Landbúnaðarráðherra á fundum í Brussel

Dagana 1. og 2. febrúar s.l. átti Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra fundi með framkvæmdastjórum ESB sem fara með landbúnað, byggðaþróun og heilbrigði matvæla og dýra auk þess sem hann fundaði með forsvarsaðilum frá EFTA og ESA, þeim Lilju Viðarsdóttur annarsvegar og Kristjáns Andra Stefánsonar hinsvegar, um starfsemi stofnananna og framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið .

Á fundi með Kyprianou framkvæmdastjóra um matvælaöryggi og neytendamál ræddi landbúnaðarráðherra um yfirtöku Íslands á gerðum ESB er varða framleiðslu og heilbrigði landbúnaðarafurða, sem Ísland fram til þessa hefur haft undanþágu frá og lýsti hinu góða heilbrigðisástandi dýra á Íslandi, sem ekki er unnt að hætta með opnun fyrir innflutning dýra frá ESB. Þá gerði landbúnaðarráðherra grein fyrir sjónarmiðum Íslands gegn banni ESB á að nota fiskimjöl í fóður jórturdýra og fékk lýsingu á ferli þess máls hjá Framkvæmdastjórninni og Evrópuþinginu, sem að verulegu leiti hefur byggst á pólitík en ekki matvælaöryggi. Þá ræddi landbúnaðarráðherra ákvarðanir ESB um víðtækt námskeiðahald ESB fyrir aðildarlöndin til að þjálfa aðila frá þeim til að framkvæma hin ýmsu heilbrigðisákvæði hinnar nýju matvælalöggjafar ESB sem hefur verið að koma til framkvæmda og Ísland verður aðili að, vegna þess að Íslandi hafði aðeins verið boðinn takmarkaður aðgangur fyrir fiskiðnað, landbúnaðarafurðir og annað matvælaeftirlit. Kyprianou gaf þá yfirlýsingu á fundinum að hann hefði þegar gefið sínu fólki fyrirmæli um að Ísland hefði sama aðgang að þessum námskeiðum og aðildarlönd ESB, en honum hafði verið kynnt fyrirfram ósk landbúnaðarráðherra um að ræða þetta mál.     

Á fundi með Mariann Fisher Boel framkvæmdastjóra um landbúnaðarmálefni og   landsbyggðarþróun ræddi landbúnaðarráðherra samningsgerð við ESB á grundvelli 19. gr. EES samningsins sem gerir ráð fyrir reglulegri endurskoðun á tvíhliða samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Hann greindi frá áhrifum umræðu um matvælaverð á Íslandi og ákvarðanir um aðgerðir til lækkunar á því á þessa samningagerð. Mariann Fisher Boel gerði grein fyrir að ekki yrði um að ræða fyrirstöðu hjá einstökum aðildarlöndum ESB þannig að samningurinn ætti að geta tekið gildi fyrir 1. mars n.k. Þá ræddu ráðherrarnir ósk ESB gagnvart Noregi og Íslandi að taka til endurskoðunar ákvæði í bókun 3 með EES samningum um aukin viðskipti með unnar landbúnaðarvörur.

Var rætt um nauðsyn þess að gera landbúnaðarpólitík almennt einfaldari og þróun á hinni almennu landbúnaðarstefnu ESB (CAP) í þá átt. Við þá umræðu greindi Mariann Fisher Boel frá þeirri skoðun sinni að framleiðslukvótar í mjólk ættu ekki lengur rétt á sér í því stuðningskerfi sem ESB hefur tekið upp með eingreiðslukerfi (single payment). Í gildi væri samningur um fyrirkomulag mjólkurkvóta sem rennur út 2015 og rétt að hennar mati afnema þá eftir það.

Í lokin ræddu þau um afstöðu til Doha viðræðnanna. Samhljómur var um afstöðu til krafna þeirra ríkja sem lengst vilja ganga í frjálsræðisátt með hliðsjón af að vernda umhverfi landbúnaðarins heima fyrir og að vernda þá stoð sem landbúnaðurinn er í viðhaldi og þróun landsbyggðarinnar.   Video Gallery

View more videos