stefnu Íslands í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi. Meginmarkmið slíkrar stefnumótunar er að greina hvernig Ísland getur lagt sitt af mörkum til þess að varðveita og auka virðingu fyrir mannréttindum í heiminum. Ég legg áherslu á að samráð verði haft við félagasamtök og stofnanir, sem sinna mannréttindamálum, þegar undirbúningur að þessari stefnumótun hefst.

 

Frú forseti.

Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ber að varðveita frið og öryggi í heiminum. Eins og kom fram í ræðu Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, á Alþingi árið 2003 er framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna rökrétt framhald þeirrar viðleitni að tryggja grundvallarhagsmuni Íslands á sviði utanríkismála með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú viðleitni felst í því að Ísland axli þá ábyrgð á alþjóðavettvangi sem vel stæðu og sjálfstæðu ríki ber skylda til gagnvart alþjóðasamfélaginu. Stundum er því haldið fram að smáríki á borð við Ísland eigi ekkert erindi í öryggisráðið – þar eigi aðeins stórveldin að sitja og véla um heimsmálin. Ég hafna með öllu slíkum sjónarmiðum. Friður og öryggi í heiminum er ekki einkamál stórveldanna – heldur svo brýnt hagsmunamál alls mannkyns að öllum ber skylda til að leggja sitt af mörkum. Allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna hefur það verið grunnstef í starfi samtakanna að raddir allra ríkja –  stórra sem smárra – eigi að heyrast þegar fjallað er um brýn alþjóðamál.

 

Frú forseti.

Sjálfbær nýting auðlinda hafsins er einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Í þeim efnum hafa Íslendingar gengið á undan með góðu fordæmi - sýnt ábyrgð í umgengni við auðlindir hafsins. En því miður er svo ekki um alla. Ofveiði og rányrkja á fiskimiðum víða um heim kann, þegar fram í sækir, að hafa neikvæð áhrif á afstöðu fólks til fiskveiða almennt. Í nýlegri skýrslu, sem birt var í þekktu vísindariti, er gefið í skyn að allur fiskur kunni að hverfa úr heimshöfunum innan 50 ára, verði ekki þegar í stað gripið til víðtæks fiskveiðibanns. Það ber að taka undir þau varnaðarorð vísindamanna að fara þurfi með gát í umgengni við hinar fjölbreyttu og viðkvæmu auðlindir hafsins. Á hinn bóginn skiptir máli að það sé gert á réttum vettvangi og forðast ber að umræðan stjórnist af alhæfingum, öfgum og tilfinningahita.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur utanríkisráðuneytið, í samráði við sjávarútvegsráðuneytið, tekið þátt í aðgerðum til að koma böndum á raunverulega rányrkju hinna lifandi auðlinda hafsins í okkar nágrenni. Ólöglegar og eftirlitslausar fiskveiðar skipa, sem skráð eru undir hentifána, eru alvarleg ógnun við hagsmuni sjávarútvegsríkja. Við þessari ógn verður að bregðast af fullri einurð. Við Íslendingar eigum að taka forystu í baráttunni gegn sjóræningjaveiðum. Þessi barátta kallar á gott samstarf við aðrar þjóðir um þetta brýna hagsmunamál alls mannkyns. Það er einnig mikilvægt að ráðast að rótum vandans – sem er einfaldlega sá að sjóræningjaveiðar borga sig þrátt fyrir allt. Löndunarbann og bannlistar geta verið mikilvægt tæki til þess að auka kostnað þeirra sem stunda þetta ólöglega athæfi. Samstarf við fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki, sem veita útgerðum sjóræningjaskipa þjónustu sína, getur einnig gert slíkum útgerðum erfiðara um vik. En við verðum einnig að vera tilbúin til þess að taka sjálf af skarið. Hugsanlegt er að við stöndum frammi fyrir því að heyja nýtt þorskastríð til varnar fiskimiðunum umhverfis landið gegn taumlausri rányrkju. Þá hlýtur að koma til álita að beita öllum tiltækum ráðum – og verða togvíraklippurnar sem nýttust vel í fyrri þorskastríðum ekki undanskildar í þeim efnum.

 

Frú forseti.

Á liðnum áratug hefur Íslandi tekist að byggja upp eitt öflugasta fríverslunarnet í heiminum. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið tryggir okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins – sem er ekki aðeins stærsta sameiginlega markaðssvæði veraldar heldur einnig okkar mikilvægasti markaður. Samræmdar reglur um viðskipti á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og óhindraður aðgangur íslenskra fyrirtækja að mörkuðum í Evrópu hefur verið einn helsti hvatinn að íslensku útrásinni. Fríverslunarsamningar EFTA við ríki utan ESB hefur síðan víkkað út það net. EFTA hefur lokið við gerð 16 fríverslunarsamninga. Í dag nær fríverslunarnet Íslands til ríkja í fjórum heimsálfum með 850 milljóna íbúa.

Við munum allt um það halda áfram að vinna að því að efla þetta net. Nýlega var lokið samningaviðræðum við Egyptaland og þá hefur þráðurinn verið tekinn upp að nýju í viðræðum við Kanada og eru vonir bundnar við að takist að ljúka þeim samningum á þessu ári. Þá hafa EFTA-ríkin sérstaklega verið að styrkja stöðu sína í Asíu. Nú fara fram viðræður við samstarfsráð ríkja við Persaflóa og í undirbúningi eru fríverslunarviðræður við Indónesíu. Í sumar var lokið við hagkvæmniathugun á gerð fríverslunarsamnings milli Íslands og Kína og standa vonir til þess að fríverslunarviðræður geti hafist á þessu ári. Það er því ljóst að þróunin á þessu sviði er hröð – og það má jafnvel gera sér í hugarlund að innan örfárra ára muni það fríverslunarnet sem Ísland er hluti af ná til ríkja með á um þriðja milljarða íbúa – eða um 1/3 alls mannkyns.

Fríverslunarsamningar og aðrir tvíhliða samningar á viðskiptasviðinu, eins og fjárfestingasamningar og tvísköttunarsamningar, geta skipt sköpum fyrir útrás íslenskra fyrirtækja. Íslensk fyrirtæki leita nú í síauknum mæli að nýjum mörkuðum og viðskiptatækifærum – og hlýtur þá áhuginn að beinast að hagvaxtarsvæðum Asíu en einnig að Austur-Evrópu og Afríku. Utanríkisþjónustan verður að vera vakandi fyrir því hvar sóknarfærin liggja og tryggja að íslensk fyrirtæki geti sem víðast notið bestu viðskiptakjara.

Jafnframt er ljóst að mikilvægi tvíhliða viðskiptasamninga eykst enn á næstu árum, eftir að samningaviðræður um aukið frelsi í heimsviðskiptum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sigldu í strand síðastliðið sumar. Á þessari stundu verður ekki fullyrt hvenær hægt verði að taka þráðinn upp að nýju, en við Íslendingar hljótum að gera okkur vonir um að viðræðurnar geti hafist að ný sem fyrst, enda eiga fáar þjóðir jafn mikið undir því að frjálsræði verði aukið í alþjóðlegum viðskiptum eins og við Íslendingar.

Eitt erfiðasta umfjöllunarefnið í þessum viðræðum eru viðskipti með landbúnaðarvörur. Af hálfu Íslands hefur verið lögð áhersla á að tryggja íslenskum landbúnaði raunhæf tækifæri til aðlögunar að breyttu rekstrarumhverfi, bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Á meðal íslenskra bænda er skilningur á nauðsyn þess að rekstrarumhverfi þeirra verði breytt og að þeir tengist alþjóðavæðingu viðskiptalífsins og hafa þeir undirbúið sig undir breytta tíma af mikill framsýni og þekkingu. Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi þróun býður upp á margvísleg tækifæri. Fram til þessa hefur tollvernd í mörgum nágrannaríkjum okkar, einkum ríkjum Evrópusambandsins, gert að verkum að tækifæri til þess að auka útflutning landbúnaðarvara eru mjög fá. Mikilvægt er að við reynum að skapa aukið svigrúm til útflutnings landbúnaðarvara. Því eru nýhafnar viðræður við Evrópusambandið um aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur – og ég er vongóð um að þær viðræður muni skila ávinningi til bæði neytenda og bænda.

 

Frú forseti.

Evrópusambandið stendur í dag á krossgötum. Við inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í Evrópusambandið um áramótin verða aðildarríki þess orðin 27 – og hafa þá 12 ný ríki bæst í hóp aðildarríkja ESB á innan við þremur árum. Stækkunin hefur haft margvísleg áhrif á ásýnd, innviði og áherslur Evrópusambandsins. Aðildarríki ESB standa nú frammi fyrir þeirri spurningu hvað nú taki við - og bendir ýmislegt til þess að ekki séu allir á eitt sáttir um svarið. Þróun mála innan ESB varðar hagsmuni Íslands með beinum hætti. Eins og ég hef vikið að hér að framan er Evópusambandið á meðal okkar mikilvægustu samstarfsaðila á fjölmörgum sviðum, ekki einvörðungu á sviði viðskipta heldur og á sviði utanríkis- og öryggismála og  löggæslusamstarfs – og er þá aðeins fátt eitt talið. Samstarf Íslands og Evrópusambandsins er byggt á sameiginlegum hagsmunum og gildismati og ég er sannfærð um að þetta samstarf mun halda áfram að styrkjast á komandi árum. Ég tel að það sé skylda utanríkisráðuneytisins að fylgjast grannt með þróun mála innan ESB þannig að þegar á reynir séum við í stakk búin til að taka ákvarðanir um hvernig hagsmunum okkar sé best borgið í samskiptum okkar við Evrópusambandið.

 

Frú forseti.

Nýlega urðu þau ánægjulegu tíðindi að samningur Íslands og Færeyja um sameiginlegt efnahagssvæði landanna, sem gjarnan er kenndur við Hoyvík í Færeyjum, öðlaðist gildi. Færeyingar eru vissulega fámenn þjóð – en raunin er sú að Færeyjar eru íslenskum fyrirtækjum mikilvægara markaðssvæði en margir stærri markaðir. Samningurinn er því stórt skref í þá átt að efla tengsl milli Íslands og Færeyja. Ég hef einnig ákveðið að stíga annað stórt skref í þeim efnum með því að opna aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum á næsta ári. Er stofnun aðalræðisskrifstofunnar nokkur tíðindi, því um er að ræða fyrstu sendiskrifstofu erlendis ríkis sem verður opnuð í Færeyjum – og er það sannarlega við hæfi að í þeim efnum skyldum við Íslendingar verða fyrstir til. Færeyingar hafa einnig sýnt áhuga á aðild að EFTA og við munum vitaskuld styðja þá í þeirri viðleitni með ráðum og dáðum.

Mér var að sönnu ánægja að við gátum fagnað gildistöku Hoyvíkur-samningsins á síðasti þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Segja má að Hoyvíkur-samningurinn, sem byggir á gagnkvæmu trausti grannþjóða, sé dæmi um norrænt samstarf eins og það gerist best. Í nýlegri könnun kemur fram að Íslendingar og Norðmenn legðu meiri áherslu á norrænt samstarf en þau Norðurlandanna sem aðild eiga að Evrópusambandinu. Þetta er okkur áminning um mikilvægi þess að efla norrænt samstarf og gera það að áhugaverðum samstarfsvettvangi fyrir Norðurlöndin öll.

 

Frú forseti.

Á sama tíma og við glímum við nýjar ógnir og ný tækifæri stöndum við Íslendingar einnig frammi fyrir því að þurfa að axla, í auknum mæli, ábyrgð á okkar eigin öryggi og vörnum. Meginstoð öryggis- og varnarstefnu Íslands er sem fyrr samkomulagið við Bandaríkin. Öryggis- og varnarstefnan er hins vegar raunar sífelldum breytingum undirorpin og þarf stöðugt að vera í endurskoðun. Slík endurskoðun kallar á yfirvegaða og vandaða umræðu um hvernig best megi sinna öryggis- og varnarþörf landsins. Þetta mál er mikilvægara en svo að afgreiða megi með flimtri eða innantómu pólitísku karpi. Allir stjórnmálaflokkar þurfa að taka þátt í þeirri stefnumótun og fræðasamfélagið þarf einnig að eiga þar aðkomu. Til skoðunar er í hvaða farveg beri að beina umræðunni til þess að hún nýtist til þeirrar stefnumótunar sem fer fram hjá stjórnvöldum. Færi vel á því að setja  á fót utanríkis- og öryggismálasetur að fyrirmynd margra nágrannaríkja okkar. Slíkt setur gæti fjallað um öryggismál í víðum skilningi, m.a. á þann máta sem ég hef gert hér í dag.

Ég gerði, hér í upphafi ræðu minnar, að umtalsefni þau margvíslegu tækifæri sem hnattstaða Íslands skapar okkur á komandi árum. Eitt helsta viðfangsefni íslenskra utanríkismála á komandi árum verður að tryggja að við nýtum þessi tækifæri – og höldum þannig áfram að treysta efnahagslega velsæld þjóðarinnar og framtíðaröryggi hennar.Video Gallery

View more videos